Erlent

Bílsprengja í Bagdad

Öflug bílsprengja grandaði að minnsta kosti þrettán manns í Bagdad í morgun. Mikil reiði ríkir vegna tilræðisins og er óttast að frekari árásir verði gerðar. Árásin var með sama hætti og margar fyrri árásir; bíl hlöðnum sprengiefnum er ekið inn í miðja bílaþvögu á háannatíma og hann sprengdur í loft upp. Fimm hundruð kíló af sprengiefni skilja eftir sig ummerki: sundurtætta bíla, á sjöunda tug slasaðra og þrettán látna. Svo virðist sem skotmark tilræðismannsins hafi verið bílalest erlendra verktaka á leið til vinnu en Bandaríkjamaður, tveir Bretar, Frakki og einn útlendingur til voru á meðal fallinna og í það minnsta átta Írakar létust.  Múgurinn snerist gegn bandarískum hermönnum og lögreglusveitum á staðnum og lauk viðskiptum þeirra með því að hermenn og lögregla hurfu af vettvangi. Talsmenn yfirvalda í Bagdad telja víst að hópur Abus Musabs al-Zarqawis, sem stjórnar aðgerðum al-Qaeda í Írak, standi á bak við verknaðinn. Nú er rúmur hálfur mánuður þangað til ný íröksk ríkisstjórn tekur við völdum í landinu. Undanfarna daga hafa sjálsmorðsárásir, morð á stjórnmálamönnum og árásir á lögreglustöðvar verið daglegt brauð. Óttast er að þetta ástand, ofbeldið og ringulreiðin, muni enn versna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×