Fleiri fréttir

Eigandi leyfði húsleit - Við stálum ekki tíkinni!

"Við erum ekki með tíkina. Við stálum ekki tíkinni!" segir eigandi Rottweilertíkarinnar Chrystel. Eigandinn fór í skýrslutöku í morgun hjá lögreglunni á Akureyri og sagði þar að tíkin væri ekki á heimilinu. Lögreglan hafði hann grunaðan um að hafa stolið tíkinni af hundahóteli rétt utan við Selfoss, en þar var tíkin vistuð eftir að lögreglan í umdæminu tók hana í vörslu sína þar sem hún hafði bitið konu.

Hætt kominn vegna eldsvoða í báti

Sjómaður á strandveiðibát var hætt kominn þegar það kviknaði í bátnum um hádegisbilið. Hann var þá staddur um tíu sjómílur norðvestur af Gróttu.

Samkomulag um fimmtu endurskoðun

Samkomulag hefur náðst um fimmtu endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sendinefnd sjóðsins hefur verið hér á landi síðustu daga og í dag tilkynnti Julie Kozack, sem er í forsvari fyrir sendinefndina, að samkomulag sé í höfn. Það er þó háð samþykki framkvæmdastjórnar AGS en búist er við því að stjórnin taki málið fyrir í byrjun næsta mánaðar.

Brjóstabollur með kaffinu - brjóstanna vegna

Sala á svokölluðum brjóstabollum hófst í bakaríum Landssambands bakarameistara í dag. Brjóstabollurnar eru seldar til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini. Þær verða seldar til og með komandi sunnudegi, sem er mæðradagurinn. Styrktarfélagið Göngum saman stendur að sölunni í samstarfið við bakarana. „Landsmenn eru hvattir til að bjóða upp á brjóstabollur með kaffinu alla mæðradagshelgina og láta þannig gott af sér leiða, brjóstanna vegna," segir í tilkynningu frá félaginu. Þá efnis styrktarfélagið til vorgöngu fyrir alla fjölskylduna í Laugardalnum í Reykjavík á mæðradaginn, sunnudaginn 8. maí. Lagt verður af stað frá Skautahöllinni klukkan ellefu og gengið um dalinn í um það bil klukkustund. Mæðradagsganga verður einnig frá Jónshúsi í Kaupmannahöfn klukkan eitt. Göngufólki gefst kostur á að styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini, annaðhvort með frjálsum framlögum eða með því að festa kaup á varningi Göngum saman. Styrktarfélagið Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini og úthlutar styrkjum í október ár hvert. Félagið leggur áherslu á miklvægi hreyfingar til heilsueflingar og til að afla fjár í styrktarsjóð félagsins.

Laun ríkisstarfsmanna stefna fimm milljarða fram úr áætlun

Launagreiðslur til ríkisstarfsmanna fóru 1.240 milljónir króna fram úr áætlun á fyrstu þremur mánuðum ársins og með sama áframhaldi fara þær fimm milljarða umfram fjárlög á árinu. Ráðamenn ríkisstjórnarinnar segjast fylgja stefnu um ítrasta aðhald og sparnað.

Verktakar frá sex löndum vilja Vaðlaheiðargöng

Íslenskir, norskir, danskir, svissneskir, færeyskir og tékkneskir verktakar hafa lýst yfir áhuga á að fá að gera tilboð í byggingu Vaðlaheiðarganga. Sex hópar taka þátt í forvalinu.

Vonast til að skrifa undir samninga í dag

Vonir standa til að hægt verði að skrifað verði undir nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í dag. Búið er að semja um öll veigamestu atriðin en verið er að ganga frá smærri málum.

Fimmtán hundruð hafa sótt um níu hundruð sumarstörf

Fimmtán hundruð námsmenn og atvinnuleitendur hafa sótt um þau níu hundruð sumarstörf sem auglýst voru af Velferðarráðuneytinu og Vinnumálastofnun um miðjan síðasta mánuð. Hart er slegist um þau störf sem eru í boði segir formaður stúdentaráðs.

