Erlent

Tókýó enn dýrasta borg heims

Enn er langdýrast að búa í Tókýó og bæði Moskva og Pétursborg eru orðnar dýrari en New York. Þetta er samkvæmt samantekt Mercer Human Resource Consulting sem unnin er fyrir ríkisstjórnir og stórfyrirtæki sem þurfa að senda starfsmenn sína til tímabundinnar dvalar víða um heim. Upplýsingarnar gefa því ekki mynd af því hvar dýrast er fyrir heimamenn að búa. Gerður er listi yfir 50 dýrustu borgirnar og er verðlagið miðað út frá verðlagi í New York sem gefið er hundrað punktar. New York er nú í tólfta sæti yfir dýrustu borgirnar en Tókýó er með rúma 130 punkta. Fjörutíu og átta punktum munar á Tókýó og ódýrustu borginni á listanum sem er Aþena í Grikklandi. London er í öðru sæti og Moskva í því þriðja en þær eru álíka dýrar. Listi tíu dýrustu borganna er annars eftirfarandi: 1. Tókýó 2. London 3. Moskva 4. Osaka  5. Hong Kong 6. Genf  7. Seoul 8. Kaupmannahöfn 9. Zurich  10. Pétursborg  Af borgum sem hafa stokkið upp listann frá í fyrra má nefna Istanbúl, Róm, Ríga, Berlín og Amsterdam. Ef dæmi eru tekin í hina áttina, þar sem nú er ódýrara að búa en í fyrra, má nefna Hanoi í Víetnam, Chicago, San Francisco og Singapore. Reykjavík er ekki að finna á þessum lista, og heldur ekki á 150 borga lista Mercher fyrirtækisins, sem líklega bendir til þess að fyrirtækið telji ekki svara kostnaði að gera slíka markaðsrannsókn hér á landi. Lífsgæði í borgunum eru líka metin og þá er allt annað uppi á teningnum því þar er Tókýó í 33. sæti og London í 34. sæti og Moskva og Pétursborg komast ekki á blað. Borgir í norðvestanverðri Evrópu eru þar áberandi í efstu sætum og því næst ástralskar og borgir á Nýja-Sjálandi. Bandarískar borgir eru frekar neðarlega á fimmtíu borga listanum yfir lífsgæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×