Fleiri fréttir

Sex ára drengur féll af baki og dróst með hestinum

Sex ára drengur slasaðist er hann féll af hesti í Hrunamannahreppi í gær. Hestur sem hann var á trylltist og drengurinn féll af baki. Hann festist í ístaðinu og dróst spölkorn með hestinum. Drengurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala. Grunur er um að hann hafi hlotið innvortis meiðsli.

Leikskólakennarar samþykktu verkfall

Leikskólakennarar samþykktu að fara í verkfall í atkvæðagreiðslu í morgun. Verkfallið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta, eða með rúmum 96 prósentum greiddra atkvæða. Alls greiddu 1523 atkvæði en 1798 voru á kjörskrá.

"Biskup Íslands þarf að segja af sér" af umhyggju fyrir kirkjunni

"Biskup Íslands þarf að segja af sér og undirstrika þannig umhyggju fyrir kirkju þeirri sem hann hann þjónar, kirkju sem er biðjandi, boðandi og þjónandi." Þetta segir séra Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholtsprestakalli. "Biskup Íslands þarf að kannast við það, að kirkjunni kemur betur að annar taki við lyklavaldi hans. Eftir því sem hann situr lengur í embætti verður skaði kirkjunnar meiri og sárari og tiltrú fólksins á kirkjunni dvínar," segir hún. Séra Sigríður hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna niðurstöðu rannsóknarnefndar kirkjuþings, en skýrsla nefndarinnar er til umræðu á kirkjuþingi sem hófst í morgun. Skýrslan fjallaði um viðbrögð kirkjunnar við ásökunum nokkurra kvenna sem sögðu séra Ólaf Skúlason, þáverandi biskup Íslands, hafa áreitt sig kynferðislega. Í yfirlýsingunni segir séra Sigríður að í þessu erfiða máli þar sem prestar, prófastar og biskup hafa gert sig sek um alvarleg mistök, þöggunartilburði og vanrækslu í starfi reyni á kirkjuaga. Biskup Íslands hefur yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar. "Biskup Íslands brást í biskupsmálinu og brot hans eru á sviði sálgæslu, þess sviðs sem myndar grunn vígðrar þjónustu og trúverðugleika þeirrar þjónustu. Hann er tilsjónarmaður prestanna, en getur á engan hátt talist heppilegur aðili til að aga þá aðila sem hafa gerst sekir um mistök, vanrækslu og þöggun. Eftir höfðinu dansa limirnir. Trú almennings á umhyggju og fagleg vinnubrögð hinnar vígðu þjónustu er komin undir því að siðbót sálgæslunnar nái til allra stiga og þátta kirkjuvaldsins,“ segir í yfirlýsingu Sigríðar.

Herjólfur kominn í lag

Herjólfur lagður af stað eftir bilun en fyrsta ferð var um klukkan ellefu í morgun samkvæmt fréttavef Eimskips.

Ársafmæli Hægri grænna á 17. júní

Aðalfundur og ársafmæli Hægri grænna, flokks fólksins, verður haldinn að morgni 17. júní í Tjarnarbíói í Reykjavík. Meðal þess sem er á dagskrá fundarins er skýrsla formanns, kynning á heimasíðu og almennar umræður. Einn forsvarsmanna Hægri grænna, Guðmundur Franklín Jónsson, segir meðal áhersluatriða flokksins sé að hækka skattleysismörk í 200 þúsund krónur, lækka eldsneytisskatta um 50% eða 60 krónur á lítra af bensíni og díselolíu, og hefja strax stórframkvæmdir í Helguvík, Grundartanga og á Bakka við Húsavík.

