Fleiri fréttir

Samningar náðust um gassölu til Hvítarússlands

Stjórnvöld í Hvítarússlandi tilkynntu í nótt að þau hefðu skrifað undir samkomulag við Gazprom olíufyrirtækið rússneska og þar með komið í veg fyrir að skrúfað yrði fyrir gassölu frá Rússlandi. Forstjóri Gazprom segir að samkomulagið geri ráð fyrir rúmlega að verð á gasi hækki úr 46 dollurum fyrir þúsund rúmmetra í 100 dolllara, sem er rúmlega tvöföldun.

Veður hamlar björgunaraðgerðum við Jövu

Slæmt veður kemur í veg fyrir að indónesískar björgunarsveitir geti komið fólki sem komst lífs af þegar ferja sökk undan ströndum Jövu í gær til aðstoðar. Flogið hefur verið yfir svæðið þar sem ferjan sökk og segjast talsmenn Indónesíuhers hafa komið auga á að minnsta kosti 10 björgunarbáta með fólki í.

Sarkozy verður forsetaefni UMP

Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, verður frambjóðandi ríkisstjórnarflokksins UMP í forsetakosningum í Frakklandi í vor. Þetta varð ljóst í dag þegar fresturinn til að bjóða sig fram sem forsetaefni UMP rann út.

Tveir látnir eftir tilræði í Bangkok

Nú er ljóst að tveir létust og yfir 20 særðust í röð sprengjuárása í Bangkok, höfuðborg Taílands, fyrr í dag. Sex sprengjur sprungu í borginni á um klukkustund um svipað leyti og fólk fór að safnast saman til að fagna nýju ári.

67 ára móðir í Barcelona

67 ára gömul spænsk kona eignaðist í gær tvíbura og er þar með orðin elsta móðir í heimi. Eftir því sem fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins varð konan ófrísk eftir að hafa gengist undir frjósemismeðferð í Suður-Ameríku en þetta voru fyrstu börn konunnar.

Nýju ári fagnað í Ástralíu

Þótt enn séu nokkrir tímar eftir að árinu 2006 hér á landi eru íbúar annars staðar í heiminum þegar farnir að fagna nýju ári, þar á meðal í Sydney í Ástralíu. Þar eru talið að um milljón manns hafi safnast saman til þess að berja augum hina árlegu flugeldasýningu á hafnarbrúnni í þessari stærstu borg Ástralíu þegar árið 2007 var hringt inn klukkan eitt að íslenskum tíma.

Fékk sendan geitshaus vegna slaks gengis Palermo

Íþróttastjóra ítalska knattspyrnuliðsins Palermo á Sikiley hefur væntanlega brugðið á aðfangadag þegar pósturinn kom með pakka heim til hans. Í honum reyndist haus af geit og telja yfirvöld líklegt að um hótun sé að ræða þar sem Palermo hefur ekki gengið vel að undanförnu.

Sex sprengjutilræði í Bangkok í dag

Að minnsta kosti 20 manns særðust þegar sex litlar sprengjur sprungu í Bangkok, höfuðborg Taílands, í morgun. Sprengjurnar sprungu á innan við klukkustund, þar af ein við strætisvagnabiðstöð fyrir utan verslunarmiðstöð og þar særðust 15, þar af tveir alvarlega.

Gasdeila Rússa og Hvít-Rússa enn óleyst

Deilur Rússa og Hvít-Rússa um verð á gasi til Hvít-Rússlands hafa enn engan árangur borið og því útlit fyrir að flutningar á gasi frá Rússlandi til Evrópu um Hvíta-Rússland verði stöðvaðir eins og Hvít-Rússar hafa hótað.

Gríðarleg íshella brotnaði frá Norðurskautinu

Gríðarstór íshella hefur brotnað af eyju sunnan við Norðurpólinn, og kenna vísindamenn um hlýnandi loftslagi. Hellan er álíka stór og smáríkið Lichtenstein. Frekari bráðnun á heimskautasvæðinu gæti leitt til stóraukinna skipaferða framhjá Íslandi.

Myndskeið af aftöku Saddams sett á Netið

Saddam Hussein og böðlar hans skiptust á blótsyrðum og svívirðingum, fyrir aftökuna. Þetta má sjá og heyra á myndskeiði sem búið er að setja á Netið. Það virðist tekið á farsíma því myndirnar eru ekki mjög skýrar. Saddam var jarðsettur í heimabæ sínum í birtingu í morgun.

