Erlent

Færri brenndir á báli en talið var

Það voru ekki nærri því jafn margir pyntaðir til játninga og brenndir á báli fyrir galdra og flestir hafa löngum talið. Þetta segja sagnfræðingar sem fóru yfir skjöl Vatíkansins til að meta útbreiðslu mannréttindabrota í tíð rannsóknarréttarins og hversu stóran hluta þess mætti rekja til kirkjunnar manna. Rannsóknin var gerð að tilstuðlan Jóhannesar Páls páfa II sem vildi fá á hreint með hvaða hætti kirkjan hefði brotið af sér í sögunni. Rannsóknarréttur kirkjunnar barðist af hörku gegn hvers kyns villutrú og kenningum sem gengu gegn viðurkenndum boðskap kirkjunnar. Rannsóknin nær yfir skjöl frá því á þrettándu öld og fram á þá nítjándu. Kirkjunnar menn segja niðurstöðurnar sýna fram á að þvert á hugmyndir manna hafi kirkjan ekki beitt pyntingum og aftökum í miklum mæli. Spánn var tekinn sem dæmi, þar hefði verið réttað í máli 125.000 meintra villutrúarmanna en aðeins um eitt prósent þeirra, um það bil 1.250 manns, verið tekin af lífi. Stór hluti galdrabrenna hefði verið framkvæmdur af borgaralegum yfirvöldum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×