Erlent

Dóttir Saddams vill aftur heim

"Ef aldur væri mældur í angist og depurð hefði ég orðið áttræð í dag," sagði Raghad, elsta dóttir Saddams Hussein, í samtali við kvennatímaritið Sayidaty. Hún segir líf sitt hafa verið fullt af andlegri þjáningu og að hún myndi snúa aftur til Íraks ef hún ætti þess kost. Skilaboð hennar til föður síns væru einföld: "Ég elska þig." Raghad, Rana systir hennar og börn þeirra héldu til Jórdaníu í fyrra eftir innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak og hafa búið þar síðan. Viðtalið í Sayidaty er fyrsta blaðaviðtalið sem hún veitir frá þeim tíma. Systurnar héldu sig út af fyrir sig í Írak á sínum tíma og var samband þeirra við föður sinn slæmt um tíma en árið 1996 fyrirskipaði hann að eiginmenn þeirra yrðu teknir af lífi. Raghad sagðist hafa fengið bréf frá föður sínum fyrir milligöngu Alþjóða Rauða krossins en að þrjár af sex línum bréfsins hefðu verið þurrkaðar út. Bréfin fóru í gegnum ritskoðun Bandaríkjahers. Raghad sagðist sakna Íraks. "Ef ég hefði tækifæri myndi ég fara þangað aftur fljótar en þú getur ímyndað þér."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×