Erlent

Samþykktu brottflutning landnema

Ísraelska þingið samþykkti í gærkvöld áætlun Ariels Sharon forsætisráðherra um brottflutning ísraelskra landnema frá Gaza og fjórum svæðum á Vesturbakkanum. Auk landnemanna draga Ísraelsmenn herlið, sem verndað hefur landnemabyggðirnar á þessum svæðum, til baka. Áætlunin markar markar þáttaskil í deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna því aldrei áður hafa ísraelsk stjórnvöld samþykkt að flytja landnema frá Gaza eða Vesturbakkanum. Ísraelar munu áfram hafa eftirlit með landamærum Gaza og lofthelgi. Brottflutningur landnemanna og herliðsins verður framkvæmdur í skrefum og mun ríkisstjórnin þurfa að samþykkja hvert einstakt tilfelli fyrir sig. Áætlunin var samþykkt með 67 atkvæðum gegn 45 eftir tvo stormasama daga í þinginu. Sharon hafði hótað að reka þá ráðherra Likud-bandalagsins sem ekki myndu greiða atkvæði með áætluninni. Þeir gerðu það allir en áður Sharon hafði rekið tvo þeirra. Það voru friðarsinnaðir stjórnarandstöðuflokkar sem tryggðu áætluninni framgöngu með því að greiða atkvæði með henni. Fjöldi fólks kom saman fyrir utan þinghúsið, mest landnemar, til að mótmæla áætlun stjórnvalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×