Fleiri fréttir

Tveir milljarðar músa gera innrás í Kína

Bæjarfélög í kringum stórt vatn í miðhluta Kína hafa þurft að kljást við tvo milljarða músa eftir að flóð neyddu þær til þess að yfirgefa eyjur sem þær voru á í vatninu. Smellið á „Spila“ til þess að sjá myndir frá músaflóðinu.

Féll í 14 metra djúpa holu

18 ára drengur er talinn hafa látið lífið í Mexíkóborg í gær þegar risastór hola opnaðist í götunni sem hann var í og gleypti hann, bíl á götunni og framhlið á húsi. Holan er 14 metra djúp og um 15 metrar að þvermáli. Smellið á „Spila“ til þess að sjá myndir af holunni.

Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhaldsúrskurð

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp fyrir nokkrum dögum, yfir síbrotamanni. Ekki eru nema níu dagar síðan að sami Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð sama Héraðsdóms um framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir sama manni, sem þá sat í gæsluvarðhaldi, þannig að honum var sleppt lausum fyrir níu dögum.

Ferðin gengur vel hjá hjólreiðamönnum slökkviliðsins

Slökkviliðsmennirnir sem hjóla til styrktar sjúkra- og líknarsjóði sínum eru nú staddir norðan við Dyngjujökul og gengur ferðin vel að þeirra sögn. Þeir eru komnir örlítið fram úr áætlun, en ætlunin var að hjóla frá Herðubreiðarlindum í Dreka í Öskju í dag.

Matarverð hækkar þrátt fyrir lækkun matarskatts

Verð í matvöruverslunum hefur almennt hækkað en ekki lækkað frá marsmánuði, þrátt fyrir lækkanir á vörugjöldum samkvæmt niðurstöðum verðkönnunar ASÍ. Forsvarsmenn Bónuss og Krónunnar mótmæla þessum niðurstöðum og telja þær ekki standast. Ólafur Darri Andrason, aðalhagfræðingur ASÍ var í viðtali við Ísland í dag

Ný hótel rísa í Moskvu á hverjum degi

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Moskvu síðustu árin og hafa hótel verið rifin til grunna og ný byggð á rúmu ári. Uppbyggingunni stýrir borgarstjórinn með harðri hendi og fylgir framkvæmdum eftir á hverjum laugardegi.

Víneftirlitið gerir athugasemdir við veitingamenn

Kaffihúsagestir sem vildu njóta veitinga um leið og þeir sleiktu sólina í Reykjavík í dag urðu sumir frá að hverfa. Víneftirlitið gerði nokkrum veitingamönnum að taka inn borð þar sem ekki var leyfi fyrir þeim utan við staðina.

Ekki gefinn út hvalkvóti fyrr en ljóst er með sölu

Ekki verður gefinn út hvalkvóti fyrr en ljóst er að hægt sé að selja það kjöt sem veitt hefur verið. Ekki er gert ráð fyrir neinum hvalveiðum í nýrri reglugerð sjávarútvegsráðherra um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðiári. LÍÚ vill að hvalveiðar verði áfram leyfðar til að grisja hvalinn.

Refsivert að auglýsa og hafa milligöngu um vændi

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að á Íslandi sé ólöglegt að auglýsa og hafa milligöngu um vændi. Hann kveðst ekki hafa séð frétt Stöðvar 2 um rússnesku stúlkuna sem hingað virðist vera komin til lands gagngert til þess að stunda vændi, að því er virðist. Hann segir að ef tilefni þyki til að rannsaka mál stúlkunnar þá muni slíkt að sjálfsögðu verða gert.

Baugsmenn telja ummæli Valgerðar renna stoðum undir fullyrðingar sínar

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, telur að ummæli Valgerðar Sverrisdóttur renni stoðum undir fullyrðingar um að Baugsmálið eigi sér pólitískan uppruna. Valgerður sagði í blaðaviðtali að hún hefði upplifað hvernig sjálfstæðismenn töluðu um Baugsmenn og rannsaka þyrfti upphaf og tilurð málsins.

Veggjalýs vaxandi vandamál

Veggjalýs hafa numið hér land og eru vaxandi vandamál að sögn meindýraeyða. Lýsnar lifa aðallega á mannablóði. Ekki tekst að opna nýtt húsnæði Götusmiðjunnar á tilsettum tíma þar sem veggjalýs höfðu hreiðrað um sig í húsinu.