Kirkjuþing vill biðja konurnar afsökunar - tillagan í heild sinni

"Kirkjuþing telur miður að viðbrögð og starfshættir þjóðkirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot innan hennar hafi ekki alltaf verið sem skyldi. Kirkjuþing biður þær konur sem hafa verið órétti beittar í samskiptum við þjóna kirkjunnar afsökunar og lætur í ljós þá von að þær geti í hjarta sínu fundið fyrirgefningu og tekið kirkjuna í sátt. Kirkjuþing væntir þess jafnframt að á málum af þessu tagi verði í framtíðinni tekið af fullri virðingu, sanngirni og skilningi sem er í samhljómi við fagnaðarerindi kristinnar trúar." Þetta kemur fram í tillögu til þingsályktunar sem lögð var fram á kirkjuþingi í morgun. Fyrri umræða um tillöguna stendur nú yfir. Í tillögunni segir ennfremur; "Aukakirkjuþing 2011 fagnar því að fram er komin ítarleg og rökstudd niðurstaða rannsóknarnefndar kirkjuþings um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot. Þótt skiptar skoðanir kunni að vera um einstök atriði í rannsóknarskýrslunni telur kirkjuþing mikinn feng að henni og ótvírætt að niðurstöður hennar eru gott veganesti til að lagfæra starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot innan hennar eftir því sem nauðsynlegt er og byggja upp traust og trúnað innan kirkjunnar og gagnvart samfélaginu. ... Kirkjuþing minnir hins vegar á að frá árinu 1998 hafa verið gerðar ýmsar mikilvægar úrbætur til að draga úr líkum á að kynferðisofbeldi eigi sér stað innan vébanda kirkjunnar og stuðla að því að þolendur fái viðeigandi stuðning. Þar varðar mestu stofnun fagráðs og starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar. Engu að síður er mikilvægt að horfast í augu við það sem úrskeiðis hefur farið. Brýnt er að áfram verði haldið á þeirri braut að skerpa og móta frekari verklagsreglur vegna ásakana um kynferðisbrot í því skyni að þjóðkirkjan verði jafnan vel í stakk búin til að takast á við kynferðisofbeldi og bregðist við því af öryggi og festu. Kirkjuþing ályktar að kjósa skuli fimm manna nefnd úr hópi kirkjuþingsfulltrúa til að undirbúa frekari úrbætur á þessu sviði fyrir komandi kirkjuþing að hausti. Nefndin skal hafa sérstaka hliðsjón af þeim tillögum sem fram eru settar í skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings og leita sér jafnframt sérfræðilegrar aðstoðar eftir því sem þurfa þykir og fjárheimildir leyfa."

Séra Karl situr áfram - þykir leitt að hafa brugðist "væntingum"

Séra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, ætlar ekki á kirkjuþingi að ræða um einstök mál sem rannsóknarnefnd kirkjuþings setur út á. Samkvæmt skýrslu nefndarinnar gerði séra Karl margs konar mistök þegar séra Ólafur Skúlason, fyrrverandi biskup, var sakaður um kynferðislega áreitni. Séra Karl endurtók fyrri afsökunarbeiðni til þeirra kvenna sem séra Ólafur áreitti, og sagði að sér þætti leitt að hann hefði "brugðist væntingum þeirra." Þetta kom fram í ræðu séra Karls á kirkjuþingi fyrir stundu. Í ræðunni sagði hann ekkert um að víkja af kirkjuþingi þar sem ákvörðun verður tekin um viðbrögð kirkjunnar við skýrslunni, og talaði hann heldur ekkert um að víkja sem biskup. Tveir prestar viku sæti af kirkjuþingi vegna tengsla við séra Ólaf, en séra Karl vann náið með honum þegar ásakanir komu upp. Nokkrir prestar hafa þegar stigið fram og sagt að þeim fyndist ekki annað hægt en að séra Karl víki af kirkjuþingi. Aðrir hafa viðrað þá skoðun að honum sé ekki lengur sætt sem biskup vegna þeirra mistaka sem hann gerði í máli Ólafs. Í ræðunni sagði séra Karl að kynferðisbrot yrðu ekki liðin innan kirkjunnar. "Við viljum læra af mistökum," sagði hann. Hann þakkaði fulltrúum í rannsóknarnefndinni fyrir skýrsluna og sagði hana gagnast kirkjunni vel í sjálfskoðun. Séra Karl sagðist aldrei hafa haft uppi ásetning um að þagga niður ásakanir á hendur séra Ólafi um kynferðislega áreitni. "Okkar besta er oft ekki nóg," sagði hann um viðbrögðin á sínum tíma. Þá sagði séra Karl að "mörg okkar" hefðu ekki verið undir það búin að "slíkir hlutir gætu gerst." Hann sagði að "við" hefðum reynt að gera rétt og vildi óska að "okkur" hefði tekist betur upp. Að sögn Karls var ekki auðvelt að sitja frammi fyrir rannsóknarnefndinni og ræða um liðna atburði. "Ég hef oft staðið frammi fyrir rannsóknarnefnd eigin samvisku," sagði hann og að vegna þess hafi hann átt andvökunætur. Þingsályktunartillaga kirkjuþings var lögð fram áður en séra Karl tók til máls, og þar var lagt til að konurnar sem séra Ólafur áreitti yrðu beðnar afsökunar. Tók séra Karl undir það. Þá sagði séra Karl að honum fyndist kirkjan almennt of svifasein í að takast á við atburði sem þessa, og að móta þurfi sterkari stefnu. Ekki er ljóst hvort séra Karl ræðir við fjölmiðlafólk á kirkjuþinginu eða eftir það. Á dagskrá þingsins er nú að vinna frekar með viðbrögð þess við skýrslunni.