RÚV óheimilt að sýna beint frá tónleikunum

RÚV var ekki heimilt að vera með sjónvarpsútsendingu frá fyrstu tónleikunum sem haldnir voru í Hörpu, en þeir fóru fram í gær þegar Sinfóníuhljómsveitin steig á svið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV en mikil umræða hefur skapast um að RÚV sýndi beint frá íþróttaleik í gærkvöldi á sama tíma og þessir fyrstu tónleikar fóru fram í Hörpu. Hins vegar var útvarpað beint á Rás 1 frá tónleikunum. Sinfóníuhljómsveitin lék undir stjórn Vladimírs Ashkenazí og flutti verkið Velkomin Harpa eftir Þorkel Sigurbjörnsson, píanókonsert eftir Edvard Grieg og Níunda sinfónía Beethovens. "Hins vegar verða sömu tónleikar teknir upp í kvöld og verða á dagskrá sjónvarps með viðtölum sem Arndís Björk Ásgeirsdóttir tók við Vladimír Ashkenazí og Víking Heiðar Ólafsson á Hvítasunnudag, 12. júní nk. kl. 14.00. Þess má auk þess geta að formleg opnunarhátíð Hörpu fer fram kl. 18.00 föstudaginn 13. maí og verður útvarpað og sjónvarpað beint frá hátíðinni,“ segir í tilkynningu frá RÚV. Ekki er tekið fram í tilkynningunni hvaða ástæður eru fyrir því að RÚV var sjónvarpsútsending óheimil.

Eygló hleypur gegn legslímuflakki

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu til stuðnings Samtökum kvenna með endómetríósu, eða legslímuflakk. Eygló var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu þar sem lagt er til heilbrigðisráðherra beiti sér fyrir fræðsluátaki um legslímuflakk og að skoðaður verði möguleikinn á stofnun göngudeildar með legslímuflakk. Eygló var gestur Í Bítinu á Bylgjunni í morgun ásamt Erlu Kristinsdóttur, formanns Samtaka kvenna með endómetríósu. Erla greindist með legslímuflakk fyrir um fimm árum síðan. Hún hafði alla tíð verið með afar slæma túrverki og tók greiningin á sjúkdómnum um áratug. Hún þurfti loks að fara í stóra aðgerð þar sem skafið var úr báðum eggjastokkum, brennt úr kviðarholinu auk þess sem fleygur var tekinn úr þvagblöðrunni. "Það er ekki hægt að lækna þennan sjúkdóm,“ segir Erla. Hún segir að sér hafi alltaf verið talin trú um að hún væri einfaldlega bara óheppin að vera með svona slæma túrverki. Endómetríósa eða legslímuflakk er krónískur, sársaukafullur sjúkdómur sem orsakakast af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu og valda þar bólgum og blöðrumyndun. Undir venjulegum kringumstæðum fara þessar frumur út úr líkamanum við blæðingar. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Samtaka kvenna með endómetríósu þjást um 2–5% stúlkna og kvenna hér á landi af sjúkdómnum einhvern tímann á frjósemisskeiði og er því ljóst að um töluverðan fjölda er að ræða. Á 20 ára tímabili greindust um 1.400 konur með sjúkdóminn á Íslandi. Helstu einkenni legslímuflakks eru mikill sársauki við og fyrir blæðingar, miklar og/eða óreglulegar blæðingar, verkir í kviðarholi milli blæðinga, sársauki við egglos, samfarir og þvaglát. Legslímuflakk getur valdið ófrjósemi. Hlusta má viðtalið við Erlu og Eygló Í bítinu með því að smella á tengilinn hér að ofan.

