Sport

Detroit drottnar yfir Lakers

Detroit Pistons eru nú aðeins einum sigri frá NBA-meistaratitlinum en liðið lagði Los Angeles Lakers að velli, 88-80, í fjórða leik liðanna, í Detroit. Þar með er staðan 3-1 fyrir Detroit og næsti leikur fer einnig fram í Detroit og búast má við liðið leggi allt í sölurnar í þeim leik því þeir vilja helst af öllu sleppa við ferð til Los Angeles. Lið sem hefur náð 3-1 forystu í lokaúrslitum hefur alltaf hampað titlinum og ætti lið Detroit samkvæmt því að vera í góðum málum. Leikurinn var í jafnvægi lengstum og eftir þriðja leikhluta var jafnt, 56-56. Á lokakaflanum reyndust svo heimamenn sterkari og komust í kjöraðstöðu og líklegast er titillinn aftur á leiðinni til Detroit eftir fjórtán ára fjarrveru. Enginn skyldi þó afskrifa Lakers en greinilegt er að eitthvað mikið er að á þeim bæ og spurning hvort liðið nái að leysa sín vandamál á þeim stutta tíma sem til stefnu er. Hjá heimamönnum var Rasheed Wallace gríðarlega góður og skoraði 26 stig og reif niður 13 fráköst. Chauncey Billups lagði sitt af mörkum með 23 stigum og þá var Richard Hamilton með 17 stig og sex stoðsendingar. Hjá Lakers var Shaquille O´Neal algjör yfirburðamaður en hann skoraði 36 stig og hirti 20 fráköst. Kobe Bryant skoraði 20 stig og það er hreint ekki gæfulegt þegar tveir leikmenn skora yfir 70% stiga liðsins. "Við höfum ekki getað neitt í tveim síðustu leikjum og erum að renna út á tíma. Það er einfaldlega að duga eða drepast í næsta leik," sagði Kobe Bryant vonsvikinn eftir leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×