Erlent

Vilja geta frestað kosningum

Bandaríska heimavarnaráðuneytið hefur farið þess á leit við dómsmálaráðuneytið að það athugi hvernig megi seinka forsetakosningunum í haust ef hryðjuverk verða framin um það leiti sem kosningarnar eiga að fara fram. Óttast menn að hryðjuverkamenn láti til skarar skríða til að hafa áhrif á úrslit kosninganna. Engar heimildir er að finna í lögum fyrir því að fresta kosningum. Nú bregður svo við, í kjölfar viðvarana um hugsanlegar árásir, að Tom Ridge, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, hefur farið þess á leit við dómsmálaráðuneytið að það úrskurði hvaða lagalegu skilyrði þurfi að uppfylla til að fresta megi kosningum ef til árása kemur. Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði vikuritsins Newsweek. Þar segir jafnframt að DeForest B. Soaries yngri, yfirmaður nefndar sem sér um aðstoð við framkvæmd kosninga, hafi farið þess á leit við Ridge að hann fari fram á það við þingið að það samþykki lög sem veiti heimild til að fresta kosningum við ákveðnar aðstæður. Þrátt fyrir mörg stríð hefur það aldrei gerst að forsetakosningum hafi verið frestað í Bandaríkjunum. Forsetakosningar fóru fram meðan á stríði Breta og Bandaríkjamanna stóð árið 1812 en það sama ár kveiktu Bretar í höfuðborginni Washington. 1864 var forseti kjörinn þrátt fyrir að mannskætt borgarastríð stæði yfir. Forkosningum sem halda átti í New York 11. september 2001 var frestað vegna hryðjuverkaárásanna sama dag. Hugmyndir um að fresta kosningum ef til árása kemur hafa vakið blendin viðbrögð þingmanna. "Ég held ekki að það sé hægt að færa rök fyrir því að fresta kosningum í fyrsta sinn í sögunni," sagði demókratinn Dianna Feinstein í viðtali við CNN. Í viðtali við sama fjölmiðil sagði repúblikaninn Christopher Cox hins vegar rétt að vera við öllu búinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×