Hálft tonn af ullarfötum til Japans

Rúmt hálft tonn af ullarfatnaði verður sent til Japans frá Íslandi á næstunni en það voru þrjár japanskar konur sem búsettar eru hér á landi sem hófu söfnun fyrir fórnarlömb hamfaranna í Japan. Þær Miyako Þórðarson, Yoko Arai og Yayoi Shimomura vildu gera eitthvað til að hjálpa löndum sínum í Japan og höfðu því samband við Póstinn um að aðstoða þær við að senda hlífðarfatnaðinn úr íslensku ulllinni til Japans.

E-töflumaður áfram í haldi

Héraðsdómur framlengdi í gær gæsluvarðhald yfir karlmanni á þrítugsaldri sem var handtekinn í Leifsstöð í mars með 36 þúsund e-töflur og 4.400 skammta af LSD í fórum sínm.

80 prósent vilja festa táknmál í lög

Í könnun sem fyrirtækið Miðlun ehf. gerði 17-28 mars síðastliðin fyrir Félag heyrnarlausra á viðhorfi almennings til táknmáls sem fyrsta máls, kemur í ljós að 80,8% aðspurðra eru frekar eða mjög sammála því að táknmál verði bundið í lögum sem fyrsta mál þeirra sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta.

Uppbygging í Garði: Nýtt íslenskt barnamauk

Þrjú ný störf hafa orðið til í Garði á Suðurnesjum vegna tilkomu fyrirtækisins Barnavagninn, sem framleiðir grænmetis- og ávaxtamauk fyrir ungbörn. Barnavagninn er rekið af sömu aðilum og eiga Ávaxtabílinn. Auk þess er Eignarhaldsfélag Suðurnesja hluthafi í fyrirtækinu og lagði því til stofnfé. Öll framleiðsla fer fram í Garði á Suðurnesjum.

Kjaraviðræður halda áfram í dag

Samningamenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífisins náðu ekki að ganga endanlega frá nýjum kjarasamningi í gærkvöldi og gerðu hlé á fundi sínum laust fyrir miðnætti. Ráðgert er að hefja viðræður aftur með morgninum.

Bilun í þremur strandveiðibátum

Bilun varð í þremur strandveiðibátum úti á miðunum í gærkvöldi, en nálægir bátar komu þeim til aðstoðar og drógu þá í land. Veður var gott í öllum tilvikunum.

Sex ökumenn teknir úr umferð í nótt

Sex ökumenn voru stöðvaðir og teknir úr umferð á höfuðborgarsvæðinu í nótt og þar af tveir réttindalausir fyrir samskonar brot áður.Hinir fjórir voru sviftir ökuréttindum til bráðabirgða.

Föðuramma Obama að koma til Íslands

Sara Obama, stjúpamma Baracks Obama Bandaríkjaforseta í föðurætt, er á leið hingað til lands síðar í mánuðinum. Hún kemur á vegum Pauls Ramses Oduor og Rosemary Atieno og hjálparsamtaka þeirra.

Nýir eldsneytisgjafar nema hálfu prósenti

Af þeim 195.715 bifreiðum sem í umferð eru í dag gengur bara rétt rúmlega hálft prósent fyrir öðru eldsneyti en bensíni eða dísilolíu. Það eru 1.006 bílar. 73,4 prósent bílaflota landsins ganga fyrir bensíni og 26,1 prósent fyrir dísilolíu.

Ætla múslimum lóð í Sogamýri

Samkvæmt tillögu embættis skipulagsstjóra Reykjavíkur gæti Félag múslima fengið byggingarlóð austast í Sogamýri. Skipulagsráð hefur sent tillögu um tilbeiðsluhús á lóðinni til umsagnar hjá hverfisráðinu, umhverfisráði og Skipulagsstofnun.

Fullveldið er undirstaðan

Hugmyndir um þjóðina og fullveldi hafa einkennt íslenska stjórnmálaumræðu um áratugaskeið og eru í raun gegnumgangandi í flestöllum deilumálum um utanríkismál, allt frá inngöngunni í NATO árið 1949.