Forseti kirkjuþings: Margt í skýrslunni erfitt kirkjunni

Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, segir það einlæga von sína að þær konur sem brotið var á finni frið á grundvelli kærleiksboðskapar frelsarans. Þetta kom fram í setningarræðu Péturs við upphaf kirkjuþings í morgun þar sem ákveðin verða viðbrögð kirkjunnar við skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþing vegna kynferðisbrota fyrrverandi biskups, séra Ólafs Skúlasonar. Pétur sagði margt í skýrslunni erfitt kirkjunni, en þar er fjallað um mistök sem hinir ýmsu prestar og starfsmenn kirkjunnar gerðu þegar ásakanir um kynferðisbrot komu upp. Pétur sagði til þessa auka kirkjuþings boðað af brýnni ástæðu, til að þingið geti rækt skyldu sína sem æðsta stofnun þjóðkirkjunnar. Pétur sagði óhjákvæmilegt að skipa rannsóknarnefndina, það hafi verið gert til að hreinsa andrúmsloftið innan kirkjunnar og sýna að kirkjan geti tekið á erfiðum málum. Hann benti á að nefndarmenn njóta trausts, bæði innan kirkjunnar og meðal almennings, vegna starfsreynslu sinnar og menntunar. Pétur sagði enga ástæðu til að draga heillindi nefndarinnar í efa, og þakkaði nefndarmönnum vel unnin störf. Pétur sagði skýrsluna vera einstakt tækifæri til að færa starfshætti ti betri vegar til að breyta og bæta heillindi kirkjunnar. Lögð verður fyrir þingið þingsályktunartillaga um viðbrögð við skýrslunni, og tekur séra Karl Sigurbjörnsson til máls. Seta hans á þinginu hefur verið gagnrýnd vegna aðkomu hans að málum séra Ólafs á sínum tíma, en tveir prestar hafa þegar sagt sig frá þingsetu vegna tengsla við Ólafs.

Biskup mættur á kirkjuþing

Séra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, mun í fyrsta sinn ræða um rannsóknarskýrslu kirkjuþings á þinginu sem hefst nú klukkan níu. Fyrst á dagskránni er helgistund, síðan sér Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, um forlega setningu þingsins. Því næst flytur forsætisnefnd þingsins tillögu til þingsályktunar um niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Kirkjuþingið fer fram í Grensáskirkju og er eiginkona séra Karls meðal gesta. Eins og komið hefur fram hafa tveir fulltrúar sagt sig frá þingsetu, annars vegar séra Baldur Kristjánsson sem starfaði náið með séra Ólafi Skúlasyni í biskupstíð hans, og síðan sonur séra Ólafs, séra Skúli Sigurður Ólafsson, vegna fjölskyldutengsla. Nokkur óánægja hefur verið meðal presta um að séra Karl hafi ekki sagt sig frá þingsetu, en þar verður tekin ákvörðun um viðbrögð við skýrslunni. Þingið er öllum opið.

Biskup rýfur þögnina

Karl Sigurbjörnsson, biskup, tjáir sig á eftir í fyrsta sinn um skýrslu rannsóknarnefndar þjóðkirkjunnar þar sem farið er fyrir biskupsmálið svokallaða og viðbrögð kirkjunnar tilgreind. Karl mun ávarpa kirkjuþing en það verður sett klukkan níu í Grensáskirkju.

