Fleiri fréttir

Portsmouth kaupir Traore

Enska úrvalsdeildarfélagið Portsmouth er duglegt á leikmannamarkaðnum þessa dagana og í morgun gekk það frá kaupum á Malímanninum Djimi Traore frá Charlton. Traore hefur ekki gert gott mót í veru sinni hjá Charlton en hann var áður hjá Liverpool. Kaupverðið er 1 milljón punda og hefur hann gert tveggja og hálfs árs samning.

Mourinho fær ekki að kaupa leikmenn

Jose Mourinho segist ekki ætla að selja einn einasta leikmann frá liði Chelsea í janúar því sér hafi verið bannað að styrkja hópinn. Hann hefði ætlað sér að kaupa sóknar- og varnarmann, en nú virðist vera komið upp vandamál í sambandi Mourinho og stjórnar félagsins.

Wade kemur Miami til bjargar

Hinn magnaði Dwyane Wade hjá meisturum Miami er kominn aftur á fulla ferð eftir að missa úr fjóra leiki vegna meiðsla og segist ekki hafa verið eins ferskur lengi. Það sýndi sig í nótt þegar hann tryggði Miami 107-103 sigur á Seattle með því að skora 14 af 29 stigum sínum á síðustu 8 mínútunum.

Dusty Klatt ekki brotinn

"Þetta lítur betur út en á horfðist" segir Dusty Klatt um byltuna sem hann átti í annari umferð í minni flokknum í Anaheim síðastliðina helgi. Dusty Klatt sem var gríðarlega sterkur í tímatökum og átti eina hröðustu hringina datt þegar þegar hann var í svokölluðum þvottabretta-kafla.

10 dagar í úrtöku Meistaradeildar

Nú eru aðeins 10 dagar í að úrtaka fyrir Meistaradeild VÍS fer fram í Ölfushöll á Ingólfshvoli, en hún verður haldin laugardaginn 20. janúar næstkomandi. Það er mikill hugur í mönnum fyrir úrtökuna og keppast menn nú í hverju horni að þjálfa þann klár sem stefna skal með í úrtökuna.

Gylfi Freyr í axlaraðgerð

Gylfi Freyr Guðmundsson, núverandi Íslandsmeistari í Mótorkrossi, gekkst nýverið undir aðgerð á öxl, en Gylfi átti við þrálát meiðsl að stríða undir lok síðasta keppnistímabils. Aðgerðin heppnaðist vel og reiknar Gylfi með að geta beitt sér að fullu í sumar.

Ragnar Ingi áfram hjá KTM

Ragnar Ingi Stefánsson, nífaldur Íslandsmeistari í Mótorkrossi, mun keppa fyrir KTM í sumar. Ragnar ók KTM 525 keppnishjóli s.l. sumar og átti ágætt tímabil en reiknar með því að aka nýrri týpu, KTM 505 í sumar en það er útboruð keppnisútgáfa af hinu vinsæla 450 hjóli frá KTM.

Bikarmeistararnir fá ÍR í heimsókn

Í kvöld var dregið í undanúrslit bikarkeppninnar í körfubolta. Bikarmeistarar Grindavíkur í karlaflokki mæta þá ÍR og Hamar/Selfoss fær heimaleik gegn Keflavík. Í kvennaflokki mætast annarsvegar Keflavík og Hamar og hinsvegar Grindavík og Haukar. Leikirnir fara fram í lok mánaðarins.

Wycombe náði jöfnu gegn Chelsea

Kraftaverkalið Wycombe heldur áfram að koma á óvart í enska deildarbikarnum og í kvöld náði liðið 1-1 jafntefli gegn Chelsea á heimavelli sínum. Wayne Bridge kom Chelsea yfir í fyrri hálfleik, en hinn magnaði Jermaine Easter jafnaði metin fyrir Wycombe, sem er þremur deildum neðar en Chelsea í töflunni. Easter hefur nú skorað í öllum leikjum liðsins í keppninni. Síðari leikur liðanna er svo á Stamford Bridge.