Yfirvöld fréttu fyrst af skólpinu árið 2006

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ítrekað farið fram á lagfæringu lagna á Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins til Jóns Baldvins Pálssonar flugvallarstjóra, sem dagsett er 2. maí síðastliðinn.

Lægstu laun hækka strax um 20 þúsund

Lægstu laun á almennun vinnumarkaði hækka strax í rúmar hundrað og áttatíu þúsund krónur ef nýjir kjarasamningar verða að veruleika. Vonast er til að hægt verði að ganga frá þeim á næsta sólarhringnum.

Ísbjörn synti látlaust 700 km á 9 dögum

Bandarískir vísindamenn hafa staðfest ótrúlegt sundþrek ísbjarna en þeir fylgdust með birnu synda látlaust nærri sjöhundruð kílómetra á níu dögum án þess að nærast. Þetta sýnir að ísbirnir geta synt milli Íslands og Grænlands, fram og til baka, án þess að stoppa.

Tapar á hækkun tekjutengingar vaxtabóta

Reykvísk kona sem skuldar húsnæðislán segist hafa tapað á þeirri ákvörðun stjórnvalda að hækka tekjutengingu vaxtabóta - en bæta tímabundið við vaxtaniðurgreiðslu. Munurinn slagar upp í sólarlandaferð fyrir einn. Hún telur aðgerðina brjóta gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og hefur kvartað til Umboðsmanns Alþingis.

Öryrkjabandalag Íslands 50 ára á morgun

Öryrkjabandalag Íslands verður 50 ára á morgun. Af því tilefni verður frumsýnd heimildarmyndin „Eitt samfélag fyrir alla, Öryrkjabandalag Íslands í 50 ár." Rauður þráður myndarinnar er mannréttindabarátta, eftir því sem kemur fram í tilkynningu.

Samningum ekki lokið í dag

Það er afar ólíklegt að lokið verði við gerð kjarasamninga VR við viðsemjendur sína í dag, segir Stefán Einar Stefánsson, formaður VR. „Það eru ennþá lausir endar sem þarf að hnýta,“ segir Stefán Einar í samtali við Vísi. Hann tekur þó skýrt fram að það það sé vilji beggja aðila að vinna sameiginlega að lausn kjaradeilunnar. Samningafundir aðila vinnumarkaðarins hafa staðið yfir í Karphúsinu í allan dag og er búist við því að þeir standi áfram fram á kvöld.

1251 með meira en milljón á mánuði

1251 einstaklingur var árið 2009 með meira en eina milljón króna í laun á mánuði. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar þingmanns sjálfstæðisflokksins.

Byrja að sekta fyrir nagladekkjanotkun á mánudag

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beinir þeim tilmælum til bíleigenda sem enn eru á nagladekkjum að gera þar bragarbót á. Minnt er á að nú ber að greiða 5 þúsund krónur í sekt fyrir hvert nagladekk og því betra að taka þau undan hið fyrsta.

