Fleiri fréttir

Stórtjón í fárviðri á Akureyri

Stórtjón varð á Akureyri í gærkvöld þegar þakdúkur fauk af fjölbýlishúsi í fárviðri. Minnstu munaði að íbúi stórslasaðist í hamaganginum, vatn streymdi inn í íbúðir og íbúar sváfu ekki dúr.

Rómarsáttmálinn fimmtugur á sunnudaginn

Á sunnudaginn er hálf öld frá því að Rómarsáttmálinn var undirritaður og Efnahagsbandalag Evrópu, forveri Evrópusambandsins, stofnað. Um fimmtugt skartar ESB 27 aðildarríkjum og sameiginlegri mynt. Það sinnir friðargæslu í Afríku, Asíu, Miðausturlöndum og á Balkanskaga. Í sambandsríkjunum er fimmtung verslana heimsins að finna og þar býr tæplega hálfur milljarður manna.

Samstarf eflt um málefni heimilislausra

Stefnt er að því að efla samstarf milli allra þeirra sem komu að málefnum heimilislausra í samfélaginu. 40 til 60 eru nú heimilislausir á höfuðborgarsvæðinu. Kona á fimmtugsaldri sem var á götunni í fjögur ár sagðist hafa ákveðið að hætta að drekka þegar hún horfðist í augu við dauðann, í byl fyrir rúmum tveimur árum.

Myrtur á heimsmeistaramótinu í krikket

Bob Woolmer, landsliðsþjálfari Pakistana í krikket, var myrtur á hótelherbergi sínu á Jamaíka fyrir tæpri viku. Talið er að einhver nákominn honum hafi framið ódæðið og fórnarlambið haft uppi áform um að afhjúpa spillingu í íþróttinni.

Ógnað með byssum og síðan rænt

Liðsmenn íranska byltingarhersins tóku í dag höndum 15 breska sjó- og landgönguliða sem voru við eftirlit í íraskri landhelgi. Þeim var ógnað með skotvopnum en ekki kom til átaka.

Fjölsmiðjan í útgerð

Ef Fjölsmiðjunni tekst að safna hátt í fjörutíu milljónum gæti hópur ungmenna sem ekki hefur fótað sig í vinnu eða skóla komist á sjóinn. Fagriklettur HF 123 er nýtt verkefni á vegum Fjölsmiðjunnar en rösklega 200 ungmenni hafa fundið farveg sinn í lífinu með hennar hjálp.

Bardagasveitir heim 2008

Fulltrúardeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag frumvarp sem felur í sér að kalla skuli alla bardagasveitir Bandaríkjahers heim frá Írak fyrir 1. september 2008. Frumvarpið fól í sér rúmlega 8.000 milljarða króna aukafjárveitingu til stríðsrekstursins en demókratar í fulltrúadeildinni bættu heimkvaðningarskilyrðinu við.

Tilraun til sjálfsvígs

Að aka á nærri 300 kílómetra hraða á mótorhjóli er tilraun til sjálfsvígs, segir Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu. Nærri þrjú hundruð mótorhjólamenn hafa slasast í umferðarslysum síðastliðinn áratug. Sex hafa beðið bana.

Sveitarfélögin skulda meira en ríkið

Sveitarfélögin skulda meira en ríkissjóður og segir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga brýnt að færa þeim aukna hlutdeild í tekjustofnum ríkisins til að vinna á skuldavandanum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka framlög til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samanlagt um 1.400 milljónir á þessu ári og næsta.

Alger bylting í samgöngumálum

Alger bylting verður í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á næstu þremur til fimm árum með lagningu Sundabrautar, tvöföldun Hvalfjarðarganga og hluta Vesturlandsvegar. Heildarkostnaður við þetta er um þrjátíu milljarðar króna. Forsætisráðherra telur jákvætt að hraða Sundabraut með þátttöku Faxaflóahafna.

Munu ekki geta glatt sjómenn

Fiskifræðingar segja ekki koma á óvart að mikið sé af vænum þorski á miðunum úti af Grindavík. Þeir geta þó ekki glatt sjómenn með því að von sé á tillögum um auknar veiðiheimildir.

Bardagasveitir frá Írak á næsta ári

Neðri deild bandaríska þingsins samþykkti í dag að allar bardagasveitir hersins skuli vera komnir heima frá Írak hinn fyrsta september á næsta ári. Þar sem bardagasveitir eru sérstaklega tilteknar er haldið opnum þeim möguleika að stuðningsdeildir eins og verkfræðisveitir verði eitthvað lengur í landinu.