Töluverð sjósókn

Töluverð sjósókn er nú umhverfis landið og hafa strandveiðibátar auk þess streymt út í nótt eftir lögboðið helgarstopp. Hinsvegar er búið að loka vestursvæðinu þar sem júníkvótinn þar kláraðist fyrir helgi. Töluvert er eftir af kvóta á hinum svæðunum.

Hópur fólks fastur í Eyjum

Hópur fólks er fastur í Vestmannaeyjum eftir að bilun varð í annarri aðalvél Herjólfs undir kvöld í gær.

Lögreglumaður á leið heim stöðvaði þjóf

Lögreglumaður, sem var á heimleið eftir vakt undir morgun, sá hvar maður var gangandi með stóran tölvuskjá í Skeifunni í Reykjavík. Þar sem honum varð strax ljóst að ekki var allt með felldu, stöðvaði hann ferð mansins og kallaði á liðsauka til að handtaka hann.

Lítil umferð um helgina

Umferð um nýliðna hvítasunnuhelgi var mun minni en verið hefur undanfarin ár að sögn lögreglumanna víða um land. Sérstaklega var rólegt yfir umferðinni um norðanvert landið og fyrir austan.

Tonni landað fram hjá vigt

Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir Héraðsdómi Reykjaness fyrir brot á reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla.

Sakaður um Gnarrisma

„Ég þurfti að vinna á móti ákveðnu hugtaki sem nú er orðið þekkt í samfélaginu og kallast Gnarrismi. Það fannst mér mjög óréttlátt því ekkert sem ég sagði eða gerði í kosningabaráttunni var tengt því sem hann gerði," segir Haraldur Freyr Gíslason Pollapönkari og nýkjörinn formaður Félags leikskólakennara, um viðbrögð við framboði sínu.

ESB er í senn betra og mun verra en EES

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra telur nokkur sannindi í því að aðild að Evrópusambandinu sé skárri en EES-samstarfið ef einblínt er á þá aðkomu að upplýsingum og að ákvarðanatöku, sem í fyrri kostinum felst.

Vengerov og Pires í Eldborg

Fiðluleikarinn heimsfrægi Maxim Vengerov og píanóleikarinn Maria Joao Pires munu koma fram saman á tónleikum í Hörpu þann 8. júlí næstkomandi ásamt St. Christopher hljómsveitinni frá Vilníus.

Skemmtiferðarskipið við Skarfabakka kostaði 83 milljarða

Skemmtiferðaskipið Costa Pacifica kom til Reykjavíkur í morgun og liggur nú við Skarfabakka. Þetta er eitt stærsta skemmtiferðaskip sem kemur til landins í sumar en það er tæp 115 þúsund tonn. Þetta er risavaxið skip, 290 metrar á lengd, með 1500 káetur á 17 hæðum. Það tekur 3780 farþega og er með 1100 manna áhöfn.

Ástandinu við Dyrhólaey líkt við stríð

Aukin harka hefur færst í deiluna um lokun Dyrahólaeyjar. Umhverfisstofnun hyggst kæra skemmdarvarga til lögreglu en skiltum var stolið á Dyrhólaey og stjakað við starfsmönnum sem huggðust loka eyjunni fyrir mannaferðum.

Umferð tekin að þyngjast

Umferð til höfuðborgarinnar er tekin að þyngjast og má búast við talsverðri umferð um helstu umferðaræðar til og frá höfuðborgarsvæðinu í dag annan í Hvítasunnu, samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá lögreglu. Fjölmargir lögðu land undir fót á föstudaginn og var umferð meiri í gegnum umdæmi lögreglunnar á Akranesi, Borgarnesi og Selfossi, en gengur og gerist miðað við hefðbundnar helgar að sumri til.

Rétt að ákæra Geir

"Allt tal um að þetta hafi beinst að einum frekar en öðrum stenst ekki skoðun, né heldur tal um pólitíska herferð. Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um þetta og vísa til þess hvernig málið er komið. Ég held að menn gerðu rétt í að láta það fara sinn gang,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, um yfirlýsingar Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Óskar eftir tilnefningum vegna fjölmiðlaverðlauna

Umhverfisráðuneytið óskar eftir tilnefningum til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru. Ríkisstjórnin ákvað síðastliðið haust, að tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, að tileinka 16. september ár hvert íslenskri náttúru. Markmiðið með deginum er að beina sjónum landsmanna að náttúru landsins, gögnum hennar og gæðum.