Eigandi Rottweilertíkar boðaður til yfirheyrslu

Eigandi Rottweilertíkarinnar Chrystel hefur verið kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglunnar á Akureyri á morgun vegna hvarfs tíkarinnar úr vörslu lögreglunnar á Selfossi. Mæti eigandinn ekki til yfirheyrslu getur lögregla gripið til þess að óska eftir því hjá dómara að eigandinn verði færður til yfirheyrslu, og þar með handtekinn. Ekki er þó búist við að til þess þurfi að koma. "Við erum að rannsaka hver nam hana á brott," segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi um hvarf tíkarinnar. Hún hafði verið vistuð á hundahóteli síðustu vikur, að kröfu lögreglu, á meðan á Lögreglan á Selfossi óskaði eftir húsleitarheimild hjá eiganda, sem var búsettur í umdæmi lögreglunnar á Selfossi en er nú fluttur til Akureyrar. Dómari vildi ekki veita slíka heimild þar sem ekki hefðu komið fram sannanir um að eigandinn hefði rænt hundinum af hundahótelinu. Þorgrímur Óli staðfestir hins vegar að farið hafi verið fram á húsleitarheimildina vegna þess að eigandinn sé grunaður um einmitt það. Hann vill þó ekki gefa upp hvaða vísbendingar lögreglan hefur í þá veru. Þá segir Þorgrímur að fyrir dómi í gær hafi lögmaður eigandans staðfest að tíkin væri nú á heimili eigandans á Akureyri. Vegna þess hefur lögreglan á Akureyri nú boðað hann til yfirheyrslu á morgun. Lögreglan á Selfossi íhugar nú næstu skref í rannsókninni. Til greina kemur að úrskurði héraðsdóms frá í gær, þar sem beiðni um húsleitarheimild var synjað, verði áfrýjað til Hæstaréttar. Þá er einnig möguleiki að lögreglan fari fram á það við dómara að eigandanum verði hreinlega gert að afhenda hundinn, nú þegar ljóst er að hundurinn er í hans vörslu. "Við höfum áhyggjur af því að búið er að meta hundinn hættulegan, af fagfólki. Manni verður bara hugsað til þess ef börn eða fullorðnir verða á vegi hundsins. Hver ætlar að bera ábyrgð á því ef illa fer?" spyr Þorgrímur .

Gylfi bjartsýnn á að samningar náist í kvöld

Aðilar vinnumarkaðarins funda enn í karphúsinu um kjarasamninga og er nokkuð góður gangur í viðræðunum að sögn Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ. Deiluaðilar funduðu með ríkissáttasemjara fram á kvöld í gær og hófust fundir að nýju í morgun.

Játaði nauðgunartilraun á Austurvelli

Karlmaður hefur játað að hafa reynt að nauðga 19 ára gamalli stúlku á Austurvelli í Reykjavík um síðustu helgi. Maðurinn hefur játað sök. Hann hefur aldrei áður komið við sögu hjá lögreglu. Stúlkan var að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur aðfararnótt sunnudagsins þegar hún varð viðskila við vinahóp sinn. Nokkuð var þá liðið á nóttina, og fámenn orðið í bænum. Maðurinn réðist á stúlkuna þar sem hún var á gangi á Austurvelli en henni tókst að komast í burtu. Ofbeldismaðurinn, sem fæddur er 1981, ók því næst á brott en vegfarendur náðu niður bílnúmeri hans. Lögregla handtók manninn á heimili hans skömmu síðar. Stúlkan leitaði sér aðstoðar á neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana. Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á laugardag en rannsókn málsins er enn í fullum gangi.

Svandís leysir Katrínu af sem menntamálaráðherra

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, leysir af Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar hún fer í fæðingarorlof síðar í þessum mánuði. Þetta var samþykkt á þingflokksfundi Vinstri grænna fyrr í dag. Katrín mun í fyrsta lagi snúa aftur í október eða nóvember. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi frá því þann 20. apríl að mestar líkur væru á því að það kæmi í hlut Svandísar að leysa Katrínu af. Þannig verður engin endurnýjun í ráðherraliðinu þegar Katrín fer í fæðingarorlof.

Í gæsluvarðhaldi grunaður um tvær nauðganir

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um tvær nauðganir með um mánaðar millibili. Fyrri nauðgunin átti sér stað aðfararnótt föstudagsins langa en þá er hann sagður hafa neytt stúlku til þess að hafa samfarir við sig og félaga sinn. Hinn maðurinn var þessu mótfallinn en maðurinn skipaði honum að taka þátt og hótaði hann báðum barsmíðum ef þau létu ekki að óskum hans.

