Erlent

Arafat boðar vopnahlé

Vopnahlé verður í Miðausturlöndum á meðan Ólympíuleikarnir í Aþenu standa yfir. Jassir Arafat, leiðtogi Palestínumanna, tilkynnti þetta í dag. Hugmyndinni er þó ekki tekið vel alls staðar. Arafat lýsti þessu yfir þar sem hann kveikti olympíueld í höfuðstöðvum sínum í Ramalla í dag. "Ég tilkynni hér með að við höfum gert vopnahlé, algjört vopnahlé. Ég undirritaði það í höfuðstöðvum mínum og það mun gilda á meðan á Ólympíuleikunum stendur." Með Arafat voru konsúll Grikkja í Jerúsalem og grískættaður spjótkastari, sem hyggst keppa fyrir Palestínu á Ólympíuleikunum í Aþenu. Yfirlýsing Arafats ætti að þýða vopnahlé á sama tíma og Ísraelsmenn draga herlið sitt frá Gasa-ströndinni, en Egyptar og nágrannar Palestínumanna hafa þrýst mjög á þá að gera vopnahlé á þeim tíma. Ísraelsmenn eru þó lítt sannfærðir og trúa ekki Arafat. Þeir höfnuðu hugmyndum hans síðdegis, sögðu þær falskar, og sökuðu Arafat um að hafa staðið á bak við hryðjuverkin á Ólympíuleikunum í München árið 1972.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×