Erlent

90 fórust í eldsprengingu

Níutíu manns fórust í eldsprengingu þegar olíubíll ók á rútu í Íran í nótt. Líkin eru svo illa farin að ekki er hægt að greina þau hvert frá öðru. Sex hópferðabílar biðu við eftirlitsstöð í bænum Zahedan í suðurhluta Írans í gærkvöldi, þegar olíubíllinn kom akandi í áttina að þeim. Svo virðist sem ökumaðurinn hafi misst stjórn á olíubílnum með þeim afleiðingum að hann lenti á einni rútunni og gríðarleg sprenging varð. Sautján þúsund lítrar af bensíni dreifðust um allt og úr varð allsherjar eldhaf. Logarnir læstu sig í hinar rúturnar fimm sem urðu alelda á skammri stundu. Að auki brunnu fimm vöruflutningabílar, þar af tveir sem fluttu tjöru sem jók enn á bálið. 90 manns urðu eldinum að bráð og yfir hundrað eru slasaðir. Talsmenn Rauða hálfmánans óttast að tala þeirra sem fórust muni hækka og gæti náð allt að 200. Aðstæður á slysstað eru sagðar skelfilegar og líkin svo illa brunnin, að ekki er einungis erfitt að bera kennsl á þau, heldur er nánast vonlaust að greina þau hvert frá öðru.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×