Ójafn leikur í kvennakörfunni

Tveir leikir fóru fram í efstu deild kvenna í körfubolta í kvöld þar sem grannarnir Grindavík og Keflavík völtuðu yfir andstæðinga sína. Keflavík rótburstaði Breiðablik 128-44 og Grindavík lagði Hamar 96-50. Keflavík hefur tveggja stiga forskot á Hauka á toppi deildarinnar en Íslandsmeistararnir eiga leik til góða. Grindavík er svo í þriðja sætinu.

Hauka lögðu ÍBV

Einn leikur var á dagskrá í DHL-deild kvenna í kvöld. Haukastúlkur lögðu ÍBV 35-28 á Ásvöllum. Liðin eru á svipuðu róli í deildinni en Haukar eru í fjórða sætinu með 16 stig, en ÍBV í því fimmta með 11 stig.

Marcelo frá í sex vikur

Bakvörðurinn ungi Marcelo hjá Real Madrid verður frá keppni í um sex vikur eftir að hann meiddist á ökkla í 2-0 tapi Real gegn Deportivo í spænsku deildinni um síðustu helgi. Marcelo gekk í raðir Real frá Fluminese í heimalandi sínu Brasilíu um leið og janúarglugginn opnaði.

Webber á leið frá Philadelphia

Segja má að vorhreingerningarnar hefjist snemma hjá liði Philadelphia 76ers þetta árið en félagið er í þessum töluðu orðum að ganga frá því að kaupa framherjann Chris Webber út úr samningi sínum. Webber er 34 ára gamall og orðinn nokkuð lúinn sem leikmaður, en á hvorki meira né minna en 43 milljónir eftir á samningi sínum sem gildir út næsta keppnistímabil.

Mijatovic tekur orð sín til baka

Yfirmaður knattspyrnumála hjá Real Madrid, Predrag Mijatovic, hefur dregið ummæli sín við Sky sjónvarpsstöðina í dag til baka og segir ekkert til í þeim fréttaflutningi að David Beckham sé á förum frá stórliðinu.

Souness leggur fram formlegt tilboð í Wolves

Hópur fjárfesta undir stjórn fyrrum knattspyrnustjórans Graeme Souness lagði í dag fram formlegt yfirtökutilboð í knattspyrnufélagið Woves. Tilboðið hljóðar upp á 20 milljónir punda og þykir áhugavert fyrir þær sakir að aðeins Englendingar koma að því, en mikið veður hefur verið gert á Englandi vegna mikilla umsvifa erlendra fjárfesta í knattspyrnunni þar í landi.

Kári Árnason til Danmerkur

Landsliðsmaðurinn Kári Árnason hjá Djurgarden í Svíþjóð gengur í raðir danska liðsins AGF í Árósum um helgina ef marka má fréttir frá Danmörku. Langt er síðan ljóst varð að Kári yrði ekki áfram í herbúðum sænska liðsins og nú er útlit fyrir að leikmaðurinn gangi í raðir hins fornfræga danska liðs á næstu dögum.

Tveir leikir í beinni í kvöld

Sjónvarpsstöðvar Sýnar verða með tvær beinar útsendingar í fótboltanum í kvöld og hefjast þær báðar klukkan 19:50. Fyrri leikur Wycombe og Chelsea í undanúrslitum enska deildarbikarsins verður sýndur á Sýn og á Sýn Extra verður fyrri leikur Alaves og Barcelona í spænska bikarnum, þar sem Eiður Smári Guðjohnsen verður væntanlega í byrjunarliði Katalóníuliðsins.

Klose vill ekki fara hvert sem er

Þýski landsliðsframherjinn Miroslav Klose segir aðeins fimm félög koma til greina fyrir sig ef hann ákveði að yfirgefa herbúðir Werder Bremen í sumar eins og flestir reikna með. Klose hefur verið orðaður við fjölda stórliða eftir að ljóst varð að hann ætlaði ekki að framlengja við Bremen.

