Erlent

Nýr kafli að hefjast

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti Íraksályktun Bandaríkjamanna og Breta í gærkvöldi með atkvæðum allra fimmtán ríkjanna sem eiga sæti í ráðinu. Ályktunin hefur tekið allnokkrum breytingum frá því hún var upphaflega lögð fram fyrir tveimur vikum. Það sem réði úrslitum um samþykkt hennar var ákvæði um að Íraksstjórn réði alfarið yfir her sínum og að hún fengi að segja sitt álit á "viðkvæmum hernaðaraðgerðum" fjölþjóðahersins. Íraksstjórn fær þó ekki neitunarvald eins og nokkur ríki öryggisráðsins höfðu krafist. Í ályktuninni er kveðið á um lýðræðisþróun í Írak og dagsetningar settar um hvaða markmiðum skuli náð hvenær. Einnig er fjallað um veru og hlutverk fjölþjóðahersins sem tekur við af hernámsliðinu sem er þar nú en bæði eru undir forystu Bandaríkjamanna og verða byggð upp á svipaðan máta. Bráðabirgðastjórn Íraks fagnar ályktuninni og telur að með henni fái stjórnin þá alþjóðlegu viðurkenningu sem hún þarfnast til að ávinna sér viðurkenningu landsmanna og nágrannaríkja. Nú sé nýr kafli að hefjast í sögu landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×