Upp­gjörið: Breiða­blik - FH 2-1 | Ótrú­leg endur­koma og Blikar að stinga af

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Birta Georgsdóttir reyndist hetja Breiðabliks.
Birta Georgsdóttir reyndist hetja Breiðabliks. vísir/Viktor Freyr

Íslandsmeistarar Breiðabliks tók á móti FH í 16. umferð Bestu deild kvenna í kvöld. Gestirnir úr Hafnafirði komust yfir og virtust lengi vel ætla að stela stigunum þremur þrátt fyrir mikinn sóknarþunga frá heimakonum. Birta Georgsdóttir steig hins vegar upp þegar mest á reyndi og tryggði Blikum þrjú stig og örugga forystu á toppi deildarinnar.

FH-ingar byrjuðu leikinn vel og komust strax yfir á 10. mínútu þegar Berglind Freyja Hlynsdóttir skoraði. Eftir markið héldu gestirnir vel í boltann og stjórnuðu leiknum að mestu í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir mörg góð færi hjá báðum liðum, tókst hvorugu liðinu að bæta við marki og staðan því í hálfleik 0-1 fyrir FH.

Breiðablik kom af krafti út í seinni hálfleik og tóku öll völd á vellinum. Blikar sóttu stíft og sköpuðu sér fjölda marktækifæra en náðu ekki að koma boltanum í netið. Birga Georgsdóttir tókst að jafna leikinn á 90. mínútu með marki sem hafði hreinlega legið í loftinu í 45 mínútur. Boltinn barst þá til hennar á fjærstöng þar sem hún átti skot í stöng. Boltinn skaust hins vegar aftur til Birtu sem var ekki lengi að athafna sig og lagði boltann snyrtilega í netið. 

Þarna voru Blikar komnir með blóð á tennurnar og þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fékk Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir boltann á vallarhelmingi FH. Hún óð að teignum áður en hún renndi boltanum á Birtu sem afgreiddi færið snyrtilega niðri í fjær. Frábærlega gert hjá varamönnunum tveimur en varnarleikur FH til háborinnar skammar á þessu mikilvæga augnabliki.

Reyndist það sigurmark leiksing og Íslandsmeistarar Breiðabliks nú með 8 stiga forystu á toppi Bestu.

Atvik leiksins

Fyrsta mark Blika sem hafði legið í loftinu í heilar 45 mínútur.

Stjörnur og skúrkar

Macy Elizabeth Enneking, markvörður FH, átti stórgóðan leik í kvöld og hélt FH-ingum yfir mesta hluta leiksins.

Varamaðurinn Birta Georgsdóttir er maður leiksins. Tvö mörk á síðustu mínútum leiksins.

Stemmning og umgjörð

Umgjörðin er alltaf mjög fín hérna á Kópavogsvelli. Það er einnig alltaf góð stemning hérna, mikill söngur og mikil læti.

Dómarar

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson var á flautunni í kvöld. Kristofer Bergmann og Magnús Garðarsson voru með honum hlaupandi upp og niður hliðarlínuna.

„Þessi seinni hálfleikur var besti 45 mínútna kafli sem nokkurt lið hefur spilað“

Þjálfari Breiðabliks fylgist með.Vísir/Diego

„Ég hélt miðað við öll marktækifærin að þetta væri hreinlega ekki okkar dagur. Einn af þessum leikjum þar sem liðið virðist vera að spila í heilan mánuð og nær ekki að skora,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, eftir sigurinn í kvöld.

„Allur heiðurinn á að fara til leikmanna liðsins. Þær héldu áfram og gerðu réttu hlutina. Það er mjög auðvelt að verða stressaður, og bara skjóta einhvert og lúðra boltanum inn í teig. En við héldum áfram að gera réttu hlutina og sigurmarkið sýndi það. Við færðum boltann í rétt svæði, réttar sendingar í gegn og Birta Georgsdóttir er líklega besti leikmaður landsins í að klára færi í dag.“ sagði Nik.

Birta Georgsdóttir kom inn á sem varamaður á 64. mínútu og átti frábæran leik fyrir Breiðablik. Hún skoraði tvö mörk í blálokin og tryggði Blikum þar með öll þrjú stigin.

„Ég var mjög ánægður með innkomu Birtu og í raun allra varamanna. Birta hefur verið meidd undanfarið og þess vegna byrjaði hún ekki leikinn í dag. En hún var frábær í hálftíma og það var heljarinnar hálftími. Í ár hefur hún tekið mörg skref upp á við og verið frábær.“

„Heilt yfir er ég sáttur - fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, en sá seinni var einhliða umferð með látlausum árásum. Ég bað liðið í hálfleik að sýna sitt sanna sjálf og þessi seinni hálfleikur var besti 45 mínútna kafli sem nokkurt lið hefur spilað á Íslandi á þessu ári.“


Tengdar fréttir

Hetja Blika: „Einn leikur í einu“

Þrátt fyrir að hafa tryggt toppliði Breiðabliks hádramatískan sigur á FH, liðinu í 2. sæti Bestu deildar kvenna, var Birta Georgsdóttir með báða fæturna á jörðinni þegar hún ræddi við Sýn Sport eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira