Erlent

Gasdeila Rússa og Hvít-Rússa enn óleyst

MYND/AP

Deilur Rússa og Hvít-Rússa um verð á gasi til Hvít-Rússlands hafa enn engan árangur borið og því útlit fyrir að flutningar á gasi frá Rússlandi til Evrópu um Hvíta-Rússland verði stöðvaðir eins og Hvít-Rússar hafa hótað.

Samningaviðræður milli Rússa og Hvít-Rússa um verð á jarðgasi frá rússneska gasrisanum Gazprom hafa staðið yfir í nokkurn tíma en Gazprom vill hækka verð á 1000 rúmmetrum af gasi úr 46 dollurum í 105 dollara sem Gazprom segir nálægt markaðsverði. Hvít-Rússar hafa hins vegar neitað að greiða svo hátt verð.

Hefur Gazprom hótað því að stöðva gasflutninga til Hvíta-Rússlands klukkan sjö í fyrramálið ef ekki hefur samist fyrir þann tíma en á móti hóta Hvít-Rússar því að loka fyrir gasleiðslu í landinu sem Rússar nota til að flytja gas til Vestur-Evrópu.

Rússar sjá Evrópu fyrir fjórðungi þess gass sem þörf er á og er því óttast að deilan leiði til gasskorts í Vestu-Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×