Erlent

Ævisaga Clintons væntanleg

Ævisaga Bills Clintons, My Life, kemur út síðar í mánuðinum og ef fer sem horfir verður hún söluhæsta stjórnmálabók allra tíma. Bæði hjá netbókabúðinni Amazon og bókabúðakeðjunni Barnes and Noble er ævisagan í efsta sæti metsölulistans, þó að hún sé ekki ennþá komin út. Útgefandinn lét prenta eina og hálfa milljón eintaka í fyrstu prentun og er það upplag nú þegar uppselt. Bóksalar vestanhafs hafa ekki séð annað eins síðan Harry Potter æðið stóð sem hæst. Enginn veit hvað kemur fram í bókinni en leyndarhjúpur liggur yfir henni. Blöð og tímarit munu til að mynda ekki fá að birta útdrætti eða valda kafla úr henni. Clinton sjálfur segir að pólitískar ævisögur séu venjulega leiðinlegar og sjálfhverfar. Sín bók sé hins vegar áhugaverð og sjálfhverf. Á meðfylgjandi mynd sést Clinton á tali við John Kerry, forsetaframbjóðanda demókrata, í útför Ronalds Reagans á dögunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×