Erlent

Tólf biðu bana

Tólf manns biðu bana og þrettán særðust í sjálfsmorðsárás nærri bandarískri herstöð í Bagdad í gær. Íraskir lögreglumenn höfðu stöðvað bifreið sem ók gegn einstefnu þegar mikil sprenging varð með þeim afleiðingum að fjórir lögreglumenn og árásarmaðurinn létust, auk sjö óbreyttra borgara. Bandarískir hermenn voru hvergi nærri þegar sprengingin átti sér stað en leitt er að því líkum að henni hafi verið beint að herstöð þeirra, enda bíllinn á leið þangað þegar hann var stöðvaður. Þetta er þriðja bílasprengjuárásin á einni viku í Írak en síðastliðinn þriðjudag voru gerðar sprengjuárásir í tveimur íröskum borgum með þeim afleiðingum að fimmtán létu lífið og fleiri en 50 slösuðust. Yfirmaður írösku lögreglunnar í höfuðborginni, Abdul-Razzaq Kadhem, sagði að árásirnar væru fjörbrot hryðjuverkamanna. "Írak mun ekki líða undir lok. Við munum komast af," sagði Kadhem.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×