Rúmenía og Búlgaría í ESB um áramótin

Búast má við miklum hátíðahöldum í Rúmeníu og Búlgaríu á miðnætti en þá ganga löndin formlega í Evrópusambandið. Tónleikar verða í höfuðborgum landanna, Búkarest og Sofíu, og þá mun Jose Manuel Barroso, formaður framkvæmdastjórnar ESB, halda ræðu í Sofíu vegna tímamótanna.

Castro segist á hægum batavegi

Fidel Castro, hinn aldni leiðtogi Kúbu, segist á hægum batavegi eftir veikindi sín fyrr á árinu. Frá þessu greinir hann í nýárskveðju sem lesin var upp í ríkissjónvarpi Kúbu. „Ég hef alla tíð sagt að þetta yrði langt ferli en þetta er fjarri því að vera töpuð orrusta,“ segir Castro í tilkynningunni.

Kóngurinn í Marokkó í hátíðarskapi

Konungurinn í Marokkó fagnaði Eid al-Adha í dag með því að náða eða stytta dóm 585 fanga sem sátu í fangelsi fyrir hina ýmsu glæpi. Sjö þeirra sátu inni fyrir lífstíð en munu aðeins sitja inni í nokkur ár í viðbót eftir þetta hátíðabragð kóngsins.

Lík Saddams afhent ættingjum hans

Lögfræðingar Saddams Hússeins hafa skýrt frá því að ættbálkaleiðtogum í heimbæ hans, Tikrít, hafi verið afhent lík hans til greftrunar. Bandarísk herflugvél var notuð til flutninganna.

Gas-stríðinu nánast lokið

Hvíta-Rússland hefur samþykkt að greiða mun hærra verð fyrir gas frá olíu- og gasrisanum Gazprom, sem er í eigu rússneska ríkisins, en það gerði áður eða um 100 dollara fyrir þúsund rúmmetra í stað 46 áður.

67 ára og nýbökuð móðir

67 ára gömul spænsk kona varð í dag elsta konan til þess að eignast börn í fyrsta sinn en hún eignaðist tvíbura. Konan varð ólétt eftir tæknifrjóvgun í Suður-Ameríku og voru tvíburarnir teknir með keisaraskurði. Bæði móður og börnum heilsaðist vel samkvæmt fregnum frá spítalanum sem þau eru á.

Ögurstund nálgast í Sómalíu

Yfirmaður íslamska dómstólaráðsins, Sheik Sharif Sheik Ahmed, sagði íbúum í hafnarborginni Kismayo, þar sem herafli þess er, að þeir hefðu ákveðið að berjast við óvininn. Stjórnarherinn, styrktur af eþíópískum hersveitum, streymir nú frá Mogadishu til Kismayo og er búist við lokabardaga á milli herjanna tveggja á næstu dögum.

Sádi-Arabía gagnrýnir Íraka

Stærsta ríki súnní múslima gagnrýndi í dag stjórnvöld í Írak fyrir að hafa tekið Saddam Hússein af lífi við upphaf helgustu hátíðar múslima, Eid al-Adha, en sjíar ráða ríkjum í Írak. „Við erum mjög hissa og vonsviknir yfir því að úrskurði dómstóla hafi verið framfylgt á þessum heilaga tíma, þessum fyrstu dögum Eid al-Adha,“ sagði kynnir á ríkissjónvarpsstöðinni í ríkinu þegar gert var hlé á dagskránni til þess að lesa upp tilkynninguna.

Skotbardagar geisa enn í Rio de Janeiro

Ofbeldi er enn útbreitt í Ríó de Janeiro í Brasilíu þrátt fyrir hertar aðgerðir lögreglu vegna stærsta áramótapartýs í heimi. Lögreglan drap fimm grunaða meðlimi eiturlyfjagengis í skotbardaga í gær og lenti síðan í skotbardaga við eiturlyfjasala sem réðust á lögreglustöð í morgun.

Herinn á Sri Lanka gerir árásir á búðir Tamíltígra

Herflugvélar stjórnarhers Sri Lanka gerðu í morgun sprengjuárásir á búðir Tamíltígra á austurhluta eyjunnar en árásin var gerð á einn síðasta griðastað þeirra á ströndinni. Önnur árás var síðan gerð á búðir sjóhers Tamíltígra.