Portsmouth fær miðjumann að láni

Enska úrvalsdeildarfélagið Portsmouth hefur fengið miðjumanninn Arnold Mvuemba að láni frá franska liðinu Rennes út leiktíðina. Mvuemba þessi er 21 árs gamall og ef hann stendur sig vel á Englandi gæti farið svo að Portsmouth gengi frá kaupum á honum í sumar.

Jákvæðar fréttir hjá Everton

Lið Everton fékk þær góðu fréttir í dag að miðjumaðurinn Tim Cahill sé orðinn heill á ný eftir meiðsli og svo gæti farið að hann fengi strax sæti í byrjunarliðinu á ný eftir að Everton tapaði illa í síðasta leik. David Moyes hefur boðað breytingar í kjölfarið og þá fékk félagið þau tíðindi í dag að meiðsli bakvarðarins Nuno Valente væru ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu - svo gæti farið að hann missti aðeins úr tvo leiki.

Mills frjálst að fara frá City

Stuart Pearce, stjóri Manchester City, segir að varnarmanninum Danny Mills sé frjálst að fara frá félaginu. Mills missti sæti sitt í hendur hins unga og efnilega Micah Richards og hefur verið sem lánsmaður hjá Hull City í 1. deild í tvo mánuði. Þar hefur hann staðið sig vel og sagt er að félagið hafi áhuga á að ganga frá kaupum á leikmanninum.

Pires að ná sér

Franski miðjumaðurinn Robert Pires hjá Villarreal er nú óðum að ná sér af hnémeiðslum sínum, níu mánuðum eftir að hann gekk í raðir spænska liðsins frá Arsenal. Pires hefur enn ekki spilað alvöruleik með Villarreal eftir að hann meiddist á hné í æfingaleik í sumar en er nú búinn í endurhæfingu og fær væntanlega tækifæri með liðinu fljótlega.

Benitez kvartar yfir peningaleysi

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, segir að félagið hafi ekki nógu mikla peninga úr að moða til að geta fjárfest í ungum og efnilegum leikmönnum. Leikmannakaup stjórans á liðnum árum voru gagnrýnd nokkuð í breskum blöðum í dag í kjölfar ófara liðsins í leikjunum tveimur gegn Arsenal.

Stutt í endurkomu Petr Cech

Nú styttist óðum í endurkomu markvarðarins Petr Cech hjá Chelsea, en hann hefur ekki spilað leik í þrjá mánuði eftir að hann höfuðkúpubrotnaði í leik gegn Reading í október. Markvörðurinn segist vera kominn í fínt form en bíður eftir að fá endanlega græna ljósið frá læknum til að fá að spila á ný.

Treyja Kobe Bryant orðin vinsælust á ný

Svo virðist sem vinsældir körfuboltamannsins Kobe Bryant séu aftur að ná hámarki, en samkvæmt nýjustu tölum frá Bandaríkjunum á hann nú söluhæstu keppnistreyjuna á markaðnum í dag. Bryant var á toppnum árið 2003, en Dwyane Wade hjá Miami hirti toppsætið árið 2005 og hafði haldið því síðan. Treyja LeBron James er í þriðja sætinu og liðsfélagarnir Allen Iverson og Carmelo Anthony hjá Denver eru í fjórða og fimmta sæti.

Luis Garcia spilar ekki meira í vetur

Spánverjinn Luis Garcia hjá Liverpool verður ekki meira með liðinu á leiktíðinni eftir að hann sleit krossbönd í hné í leiknum gegn Arsenal í bikarnum í gær. Garcia getur ekki spilað fótbolta í amk 6 mánuði vegna þessa. Þá verður félagi hans Mark Gonzalez frá í um þrjár vikur vegna meiðsla sem hann hlaut í sama leik.