Hjólað í vinnuna - átakið hafið

Opnunarhátíð átaksins Hjólað í vinnuna var haldin samtímis í Reykjavík og á Akureyri í morgun. Í Reykjavík fór opnunin fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en Akureyri hittist fólk á Glerártorgi þar sem Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar flutti stutt ávarp. Á báðum stöðum var þátttakendum boðið að hjóla við og þiggja léttar veitingar. Að ávörpunum loknum hjóluðu gestir og þátttakendur svo átakið formlega af stað. Fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, Ísland á iði, stendur níunda árið í röð fyrir "Hjólað í vinnuna", heilbrigðri vinnustaðakeppni um allt land, dagana 4. - 24. maí. Landsmenn hafa tekið hvatningar- og átaksverkefninu "Hjólað í vinnuna" gríðarlega vel þar sem þátttakendum hefur fjölgað um rúmlega 1600% frá 2003. Nú þegar hafa 539 vinnustaðir skráð 1.126 lið með 7.008 liðsmönnum og munu þessar tölur halda áfram að aukast meðan líður á átakið. Markmið "Hjólað í vinnuna" Meginmarkmið "Hjólað í vinnuna" er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.

Fyrsta íslenska rannsóknin: 59% treysta barnaverndarnefndum

Starfsfólk barnaverndarnefnda getur vel við unað þegar kemur að trausti til nefndanna. Þetta er mat lektors í félagsráðgjöf á niðurstöðum rannsóknar á trausti almennings til barnaverndarnefnda. Samkvæmt niðurstöðum hennar bera 59% frekar mikið eða mjög mikið traust til barnaverndarnefnda. 23% bera frekar lítið eða mjög lítið traust til þeirra, en um 19% segjast hvorki bera lítið né mikið traust til þeirra.

Vilja takmarka ábyrgð flugfélaga eftir gosið í Eyjafjallajökli

Eldgosið í Eyjafjallajökli gæti orðið til að fólk fái flugmiða sína í framtíðina ekki bætta þó að ferðir falli niður vegna óveðurs eða náttúruhamfara. Þúsundir manna urðu strandaglópar eða komust ekki leiðar sinnar þegar gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli setti flugumferð á norðurhveli jarðar úr skorðum í tíu daga fyrir rúmu ári. Flugfarþegar í Evrópu gátu hins vegar stólað á reglur Evrópusambandsins sem kveða á um að flugfélög bæti farþegum innan Evrópu tjónið sem þeir verða fyrir vegna seinkana - og sömuleiðis farþegum sem eiga bókað flug með evrópskum flugfélögum til annarra heimsálfa. Flugfélögin voru hins vegar ekki sátt við þá ráðstöfnun og sögðu regluna setta til að bæta fólki upp um það bil sólarhringsseinkanir en ekki svo viðamikla truflun. Þetta kemur fram á breska fjármálafréttavefnum, This is money. En þar kemur einnig fram að nú íhugi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að takmarka ábyrgð flugfélaga þegar flugumferð truflast vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Og hvort setja eigi þak á bætur félaganna til farþega. Flugfélögin telja að ferðatryggingar eigi að bæta fólki upp tap vegna seinkana - það gæti hins vegar orðið flókið ef flugumferð raskast vegna til dæmis eldgosa því gjarnan eru náttúruhamfarir undanskildar í orðalagi tryggingaskilmála.

Fimm vilja grafa Vaðlaheiðargöng

Fimm hafa lýst yfir áhuga á að grafa Vaðlaheiðargöng og byggja tilheyrandi vegskála. Fleiri gætu bæst í hópinn, en frestur til að skila inn gögnum rann út síðdegis í gær Fyrirtæki sem hafa áhuga á að ráðast í þessa stórframkvæmd að grafa Vaðlaheiðargöng, byggja vegskála og leggja tilheyrandi vegi, höfðu frest fram til klukkan fjögur í gær til að taka þátt í forvali Vegagerðarinnar. Fimm hafa þegar skilað inn gögnum, þar af eitt íslenskt fyrirtæki. Hin fjögur eru samvinnuverkefni erlendra og íslenskra fyrirtækja. Allt eins er reiknað með að fleiri skili inn gögnum, því þeir sem sendu sín gögn í pósti með póststimpli fyrir klukkan fjögur í gær teljast hafa skilað á réttum tíma. Vaðlaheiðargöng verða ekki einkaframkvæmd líkt og Hvalfjarðargöng, því hlutafélagið sem stofnað var um Vaðlaheiðargöng er að meirihluta, eða 51 prósenti, í eigu ríkisins. Einkahlutafélagið Greið leið á 49%. Göngin verða þau breiðustu sem hér hafa verið grafin og verða heldur lengri en Hvalfjarðargöngin, eða 7,2 kílómetrar. Áætlaður kostnaður er 10,4 milljarðar. Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, verður nú farið yfir gögnin og þau fyrirtæki sem uppfylla öll skilyrði valin til að gera tilboð í framkvæmdina. Útboðið gæti farið fram í haust, ágúst eða september, segir G. Pétur og því gætu menn farið að grafa sig inn í Vaðlaheiðina strax seinni hluta ársins.

