Erlent

Ræða þjóðstjórn í Ísrael

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels og leiðtogi Likud, fundar á morgun með Shimon Peres, leiðtoga Verkamannaflokksins - stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Ísrael - um að flokkarnir taki höndum saman ásamt Shinui um þjóðarstjórn. Ljóst er þó að andstaða er við slíka stjórn í báðum flokkum, einkum þó í Likud. Ríkisstjórn Likud, Shinui og smáflokka nýtur ekki lengur meirihlutastuðnings á þingi. Hann missti stjórnin í kjölfar þess að Sharon lagði fram áætlun sína um brotthvarf frá Gaza. Verkamannaflokkurinn hefur ítrekað varið stjórnina vantrausti með því að sitja hjá en hefur hingað til farið varlega í yfirlýsingar um að hann sé reiðubúinn að koma inn í stjórnina. Nokkrir þingmenn Likud, sem eru andvígir hugmyndinni um þjóðstjórn með Verkamannaflokknum, koma saman á morgun og ræða hvað skuli gera. Hugmyndinni um þjóðstjórn er öllu betur tekið í næst stærsta stjórnarflokknum, Shinui, sem hafði það að stefnumiði fyrir síðustu kosningar að flokkarnir þrír ynnu saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×