Ríkislögreglustjóri íhugar að taka rafbyssur í notkun

Ríkislögreglustjóraembættið íhugar nú að taka í notkun fimmtíu þúsund volta rafbyssu til reynslu sem getur sent rafbylgjur úr allt að 10 metra fjarlægð. Þegar skotið er úr byssunni lamast viðkomandi í fimm sekúndur og lyppast niður.

Mótmæla verðkönnun ASÍ

Forsvarsmenn Krónunnar og Bónuss mótmæla harðlega verðkönnun ASÍ og segja hana í engu samræmi við raunverulegt verðlag á drykkjarvöru vegna verðstríðs á gosi sem stóð yfir í mars og apríl. ASÍ segir verðlækkanir engu að síður ekki skila sér til neytenda.

6,5 milljarðar í vegamál til að sporna við skerðingu á aflamarki

Alls á að setja sex komma fimm milljarða króna í vegaframkvæmdir umfram það sem þegar hefur verið ráðstafað í þennan málaflokk. Þetta er fyrsti áfanginn í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar á aflamarki á næsta fiskveiðiári.

Umhverfispostuli messar í Kringlunni

Lögregla þurfti að hafa afskipti af umhverfisverndarsinnum sem stóðu fyrir mótmælum í Kringlunni í dag. Talsmaður samtakanna Saving Iceland kvartaði undan ágengni lögreglunnar.

Meðvitundarlaus eftir aftanákeyrslu

Farþegi í bifreið var fluttur meðvitundarlaus á slysadeild eftir aftanákeyrslu á Strandvegi í Grafarvogi rétt fyrir klukkan fimm í dag, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Að auki voru þrjú börn flutt á slysadeildina til eftirlits.

Átján mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Austurlands dæmdi í dag karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot, með því að hafa haft samræði við konu sem þannig var ástatt um að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Að auki var maðurinn dæmdur til að greiða konunni skaðabætur að fjárhæð 833.207 krónur.

Lögðu hald á 400 grömm af maríjúana

Umtalsvert magn fíkniefna fannst við leit í verslunarhúsnæði í austurborginni í gærkvöld en talið er að þetta séu um 400 grömm af maríjúana. Á sama stað fundust rúmlega 500 dósir af ólöglegu munn- og neftóbaki.

Umdeildar virkjanir í Brasilíu

Brasilíska ríkisstjórnin hefur gefur vilyrði fyrir byggingu tveggja vatnsfallsvirkjana í Madeira fljótinu í Brasilíu. Fljótið er stærsta þverá Amason fljótsins. Virkjunaráformin eru harðlega gagnrýnd vegna mögulegra umhverfisáhrifa við fljótið.

Gagnrýna afskipti sveitarfélaga af sölu Hitaveitu Suðurnesja

Samband ungra sjálfstæðismanna gagnrýnir harðlega afskipti einstakra sveitarfélaga af sölu á eignarhluta ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Með afskiptum sínum eru sveitarfélögin að beita sér gegn markmiði ríkisstjórnarinnar á einkavæðingu orkufyrirtækja að mati sambandsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sambandinu. Þeir furða sig ennfremur á yfirlýsingu ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar.

20 manns verða líflátnir á næstu vikum í Íran

Tuttugu manns verða hengdir í Íran fyrir ýmsa glæpi á næstunni. Eftir herferð í landinu í sumar gegn siðferðisglæpum, hefur lögreglan handtekið tugi fíkniefnaneytenda, smyglara og aðra glæpamenn. „Þeir tuttugu sem verða hengdir voru handteknir fyrir nauðganir, hjúskaparbrot og fleira." Þetta segir talsmaður dómarastéttar í landinu.

Þungt áfall fyrir Vesturland

Ákvörðun stjórnvalda um 30 prósent kvótasamdrátt í þorski er þungt áfall fyrir Vesturland og ekki ríkir einhugur meðal íbúa um nauðsyn þess að grípa til svo harkalegra aðgerða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Talið er að efnhagsleg áhrif skerðingarinnar nemi um 5 milljörðum króna á ári.