Búið að velja í stjörnuliðin

Nú er búið að velja í stjörnulið karla og kvenna í körfubolta, en árlegir stjörnuleikir fara fram í DHL-höllinni í vesturbænum á laugardaginn. Kvennaleikurinn er klukkan 14 og karlaleikurinn klukkan 16. Blandað er í liðum í kvennaflokki en hjá körlunum er það úrvalslið Íslendinga gegn úrvalsliði Íslands. Þá verða skotkeppnin og troðkeppnin á sínum stað ef næg þáttaka verður.

Raikkönen ætlar ekki að breyta um stíl

Finnski ökuþórinn Kimi Raikkönen segist ekki ætla að breyta um stíl eftir að hann gekk í raðir Ferrari frá McLaren í Formúlu 1, hvorki utan vallar né innan. Raikkönen hefur verið gagnrýndur af Formúlusérfræðingum fyrir að taka ekki nógu vel leiðsögn og fyrir að taka íþróttina ekki nógu alvarlega.

Wenger og Ljungberg ósáttir

Sænska dagblaðið Expressen hefur eftir vini Freddy Ljungberg hjá Arsenal að Arsene Wenger knattspyrnustjóri sé að bola honum frá félaginu. Wenger á að hafa gert Svíanum það ljóst að hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Arsenal.

Ullrich á að snúa aftur til æfinga

Erik Zabel, fyrrum liðsfélagi hjólreiðakappans Jan Ullrich, segir að honum ætti í það minnsta að vera gert kleift að æfa á meðan ekki þykir fullsannað að hann hafi neytt ólöglegra lyfja. Ullrich var rekinn frá liði T-mobile eftir að rannsókn var hrundið á stað í tengslum við harðar ásakanir um lyfjamisnotkun.

Wie á ekki möguleika í karlana

Ástralinn Stuart Appleby segir að ungstirnið Michelle Wie eigi ekki möguleika á að keppa á karlamótum og segir allt of snemmt fyrir hana að reyna fyrir sér á þeim vettvangi. Wie tekur þátt í sínu 13. móti um næstu helgi sem fram fer á Havaí.

Venus Williams missir af opna ástralska

Meiðslakálfurinn Venus Williams getur ekki tekið þátt í opna ástralska meistaramótinu í tennis vegna handameiðsla. Williams er aðeins í 48. sæti á styrkleikalistanum eftir að hafa vermt toppsætið í eina tíð. Stigahæsta tenniskona heims, Justine Henin-Hardenne, getur heldur ekki tekið þátt vegna meiðsla.

Sainz eykur forskot sitt

Spænski rallökumaðurinn Carlos Sainz hefur nú þriggja og hálfrar mínútu forskot á næsta mann í París-Dakar kappakstrinum þegar eknar hafa verið fimm dagleiðir. Sainz sigraði á fimmtu dagleiðinni þegar ekið var frá Ourzazate til Tan Tan í suðurhluta Marokkó í Afríku. Landi hans Isidre Esteve Pujol er í forystu í vélhjólaflokki.

Nedved neitaði Tottenham

Tékkneski miðjumaðurinn Pavel Nedved hjá Juventus segist hafa neitað tilboði um að ganga í raðir Tottenham og fleiri liða síðasta sumar. Hann segist hafa neitað tilboðinu því fjölskylda hans sé búin að koma sér svo vel fyrir í Tórínó og þar ætli hann að búa eftir að hann leggur skóna á hilluna.

Beckham á förum frá Real Madrid

David Beckham fer frá Real Madrid í sumar. Þetta fullyrðir yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu Predrag Mijatovic við Sky sjónvarpsstöðina í dag. Samningur Beckham við Real rennur út í sumar og hafa viðræður um framlengingu hans nú strandað. Beckham er frjálst að ræða við önnur félög nú þegar.

