Erlent

Ráðuneytisstjóri myrtur

Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis Íraks var myrtur í morgun. Hann er fyrsti háttsetti embættismaðurinn, sem ráðinn er af dögum síðan ný bráðabirgðaríkisstjórn tók við völdum um síðustu mánaðamót. Bassam Qubba, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu í Baghdad, var á leið til vinnu frá heimili sínu þegar hópur manna skaut á bifreið hans með þeim afleiðingum að hann lét lífið á sjúkrahúsi skömmu síðar. Qubba bjó skammt frá al-Assaf moskunni í Adhamja hverfinu, þar sem súnnítar eru í meirihluta, en sjálfur var Qubba sítamúslimi frá Najaf. Þetta er fyrsta morð á háttsettum embættismanni frá því bráðabirgðastjórn tók við fyrsta þessa mánaðar. Ný bráðabirgðastjórn tekur svo við völdum af innrásarliðinu um næstu mánaðamót og er óttast að fram að því verði fleiri háttsettir embættismenn og stjórnmálamenn fyrir árásum, þar sem þeir eru álitnir stuðningsmenn Bandaríkjamanna. Qubba var skipaður ráðuneytisstjóri fyrir aðeins tveimur mánuðum, en á valdatíma Saddams Husseins var hann meðal annars sendiherra landsins í Kína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×