Mannfólkið getur víst flogið

Mannskepnuna hefur frá örófi alda dreymt um að geta flogið um loftin blá og það er akkúrat það sem einum svissneskum manni hefur tekist að gera. Hann smíðaði sér vængi, setti á þá hreyfla og hoppar svo úr flugvélum og flýgur uns eldsneytið klárast. Lendir hann þá mjúklega með aðstoð fallhlífar.

Kastró á batavegi

Kúbverska ríkisstjórnin greindi frá því í dag að Fídel Kastró, hinn veiki leiðtogi þeirra, hefði hringt í sendiherra Kína á Kúbu í gær til þess að ræða samskipti ríkjanna tveggja. Kastró bað meðal annars fyrir nýárskveðjur til Hu Jintao, forseta Kína.

Sprenging særir sex í Tyrklandi

Sprenging varð á bar í austurhluta Tyrklands í dag og særðust sex manns í tilræðinu. Ekki var vitað hvað olli sprengingunni eða hverjir voru þar að verki en talið er að vitni hafi séð þá sem að henni stóðu.

15 manns láta lífið í árásum í Írak

Þrjár bílasprengjur sprungu með stuttu millibili í Hurriya hverfinu í Bagdad í morgun en meirihluti íbúa þar eru sjía múslimar. 15 manns létust og 25 til viðbótar særðust. Árásin á sér stuttu eftir að Saddam Hússein, sem var súnní múslimi og fyrrum einræðisherra í Írak, var hengdur og talið er að þetta séu hefndaraðgerðir súnní múslíma vegna aftökunnar.

Palestínumenn syrgja Saddam

Þó svo margir fagni aftöku Saddams Hússeins syrgdu Palestínumenn hann í morgun þar sem hann var einn af þeirra helstu stuðningsmönnum. Ólíkt nærri öllum öðrum í heiminum sáu Palestínumenn Saddam ekki sem harðstjóra heldur sem rausnarlegan velgjörðarmann sem var óhræddur að berjast fyrir málstað Palestínu en síðustu orð Saddams voru „Palestína er Arabaríki."

44 dæmdir til dauða í Japan árið 2006

44 voru dæmdir til dauða í Japan á árinu sem er að líða en aldrei hafa svo margir verið dæmdir til dauða á einu ári. 21 dauðadómur var staðfestur og eru því 94 á dauðadeild og hafa aldrei verið svo margir þar áður.

Hundruð þúsunda hafast við í neyðarskýlum

Hundruð þúsunda frá Indónesíu og Malasíu eru enn í bráðabirgðahúsnæði eftir að hafa þurft að flýja heimili sín vegna flóða undanfarnar vikur en ástandið er smám saman að batna.

850 manna ferja sekkur við Indónesíu

Ferja með 850 farþegum sökk í stormi undan ströndum Indonesíu. Aðeins níu manns hafa fundist á lífi, en miklir vindar hamla björgunarfólki að finna fólk í sjónum. Skipið var á leið frá mið Jövu til til hafnar á Borneo.

Engin lausn sjáanleg í Gas-stríðunum

Talsmenn rússneska gasrisans Gazprom sögðust í morgun ekki sjá neina lausn í deilu sinni við Hvít-Rússa en Gazprom ákvað einhliða að hækka verðið á gasi um eitthundrað tuttugu og þrjú prósent auk þess að krefjast þess að fá eignarrétt yfir dreifikerfi Hvít-Rússa.

ETA sprengir á spáni

Sprenging varð í morgun á bílastæði við Baraja flugvöllinn í Madrid. Ónafngreindur aðili hafði áður hringt inn og sagt frá sprengjunni svo það náðist að rýma stæðið. Aðeins tveir lögreglumenn sem voru að leita að bifreiðinni með sprengjunni í meiddust.

Viðbrögð við aftöku Saddams blendin

Saddam Hússein var tekinn af lífi í nótt og hafa viðbrögð alþjóðasamfélagsins verið blendin. Vatíkanið og Rússland hörmuðu aftökuna þar sem þau sögðu að þau væru á móti öllum dauðarefsingum en Frakkar, sem eru einnig á móti dauðarefsingum, hvöttu Íraka til þess að horfa fram á veginn.