Aðrar verslunarkeðjur hækka einnig verð á mat- og drykkjarvörum

Verð á matar- og drykkjarvörum hefur hækkaði í fimm verslunarkeðjum frá því lækkanir á virðisaukaskatti og vörugjöldum tóku gildi í byrjun marsmánaðar. Þetta kemur fram í niðurstöðu verðkönnunar verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands. Mest hækkaði verð í verslunum Hagkaupa á tímabilinu eða um 0,8 prósent. Alþýðusambandið segir niðurstöðuna valda vonbrigðum.

Ólíklegt að ökumaður jeppans í Glasgow lifi af

Samkvæmt læknum sem annast manninn sem keyrði jeppa inn í flugstöðina í Glasgow, þykir ólíklegt að hann haldi lífi. „Maðurinn hlaut 3. stigs bruna á búk og útlimum og ólíklegt er að við náum að bjarga honum," sagði einn læknanna.

Leiðrétting

Ranglega var haft eftir Atla Gíslasyni alþingismanni í frétt á Vísir.is föstudaginn 6. júlí s.l. um ákvörðun sjávarútvegsráðherra niðurskurð á þorskaflaheimildum. Ranghermt var að Atli teldi að enginn vísindalegur grunnur lægi að baki ákvörðuninni. Hið rétta er að Atli sagði að "engin vissa" væri fyrir því að kvótaákvörðunin myndi efla fiskistofna eða atvinnulíf landsbyggðarinnar. Beðist er velvirðingar á þessu.

Lést í umferðarslysi á sunnudaginn

Pilturinn sem lést í umferðarslysi við mynni Norðurárdals um síðustu helgi hét Þorbergur Gíslason til heimilis að Hveramýri 2, Mosfellsbæ.

Bæta þjónustu við blinda og sjónskerta

Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að setja á laggirnar sex nýjar kennslu- og þjónustustöður til að bæta úr brýnum skorti á þjónustu við blinda og sjónskerta. Tillaga þessa efnis var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Nú starfa einungis tveir starfsmenn á sviði blindrakennslu og þjónusta þeir um 1.500 manns. Fjórir verða sendir út í nám til að afla sér sérhæfingar.

Málverkum að verðmæti milljóna dala stolið í Moskvu

Þjófar í Moskvu stálu 13 málverkum, sem metin eru á margar milljónir dala. Rússneskur ellilífeyrisþegi hafði geymt verkin í óvarinni, tómri íbúð sem að hann á. Kamo Manukyan, fyrrverandi dómari, átti verkin. Þau eru eftir fræga listamenn á borð við Georges-Pierre Seurat, Ivan Aivazovsky og Alexej Jawlenski.

Biðjast afsökunar á rafmagnsleysi

Alcoa Fjarðarál hefur sent út afsökunarbeiðni vegna rafmagnsleysis sem varð á Austurlandi í gær vegna prófana á tæknibúnaði fyrirtækisins. Samkvæmt yfirlýsingunni vinna sérfræðingar fyrirtækisins nú í samvinnu við Landsnet að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig. Rafmagn fór af álverinu og af stórum hluta Austurlands í um tvo klukkutíma síðdegis í gær.

Klerkurinn drepinn í áhlaupinu á Rauðu moskuna

Yfirvöld í Islamabad í Pakistan segjast nú hafa drepið klerkinn Abdul Rashid Ghazi í áhlaupinu á Rauðu moskuna sem hófst á miðnætti. Hann er æðsti trúarleiðtogi þeirra vígamanna sem neituðu að gefast upp. Hann hafði lokað sig inni í einu af herbergjunum í kjallara nálægs bænaskóla. Þar var líka fjöldi kvenna og barna sem vígamennirnir notuðu sem mannlega skildi.

Vill að Seðlabankinn lækki stýrivexti

Seðlabankinn verður að lækka stýrivexti og hætta stuðningi sínum við alltof hátt gengi krónunnar að mati framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann segir vaxtastefnu bankans hafa lítil áhrif á þróun verðbólgunnar og vinni gegn því að krónan virki eðlilega sem sjálfstæður gjaldmiðill. Mikilvægasta mótvægisaðgerðin fyrir sjávarútveginn og landsbyggðina er lægra gengi krónunnar að hans mati.

Heill loðfílsungi fannst í Síberíu

Leifar af ungviði loðfíls sem fundust í sífreri í Síberíu á dögunum eru líklega þær heilustu sem fundist hafa af þessari útdauðu skepnu. Talið er að leifarnar séu um 10,000 ára gamlar.

