Sport

Nýtt Íslands- og Norðurlandamet

Þórey Edda Elísdóttir bætti bæði Íslands- og Norðurlandametið í stangarstökki utanhúss á alþjóðlegu móti í Kassel í Þýskalandi á föstudagskvöldið. Þórey stökk 4,54 metra og bætti bæði fjögurra ára Íslandsmet Völu Flosadóttur um fjóra sentimetra sem og tveggja ára norðurlandamet sænsku stúlkunnar Kristinar Belin. Vala setti Íslandsmetið sitt á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 en stökk hennar upp á 4,50 metra færði henni þá bronsverðlaunin eftirminnilegu. Vala hefur átti íslandsmetið í stangarstökki kvenna allar götur síðan 1. júní 1998 er hún bætti fjögurra daga met Þóreyjar. Þórey Edda hefur sýnt mikinn dug í vetur, sigrast bæði á erfiðum meiðslum sem og á vonbrigðum frá síðasta tímabili. Hún bætti sinn besta árangur um um níu sentimetra en áður átti hún best stökk upp 4,45 metra á Heimsmeistaramótinu Edmonton 2001 þegar hún hafnaði í sjötta sæti. Þórey Edda á einnig Íslandsmetið innanhúss sem hún setti árið 2001 þegar hún stökk 4,51 metra. Önnur á mótinu Þórey varð önnur á mótinu, hin bandaríski heimsmetshafi, Stacy Dragila, sigraði og stökk 4,78 metra. Stökksería Þóreyjar var mjög glæsileg, hún fór yfir í fyrstu tilraun við byrjunarhæðina (4,14 metrar) og fór líka yfir 4,24 m, 4,34 m og 4,44 m í fyrstu tilraun. Þórey Edda setti Íslands- og Norðurlandametið í annarri tilraun en felldi síðan þrívegis 4,64. Þýska stúlkan Carolin Hingst stökk yfir 4,54 líkt og Þórey Edda en Þórey notaði færri tilraunir og hreppti því silfurverðlaunin á mótinu. Þessi árangur er mikill sigur fyrir Þóreyju Eddu sem var kát á heimasíðu sinni. „Þá kom loksins að því að mér tækist að slá metið, ekki verra að það gerist á ólympíuári. Mér líður alveg svakalega vel eftir þetta því vinnan í vetur og í vor er búin að vera alvegt rosalega mikil. Það er svo gaman að fá að uppskera eftir allt erfiðið. Ég er í fínu formi og hásinin virðist bara batna eftir því sem reynir meira á hana. Ég verð að viðurkenna að ég botna bara ekkert í henni. En á meðan ég get stokkið, þ.e.a.s verkurinn er betri, er ég í skýjunum,“ skrifaði Þórey Edda á heimasíðu sína en næsta mót hjá henni er hér heima um næstu helgi. Á leiðinni heim til Íslands „Næst fer ég heim og fer á viku sjúkraþjálfunarprógramm og keppi svo á Evrópubikarnum næstu helgi á Íslandi. Þar vonast ég eftir því að fólk flykkist á völlinn enda stórviðburður í fjálsum íþróttum þar á ferð,“ sagði Þórey Edda að lokum á heimasíðu sinni: /www.thorey.net. Þróun Íslandsmets kvenna í stangarstökki úti frá ´96: 4,17 Vala Flosadóttir (28.9.1996) 4,18 Þórey Edda Elísdóttir (28.5.1998) 4,20 Vala Floadóttir (1.6.1998) 4,31 Vala Flosadóttir (9.6.1998) 4,36 Vala Flosadóttir (13.6.1998) 4,50 Vala Flosadóttir (25.9.2000) 4,54 Þórey Edda Elísdóttir (11.6.2004) Besti árangur Þóreyjar á hverju ári frá 1998 1998 4,21 (9. ágúst) 1999 4,22 (30. júní) 2000 4,30 (3. júní) 2001 4,45 (6. ágúst) 2002 4,44 (27. ágúst) 2003 4,41 (7. júní)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×