14 ára siglir einn yfir Atlantshafið

14 ára breskur strákur, Michael Perham, freistar þess nú að verða yngsti maðurinn í sögunni til þess að sigla einn og óstuddur yfir Atlantshafið. Hann hóf ferðina þann 18. nóvember síðastliðinn og býst við því að klára ferðina þann 2. janúar. Faðir hans siglir þó 2 sjómílum á eftir honum til vonar og vara. Lagði hann upp frá Bretlandi og áætlar að enda í Antigua í Karibíahafinu.

Hvít-Rússar neita að gefast upp

Forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lukashenko, sagði í dag að hann myndi ekki líða fjárkúgun Rússa í því sem farið er að kalla Gas-stríðin. Lukashenko sagði „Hvíta-Rússland mun ekki verða við fjárkúgunum Gazprom. Ef þeir halda áfram að beita okkur þrýstingi munum við fara í skotgrafirnar en við munum ekki gefast upp.“

Rúanda krefst framsals á fjórum frá Bretlandi

Fjórir menn búsettir í Lundúnum hafa verið dregnir fyrir rétt til þess að ákveða hvort að eigi að framselja þá til Rúanda þar sem lýst er eftir þeim út af ákærum vegna þjóðarmorðsins árið 1994. Mennirnir, sem eru allir á fimmtugsaldri, voru handteknir á heimilum sínum í Bretlandi seint í gærkvöldi. Allir fjórir neita þeir þó ákærunum.

Lögmenn Saddams reyna að koma í veg fyrir aftöku hans

Lögmenn Saddams Hússeins, sem á að taka af lífi á næstu klukkustundum, hafa beðið bandarískan rétt um að stöðva aftöku hans. Tillagan var lögð fram á síðustu stundu en hún er lögð fram á þeim grundvelli að hann sé nú þegar sakborningur í öðru máli og að ef hann verði líflátinn geti hann ekki varið sig í málinu sem er í gangi núna.

Bandaríkin hvetja til vopnahlés í Sómalíu

Bandaríkin hvöttu í kvöld sómölsk stjórnvöld til þess að reyna að koma á vopnahléi milli þeirra og íslamska dómstólaráðsins, en uppreisnarmennirnir kalla sig það.

66 ferkílómetra íshella veldur áhyggjum

Risastór íshella hefur brotnað frá íshellunni norður af Kanada og gæti valdið miklum usla ef hún flýtur suður á bógin næsta sumar því þar eru stór olíuvinnslusvæði sem og skipaleiðir.

Stærsta grænmetisrán sögunnar

Samkvæmt nýjustu fréttum var vörubílsfarmi af brokkólí stolið í úthverfi í Chicago í dag. Búist er við því að verðið á grænmetinu eigi eftir að hækka vegna þjófnaðarins en grænmetið fyllti stóran 48 feta gám. Rannsóknarmenn velta því nú fyrir sér hvort um sé að ræða stærsta grænmetisrán sögunnar.

Allt tilbúið fyrir aftöku

Búist er við því að Saddam Hússein verði tekinn af lífi í kvöld eða við sólarupprás í fyrramálið en þetta sagði íraski dómarinn Moneer Haddad, sem verður viðstaddur aftökuna. Þeir sem hafa heimild til þess að fylgjast með aftökunni hefur þegar verið safnað saman svo líklegra er að hann muni ganga að gálganum á næstu klukkutímum.

Skúringar minnka líkur á brjóstakrabbameini

Konur sem stunda líkamlega æfingu með því móti að þrífa heima hjá minnka líkurnar á því að fá brjóstakrabbamein en þetta kom fram í nýrri rannsókn sem nýlega kom út. Alls voru fleiri en 200.000 konur í níu löndum í Evrópu rannsakaðar og í ljós kom að mikið betra var að þrífa húsið hátt og lágt heldur en að iðka íþróttir.

Sómalir ná stjórn á Mogadishu

Forsætisráðherra Sómalíu sneri aftur til höfuðborgarinnar Mogadishu í dag við mikinn fögnuð borgarbúa. Hersveitir nágrannaríkisins Eþíópíu hlutu hins vegar ekki jafnblíðar móttökur og voru grýttar þar sem hermennirnir tóku stjórnina við höfnina og flugvöllinn í Mogadishu.

Þrjár milljónir múslima til Mekka

Þrjár milljónir múslima feta nú í fótspor spámannsins Múhameðs í pílagrímsferð til Mekka og í kjölfar hennar verður haldin ein stærsta hátíð múslima. Á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum ber þó skugga á gleðina enda hefur þar sjaldan verið jafnþröngt í búi.

Sjá næstu 50 fréttir