Erlent

Þjóðverjar þurfa að vinna meira

Þjóðverjar verða að taka sig á og vinna meira ætli þeir ekki að verða undir í alþjóðlegri samkeppni um störf. Fimmtíu stunda vinnuvika er nauðsynleg, að mati sérfræðinga. Langt er um liðið síðan að viðskiptaundrið Þýskaland leið undir lok og ímynd hins vinnuglaða Þjóðverja varð að goðsögn án stoðar í raunveruleikanum. Flestir Þjóðverjar vinna 35 stunda vinnuviku og þykja ekki sérstaklega góður vinnukraftur. Nú segja sérfræðingar slóðaháttinn ekki duga lengur, grípa verði til róttækra aðgerða eigi störf ekki að flytjast í stórum stíl til útlanda. Breyta verði lögum svo að fyrirtæki geti lagt meiri yfirvinnu á starfsfólk sitt, og látið það vinna allt að 50 stunda vinnuviku, jafnvel án þess að hljóta sérstaka umbun fyrir. Öðrum kosti sé Þýskaland ekki lengur samkeppnishæft. Atvinnuleysi í Þýskalandi dróst saman í júní í fyrsta sinn í fimm mánuði, samkvæmt tölum sem þýska vinnumálastofnunin birti í morgun. Atvinnuleysi hefur um margra ára skeið verið viðvarandi vandi í Þýskalandi, einkum í austurhluta landsins. Talið er að breytinguna megi einkum rekja til árstíðabundinna sveiflna, frekar en almenns efnahagsbata í landinu, sem sérfræðingar segja ekki duga til þess að fyrirtæki ráði mannskap til sín í ný störf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×