Dallas vann góðan sigur í Utah

Dallas er komið aftur á sigurbraut eftir að liðið lagði keppinauta sína í Utah Jazz á útivelli 108-105 í hörkuleik í Salt Lake City. Dirk Nowitzki fór fyrir Dallas með 38 stigum en Carlos Boozer skoraði 29 stig fyrir Utah.

Walter Smith tekur við Glasgow Rangers

Walter Smith hefur sagt af sér sem landsliðsjálfari Skotlands og var í dag ráðinn knattspyrnustjóri Glasgow Rangers í annað sinn á ferlinum. Skoska knattspyrnusambandið ætlar að höfða mál á hendur Smith fyrir að svíkja samning sinn, en hann hefur þegar skrifað undir 3 ára samning við Rangers og tekur við liðinu í annað sinn á ferlinum.

Benitez bað stuðningsmenn afsökunar

Rafa Benitez bað stuðningsmenn Liverpool afsökunar á frammistöðu liðsins gegn Arsenal í deildarbikarnum eftir 6-3 tapið á Anfield. Þetta var annað stóra tapið í röð hjá Liverpool gegn Arsenal á heimavelli á nokkrum dögum.

Arsenal valtaði yfir Liverpool í sögulegum leik

Arsenal burstaði Liverpool 6-3 á Anfield í ótrúlegum knattspyrnuleik sem fer í sögubækurnar. Arsenal sló Liverpool út úr enska bikarnum um helgina og sló heimamenn út úr deildarbikarnum í kvöld. Julio Baptista skoraði fjögur mörk fyrir Arsenal og misnotaði þar að auki vítaspyrnu.

HK náði jafntefli við Val

Þrír leikir fóru fram í DHL-deild kvenna í handbolta í kvöld. HK náði 29-29 jafntefli við topplið Vals á útivelli, Stjarnan skellti Gróttu 26-10 á útivelli og þá vann Fram sömuleiðis útisigur á botnliði Akureyrar. Valur er á toppnum með 18 stig eftir 11 leiki, Stjarnan hefur 16 stig eftir 10 leiki, Grótta hefur 16 stig eftir 12 leiki og Haukar hafa 14 stig eftir 11 leiki.

Keflavík og ÍR í undanúrslit

Keflavík og ÍR tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar í körfubolta. Keflvíkingar burstuðu lið FSU 117-77 og ÍR-ingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Skallagrím 82-88 í Seljaskóla. Það eru því Keflavík, Grindavík, Hamar/Selfoss og ÍR sem eru komin í undanúrslitin í bikarnum.

Arsenal fer á kostum á Anfield

Arsenal er svo sannarlega að gera Liverpool lífið leitt þessa dagana en liðið hefur 4-1 forystu á Anfield í hálfleik í leik liðanna í enska deildarbikarnum. Julio Baptista hefur skorað tvö marka Arsenal, Jeremie Aliadiere eitt og Alexandre Song eitt. Robbie Fowler skoraði mark Liverpool í þessum ótrúlega leik sem sýndur er beint á Sýn.

Ronny Johnsen íhugar að hætta

Norski varnarjaxlinn Ronny Johnsen er að íhuga að leggja skóna á hilluna ef marka má fréttir frá Svíþjóð í kvöld. Johnsen leikur með Árna Gauti Arasyni hjá Valerenga í Noregi, en fór ekki með liðinu í æfingabúðir á Kanaríeyjum sem standa nú yfir. Johnsen er 37 ára gamall og gerði garðinn frægan hjá Manchester United á árum áður.

James Stewart sigraði í Anaheim

James Stewart vann í þriðju umferð í supercrossinu í Anaheim. Annar varð Ricky Carmichael og Chad Reed þriðji. Í minni flokknum var það hinn ungi og efnilegi Ryan Villopoto sem sigraði. Annar var Christophe Pourcel en þriðji varð Jason Lawrance.

Sjá næstu 50 fréttir