2 látnir og 4 slasaðir eftir flugslys í Flórída

Lítil Cessna 310 flugvél hrapaði á tvö heimili í Sanford, Flórída í morgun. Samkvæmt Cleo Cohen, talsmanni lögreglunnar, eru að minnsta kosti tveir látnir og fjórir alvarlega slasaðir og voru þeir fluttir með tveimur þyrlum á nærliggjandi sjúkrahús. Einnig er einn slökkviliðsmaður til aðhlynningar vegna brjóstverkja.

Vegagerðinni gert að greiða 900 þúsund krónur í skaðabætur

Vegagerðinni var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag gert að greiða Veiðifélagi Skagafjarðar tæpar 900 þúsund krónur í skaðabætur vegna umhverfisraskana völdum vegaframkvæmda. Um var ræða umhverfisáhrif vegna lagningu hringvegar í Norðurárdal. Að auki var Vegagerðinni gert að greiða um 270 þúsund krónur í málskostnað.

Íbúafjöldasprengja yfirvofandi í Kaliforníu

Íbúafjöldasprengja í Kaliforníu er yfirvofandi samkvæmt spá fjármálastofnunar ríkisins sem birtist á heimasíðu L.A. Times í dag. Á næstu 50 árum mun fólksfjöldinn aukast um 75%, sem þýðir fólksfjöldinn í ríkinu mun nálgast 60 milljóna markið.

Náttúruverndarsinnar mótmæla í Kringlunni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgdi fyrir skömmu út hópi mótmælenda sem voru búnir að koma sér fyrir í Kringlunni í Reykjavík. Mótmælendurnir, sem eru af ýmsum þjóðernum,tengjast samtökunum Saving Iceland sem staðið hefur fyrir mótmælaaðgerðum við Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi. Hollenskur talsmaður samtakanna undrast aðgerðir lögreglu og segir um friðsöm mótmæli að ræða.

Ný hraðleið í Leifsstöð

Farþegar á Saga Class hjá Icelandair geta nú notið þess að komast hraðar í gegnum öryggiseftirlit í Leifsstöð en áður. Sérstök braut hefur verið gerð fyrir þá sem ferðast á Saga Class, og mun hún auka bæði þægindi og hraða. Fordæmi fyrir þessa þjónustu þekkist víða, t.d. má nefna Kaupmannahöfn, heathrow og Frankfurt.

Jarðboranir fá risabor

Í dag er skipað upp í Hafnarfirði lang stærsta jarðbor, sem notaður hefur verið hér á landi til þessa. Þyngstu einstöku stykkin vega um 90 tonn, eða sem jafngildir um 60 litlum fólksbílum. Hann getur borað dýpra en gert hefur verið til þessa og nýtist því við tilraunir við svonefndar djúpboranir.

Bandaríkin senda þriðja flugmóðurskipið til Persaflóa

Bandaríkin hafa sent þriðja flugmóðurskipið, Enterprise, til Persaflóans, á svæði nálægt írönsku hafsvæði. Sjóherinn sagði frá þessu í tilkynningu í morgun. „Enterprise er mótvægi við þær truflandi aðgerðir sem sum lönd á svæðinu standa fyrir. Einnig styður það við bakið á hermönnum okkar í Írak og Afganistan.“ sagði í tilkynningunni.

Vegaframkvæmdum upp á 6,6 milljarða króna flýtt

Ríkisstjórnin tilkynnti í morgun að hún ætlar að flýta framkvæmdum í vegagerð upp á 6,6 milljarða króna á næstu fjórum árum. Þetta er gert til að mótvægis við skerðingu á aflamarki á næsta fiskveiðiári.

60 handteknir í aðgerðum gegn mafíunni

Lögreglan á suðurhluta Ítalíu handtók í dag fleiri en 60 manns í aðgerðum gegn mafíunni á svæðinu en hún kallast 'Ndrangheta. Meðlimir hennar eru grunaðir um smygl á eiturlyfjum, fólki og tryggingasvindl. 'Ndrangheta er staðsett í Kalabríu, rétt suður af Napólí, og er orðin stærri en Cosa Nostra mafían sem hefur aðsetur á Sikiley.

Sjá næstu 50 fréttir