Innlent

Fundu sverð sem gæti verið frá árinu 1000

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sverðið var afhent Minjastofnun í dag.
Sverðið var afhent Minjastofnun í dag. Mynd/Árni Björn Valdimarsson
„Við ætluðum bara á veiðar en enduðum í fornleifauppgreftri,“ segir Árni Björn Valdimarsson gæsaveiðimaður sem var á skytterí í Skaftárhreppi á Suðurlandi um helgina ásamt félaga sínum þegar þeir ráku augun í sverð sem Minjastofnun telur að gæti verið frá árinu 1000. Mjög merkilegur fundur segir forstöðumaður Minjastofnunnar.

„Þetta lá bara þarna í sandinum og við þurftum ekki að grafa það upp eða neitt“ segir Árni Björn í samtali við Vísi og telur hann líklegt að því hafi skolað á þann stað þar sem það fannst í nýlegu flóði. Má hann þó ekki gefa upp nákvæma staðsetningu enda hafi Minjastofnun áhuga á því að kanna svæðið frekar.

Sverðið fannst á föstudag og geymdu þeir félagar sverðið í bílnum áður en að Árni Björn settu mynd af sverðinu á Facebook og eftir það fóru hjólin að snúast.

Sverðið er ansi heillegt.Vísir/Árni Björn Valdimarsson.
„Það fór allt á flug og þetta endar með að Minjastofnun hefur samband við okkur og þar vildu menn fá að skoða sverðið,“ segir Árni sem fór nú í morgunsárið með sverðið til Minjastofnunnar. Við fyrstu sýn telja sérfræðingar stofnunarinnar að sverðið sé ævafornt.

„Minjastofnun telur, svona við fyrstu sýn, að þetta sé frá árinu 1000 eða þar í kring,“ segir Árni Björn sem segir að sverðið hafi verið merkilega heillegt, ansi ryðgað en þó í fínu ásigkomulagi að öðru leyti.

Eingöngu fundist tuttugu sverð frá þessu tímabili

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunnar, segir að um mjög merkilegan fund sé að ræða enda hafi mjög fá sverð varðveist frá þessum tíma, reynist sverðið vera jafngamalt og fyrsta skoðun bendir til.

„Þetta er mjög merkilegur fundur en það hafa bara fundist tuttugu sverð frá þessum tíma. Við teljum að sverðið sé frá seinni hluta tíundu aldar. Það er mjög sérstakt að fá svona heillegt sverð,“ segir Kristín. „Við erum alveg í skýjunum.“

Minjastofnun hefur nú afhent forvörðum Þjóðminjasafnsins sverðið þar sem það mun vera rannsakað enn frekar svo hægt sé að aldursgreina sverðið. Þá eru minjaverðir Minjastofnunar að kemba svæðið þar sem sverðið fannst til að athuga hvort að fleiri munir finnist. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×