Erlent

EFTA slæmur kostur

Vilji Bretar draga úr áhrifum sínum á alþjóðavettvangi og fórna stórveldisstimpli sínum, er besta leiðin til þess að segja sig úr Evrópusambandinu. Þeir fórna þá fullveldinu og verða áhrifalausir, eins og EFTA-ríkin. Þetta er niðurstaða leiðarahöfundar dagblaðsins Independent í dag. Töluverð umræða hefur farið fram á Bretlandi undanfarna daga í ljósi kosningasigurs breska sjálfsstæðisflokksins í Evrópuþingskosningum um helgina. Flokkurinn vill að Bretar gangi úr Evrópusambandinu. Leiðarahöfundur Independent bendir í dag á EFTA ríkin til að útskýra ókosti þess að eiga í tvíhliða sambandi við Evrópusambandið. Hann segir ríkin, Ísland, Noreg og Liechtenstein, í raun gangast undir margar lykilskuldbingingar sambandsaðildar án þess að hafa áhrifin sem fylgja fullri aðild. Löndin leggi til að mynda 132 billjónir króna á næstu fimm árum til þróunarmála innan Sambandsins, en það fé fari einkum til fátækari sambandsþjóða. Um upphæðina og það, hvert peningarnir fara, hafi þau hins vegar ekkert að segja. Ríkin þurfi einnig að leiða í lög velflesta þætti Evrópulöggjafar, í félagsmálum, neytendavernd, viðskiptarétti og umhverfislöggjöf. Þessu fylgi einnig umdeildar greinar um staðlaða banana og smokka, svo að eitthvað sé nefnt. Í raun hafi löndin fórnað fullveldinu, og hafi ekkert um málin að segja, þar sem þau séu utan Evrópusambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×