Ökumaður tekinn tvívegis um helgina undir áhrifum fíkniefna

Karl á þrítugsaldri var tekinn í tvígang fyrir fíkniefnaakstur um helgina. Fyrst var hann stöðvaður í Kópavogi á laugardagskvöld og færður á lögreglustöð en sleppt nokkru síðar en viðkomandi hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.

Vefur lögreglunnar lá niðri vegna tölvuhakkara

Heimasíða embættis spænska ríkislögreglustjórans lá niðri í um klukkustund í gærkvöld eftir að tölvuhakkarar réðust á síðuna. Málið er litið alvarlegum augum en embættið hefur ekki staðfest að samtökin Anonymous hafi staðið á bak við árásina. Yfirlýsing þess efnis birtist þó á heimasíðu samtakanna. Talið er að þau hafi ráðist á heimasíðu ríkislögreglustjórans vegna þess að þrír einstaklingar sem tengjast samtökunum voru handteknir á föstudaginn.

Ræðu biskups beðið

Mikil eftirvænting ríkir eftir ræðu Karls Sigurbjörnssonar, biskups, á kirkjuþingi á morgun þegar hann tjáir sig í fyrsta sinn um skýrslu rannsóknarnefndar þjóðkirkjunnar þar sem farið er fyrir biskupsmálið svokallaða og viðbrögð kirkjunnar tilgreind. Viðmælendur fréttastofu úr hópi presta segja að búast megi við uppgjöri.

Hönnunarsafnið fékk Heklu að gjöf

„Það er Hönnunarsafni Íslands sönn gleði að taka á móti Heklu. Erfitt er að nálgast verðlaunalampann sem er orðinn hluti af skandinavískri hönnunarsögu. Hekla er dæmi um afar vel heppnaða og fallega hönnun sem við Íslendingar eigum að þekkja. Við þökkum Íslandsbanka og Epal kærlega fyrir þetta frábæra framtak,“ segir Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands.

Séra Baldur - þögnin knúði mig áfram

Séra Baldur Kristjánsson, sóknarprestur í Ölfusi, segir þögnina hafa knúið hann til þess að stíga fram í dag. Hann skammist sín fyrir að hafa tilheyrt því valdakerfi sem tók á málum fórnarlamba Ólafs Skúlasonar á sínum tíma. Í yfirlýsingu frá Baldri segir hann sig frá Kirkjuþingi, sem hefst á morgun, og biður fórnarlömb Ólafs Skúlasonar afsökunar á aðkomu sinni í málinu.

Segir breytingar ógna fjárhagslegri stöðu Sjálfstæðisflokksins

Allar breytingar á kvótakerfinu koma sér illa fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ógnar fjárhagslegri stöðu flokksins, að mati þingmanns VG. Hann segir að það sé eins og að slíta pólitíska hjartað úr Framsóknarflokknum að breyta kvótakerfinu og að það hafi þurft konu að vestan til að berja í gegn breytingar á kvótakerfinu, en þar á þingmaðurinn við Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis. Þetta er meðal þess sem fram kemur í pistli Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG, á heimasíðu hans.

Vélarbilun í flugvél Icelandair

Vélarbilun varð í flugvél Icelandair sem var nýlögð af stað frá Billund í Danmörku og var vélinni í framhaldinu snúið við. Farþegar bíða þess nú að gert sé við vélina, að því er Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir.

Biskupsritari Ólafs Skúlasonar segir sig frá kirkjuþingi

"Ég hef sagt mig frá Kirkjuþinginu á morgun, þriðjudag. Ég tel að viðbrögð þess verði trúverðugri því færri sem þar eru sem komu við sögu,“ segir Baldur Kristjánsson, sóknarprestur í Ölfusi og fyrrum biskupsritari Ólafs Skúlasonar. Hann biður Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur, Dagbjörtu Guðmundsdóttur og Stefaníu Þorgrímsdóttur fyrirgefningar.