Næstu klukkustundir skipta sköpum í kjaraviðræðunum

Það ræðst á næstu klukkustundum hvort aðilum vinnumarkaðarins tekst að ná samkomulagi um kjarasamning til næstu þriggja ára og koma þannig í veg fyrir allsherjarverkfall. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir verkfall ávísun á meiri kreppu en nú sé áríðandi að vinna sig út úr kreppunni með atvinnuleiðinni Samningamenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins funduðu í allan gærdag og fram að miðnætti, en forystumenn í verkalýðshreyfingunni sögðu í gær að ef ekki næðust samningar í dag yrði farið að undirbúa boðun allsherjar verkfalls á almennum vinnumarkaði. Samningamenn settust aftur að samningaborði hjá Ríkissáttasemjara klukkan tíu í morgun og sagðist Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í morgun vonast til þess að nú væru menn að fara að ganga frá samningum. það hefði miðað vel áfram. Vilhjálmur segir menn tala saman á meðan viðræðum miði áfram eins og þær geri nú, eftir að snuðra hljóp á þráðinn fyrir rúmri viku. Að sjálfsögðu greindi menn á en allir vildu finna lausnir. Hann segir stjórnvöld þegar hafa skilað sínu inn í viðræðurnar en næstu klukkustundir gætu orðið langar.

Skoða áhrif niðurskurðar á starfsemi kirkjunnar

Setja á starfshóp kirkjunnar og innanríkisráðuneytisins á laggirnar sem meta á hvaða áhrif niðurskurður hefur haft á starfsemi kirkjunnar og hverjar afleiðingarnar yrðu ef haldið verður áfram á þeirri braut. Þetta kom fram í ávarpi innanríkisráðherra við setningu prestastefnu í gærkvöldi. Ögmundur Jónasson sagði í ávarpi sínu að því miður sæi ekki enn fram úr þeim þrengingum sem við væri að stríða og enn væri boðað aðhald á komandi ári. Með því að skipa starfshóp til að meta þessi áhrif væri hann að bregðast við ákalli biskups sem lýst hafi þungum áhyggjum af fjárhagsstöðunni í formlegu erindi til ráðuneytisins. Ráðherra kvaðst vera meðvitaður um ábyrgð sína sem hluti framkvæmda- og fjárveitingavalds. ,,Mitt hlutverk er meðal annars að halda til haga hagsmunum skattreiðenda og ríkissjóðs en við sem höfum þetta verkefni með höndum þurfum jafnframt að vera meðvituð um afleiðingar gerða okkar," sagði ráðherra. Þá sagði ráðherra kirkjuna og stjórnmálin eiga margt sameiginlegt og kvað hann stjórnmálalífið ekki síður standa á krossgötum en kirkjan teldi sig gera. Margt benti til þess að stofnanakerfið, stjórnmálaflokkarnir myndu meira og minna riðlast á nýrri lýðræðisöld. Hann sagði þá samstöðu sem fólk vildi sjá snúa að markmiðum og boðskap en ekki stofnunum, fólk myndi spyrja hver eru markmiðin og boðskapurinn en ekki í hvaða flokki ertu eða hvaða stofnun heyrir þú til. Það verði siðbótarkrafan í íslensku stjórnmálalífi á nýrri öld og í samfélaginu almennt og muni hún án efa einnig taka til kirkjunnar sem stofnunar. Ávarp ráðherra má lesa í heild sinni með því að smella hér. http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2011/Prestastefna-3.-mai.doc

