Innlent

Mjög skýr markmið Reagans

"Það var mér alveg ljóst í þessum samtölum að það var ekki tilviljun ein að hann hafði náð þessari lýðhylli og þessum áhrifum í Bandaríkjunum," segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, um Ronald Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem hann ræddi við í opinberri heimsókn til Bandaríkjanna árið 1988. Þorsteinn var eini íslenski forsætisráðherrann sem hitti Bandaríkjaforseta að máli í Hvíta húsinu. "Hann hafði greinilega mjög skýr markmið. Var ef til vill ekki best allra manna að sér í smáatriðum og hafði litla miða í lófanum til að styðjast við þegar kom að slíkum hlutum en hans hugmyndafræði og markmið voru greinilega mjög skýr," segir Þorsteinn um Reagan. "Þó að endalok kalda stríðsins hafi ef til vill verið spurning um tíma er engum vafa undirorpið að hans staðfesta og hans klára hugsun í þeim efnum réði mestu um hversu fljótt dró til loka kalda stríðsins." Á fundi sínum ræddu Þorsteinn og Reagan fyrst og fremst stöðu varnarliðsins og varnarsamstarfið, en einnig möguleika á afnámi vegabréfsáritunar sem varð veruleiki upp úr þessari heimsókn. "Reagan lagði mjög ríka áherslu á að ræða stöðu alþjóðamála," segir Þorsteinn og rifjar upp að meðal þeirra sem sátu fund með sér og Reagan var Colin Powell, þáverandi þjóðaröryggisráðgjafi og núverandi utanríkisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×