Stefnir á að leiða VG áfram

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, segir ekkert benda til annars en að hann muni halda áfram sem formaður VG. „Hitt er þó ljóst að ég hef engin áform um að verða eilífur augnakarl, hvorki á formannsstóli Vinstri grænna né í stjórnmálum. Ég get vel hugsað mér að afhenda öðrum keflið þegar ég met það að tíminn sé réttur,“ segir Steingrímur. Nokkuð hefur verið ritað um hvort hann ætli sér að halda áfram sem formaður. Rætt er við Steingrím í helgarblaði Fréttablaðsins sem hægt er að nálgast hér.

Ólafur Gaukur er látinn

Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari og tónlistarmaður er látinn, áttræður að aldri. Ólafur fæddist í Reykjavík 1930 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Hann hóf ungur að aldri að spila með mörgum af vinsælustu hljómsveitum landsins, meðal annars KK sextett og stýrði svo sinni eigin hljómsveit um árabil. Hann rak sinn eiginn gítarskóla frá árinu 1975. Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Svanhildur Jakobsdóttir söngkona og dagskrárgerðarmaður.

Eldur í blaðagámi

Kalla þurfti út dælubíl þegar tilkynnt var um eld í blaðagámi við Holtaveg í Reykjavík rétt um klukkan fjögur í nótt. Lítil hætta stafaði af eldinum þar sem gámurinn stóð talsvert frá nærlægum húsum. Það tók slökkviliðsmenn skamma stund að slökkva eldinn.

Stútur ók of hratt

Lögreglan á Selfossi stöðvaði ökumann fyrir of hraðann akstur rétt eftir klukkan átta í morgun á Suðurlandsvegi við Kögunarhól, en hann mældist á 118 km. hraða. Þegar betur var að gáð kom í ljós að hann reyndist einnig ölvaður. Hann var sviptur ökuleyfi í framhaldinu. Um er að ræða karlmann á tvítugsaldri.

Handteknir á Reykjanesbraut eftir að hafa kveikt í bíl

Tveir karlmenn voru handteknir á Reykjanesbraut á sjötta tímanum í morgun grunaðir um hafa skömmu áður kveikt í bifreið að gerðinni Honda Civic í iðnaðarhverfi í Reykjanesbæ. Engann sakaði í eldsvoðanum en bifreiðin er gjörónýt. Mennirnir gista nú fangageymslur en þeir voru handteknir eftir ábendingar vitna.

Fæðubótarefni eru illa merkt

Fæðubótarefni eru oft illa merk og innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem þau selja er oft ábótavant. Þetta var niðurstaða könnunar sem Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna stóðu að síðastliðinn vetur.

Þingmaður Framsóknar vill endurskoðun á lögunum

Þingmenn fengu ekki réttar upplýsingar við samþykkt á lögum um útreikninga lána í desember síðastliðnum segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar. Hún telur réttast að lögin verði tekin aftur upp á Alþingi.

Prjónað á almannafæri

Prjónað verður á almannafæri á Austurvelli þann 16. júní næstkomandi, en viðburðurinn er hluti af "alþjóðlega almenningsprjónadeginum" eða "World Wide knit in public day". Verður þetta í fyrsta skiptið sem dagurinn er haldinn hátíðlegur á Íslandi.

Kjarasamningur Kjalar samþykktur

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er lokið. Samningurinn var samþykktur með miklum meirihluta, eða áttatíu og níu prósentum.

Erilsöm nótt á Selfossi

Nóttin var erilsöm og erfið hjá lögreglunni á Selfossi, en þar fór fram dansleikur á vegum útihátíðarinnar Kótelettunnar og var verulega fjölmennt. Mikið var um ölvun og slagsmál en lögregla býst ekki við að fá margar kærur inn á borð til sín eftir nóttina þar sem enginn slasaðist. Tveir gistu fangageymslur lögreglunnar þar í bæ fyrir ölvun og óspektir.

Sektuð fyrir veiðiþjófnað

Hjón úr Mosfellsbæ sem renndu fyrir lax fyrir eigin landi við Tungufljót í Árnessýslu hafa verið dæmd til að greiða tuttugu þúsund króna sekt hvort fyrir veiðiþjófnað. Hjónin voru við stangveiðarnar í júlí í fyrra þegar lögregla kom að eftir ítrekaðar ábendingar.

Sjá næstu 50 fréttir