Tvær undanþágur veittar vegna reglna á sundstöðum

Umhverfisráðuneytinu hefur fengið tvær umsóknir um undanþágur vegna reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum sem tóku gildi um áramót. Báðar undanþágurnar voru veittar, tímabundið og með skilyrðum. Ungmennafélagið Þróttur í Vogum sótti um undanþágu vegna ungs aldurs sundþjálfara. Í erindi sem félagið sendi ráðuneytinu í janúar kemur fram að Þróttur hafi gert árs samning við þjálfara fæddan 1994. Hann hafi þjálfað tvo flokka í sundi, 6 til 9 ára og 10 til 14 ára. Í yngri hóp eru fjögur börn en tíu í þeim eldri. Í rökstuðningi Þróttar segir að samningurinn sé bindandi fyrir báða aðila og slæmt ef segja þurfi honum upp. Auk þess sé starf þjálfarans í umsjá framkvæmdastjóra félagsins og reynds sundþjálfara. Umboðsmaður barna og Vinnueftirlitið veittu umsögn Ráðuneytið sendi erindið til umsagnar hjá Umhverfisstofnunar, sem meðal annars óskaði álits Umboðsmanns barna og Vinnueftirlits ríkisins. Umboðsmaður barna taldi að það gæti verið rétt að veita undanþágu þar sem umræddur þjálfari hafi reynst vel og að hann hafi þegar verið ráðinn til starfa, en mikilvægt að fullorðinn aðili hafi yfirumsjón með starfinu. Í áliti Vinnueftirlitsins eru ekki gerðar athugasemdir við að þjálfari yngri en 18 ára sinni þessu verkefni ef tryggt er að öryggisgæsla sé í höndum fullorðins aðila. Ráðuneytið veitti Þrótti því undanþáguna. Hún er bundin þeim skilyrðum helstum um að fullorðinn einstaklingur hafi yfirumsjón með sundkennslunni og að foreldrum barnanna sé gerð grein fyrir fyrirkomulaginu. Hin undanþágan sem umhverfisráðuneytið veitti vegna þeirrar reglugerðar sem tók gildi um áramót var veitt Fjarðabyggð. Vísir greindi frá því í lok síðasta mánaðar að Fjarðabyggð hefði fengið undanþágu frá þeirri reglu að gæslumaður í sundlaug sinni ekki afgreiðslustörfum samhliða. Fjarðabyggð óskaði eftir og fékk undanþágu frá þessari reglu í sundlaugunum á Eskifirði, Norðfirði og Stöðvarfirði, á þeim tímum þegar aðsókn er sem minnst í laugarnar. Miðað við 10 ára afmælisdaginn Þá óskaði Fjarðabyggð eftir því að ráðuneytið gerði breytingar á reglugerðinni að því er varðar aðgengi 10 ára barna að sundstöðum. Börn þurfa að vera orðin tíu ára til að mega fara ein í sund. Í reglugerðinni er miðað við fæðingardag en Fjarðabyggð lagði til að miðað yrði við fæðingarár. Ráðuneytið veitti hins vegar ekki undanþágu frá reglum um aldursviðmið, en þess er krafist að börn þurfi að vera orðin 10 ára til að fara ein í sund. Fjarðabyggð hafði óskað eftir því að miðað væri við árið sem börnin verða 10 ára en ekki fæðingardaginn, eins og reglugerði segir til um. Ráðuneytið hafnaði þeirri beiðni, en í eldri reglugerð var miðað við átta ára aldur. Umræddar undanþágur eiga við reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum sem tók gildi 1. janúar 2011.

Sjá næstu 50 fréttir