Grétar Mar leiðir lista frjálslyndra í Suðurkjördæmi

Grétar Mar Jónsson, skipstjóri og varaþingmaður Frjálslynda flokksins, leiðir lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þetta var tilkynnt á fundi í Fræðasetrinu í Sandgerði í dag. Auk Grétars skipa eftirtaldir frambjóðendur efstu tíu sætin á lista frjálslyndra í kjördæminu:

Staðfestir gæsluvarðhald yfir meintum nauðgara

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir ungum manni sem grunaður er um að hafa nauðgað konu á salerni í kjallara Hótels Sögu aðfaranótt laugardagsins síðasta. Maðurinn var handtekinn á sunnudaginn og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 28. mars í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn en maðurinn kærði þann úrskurð.

Bílnum stungið í samband

Bílaframleiðandinn Ford kynnti nýverið fyrsta ökuhæfa bílinn sem gengur bæði fyrir vetni og rafmagni. Bíllinn er búinn tengil tækni og er af gerðinni Ford Edge. Hann á að geta ekið 40 kílómetra á einni hleðslu en eftir að efnarafallinn tekur við er hægt að keyra ríflega 320 kílómetra til viðbótar. Með tengiltækninni er síðan hægt að hlaða 336 volta liþíum í gegnum venjulegt heimilisrafmagn.

Frambjóðendur VG á ferð um Danmörku og Svíþjóð

Þrír frambjóðendur Vinstri - grænna fyrir þingkosningarnar í vor ætla um helgina að heimsækja Suður-Svíþjóð og Danmörku til að kynna stefnumál flokksins fyrir Íslendingum þar. Þetta eru þau Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Samráð borgarinnar við íbúa vekur athygli

Íbúasamráð í framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar vakti athygli á evrópskri ráðstefnu um sjálfbæra þróun á Sevilla á Spáni í gær. Um 1500 aðilar frá 40 löndum taka þátt í ráðstefnunni. Ellý Katrín Guðmundsdóttir sviðsstjóri Umhverfissviðs flutti erindi á ráðstefnunni.

Duglegur elskhugi

Bresku hjónin Sara og Charles Bostock eru skilin eftir langt og farsælt hjónaband. Þeim varð sjö barna auðið og af þeim átti Charles tvö. Charles, sem í dag er á eftirlaunum, er 69 ára gamall. Hann býr einn. Sara er tuttugu árum yngri og býr með elskhuganum sem gjörði henni börnin fimm, sem Charles hélt að hann ætti.

Bretar heimta sjóliða sína aftur

Bretar hafa krafist þess að Íranar láti strax lausa fimmtán breska sjóliða sem þeir handtóku þegar þeir voru við venjubundið eftirlit um borð í flutningaskipi undan ströndum Íraks. Bretarnir veittu enga mótspyrnu þegar írönsk flotasveit dreif að þegar þeir voru á leið frá skipinu á gúmmíbátum sínum. Skipið sem þeir voru að skoða var í Íraskri landhelgi.

Flutningur á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga þoli enga bið

Samband íslenskra sveitarfélaga vill að hrundið verði strax af stað heildstæðum flutningi á verkefnum á sviði velferðar-, félags- og menntamála frá ríki til sveitarfélaga. Fram kemur í ályktun sem samþykkt var á landsþingi sambandsins í dag að undirbúningur flutnings á þjónustu við aldraða, fatlaða og rekstur framhaldsskóla og heilsugæslu þoli enga bið.

Húðflúr fær tilgang eftir 32 ár

Karlmaður sem tattóveraði nafn kærustu sinnar á handlegginn fyrir 32 árum er loksins að kvænast henni. Andy Cheesman frá Norfolk í Bretlandi og Annette Law hættu saman þegar hún var 17 ára. Andy hafði látið tattóvera nafn hennar á handleggin sem tákn um ást hans. Þau hættu saman áður en Annette sá húðflúrið.

Sakfelldur fyrir árás á lögreglumenn

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í fjögurra mánaða fangelsi, þar af þrjá skilorðsbundna, fyrir að hafa veist að tveimur lögreglumönnum sem hugðust handtaka hann. Var manninum gefið að sök að hafa sparkað í handlegg annars lögreglumannsins og kýlt hinn í andlitið þannig að hann hlaut mar og yfirborðsáverka í andlit.

Enn óvissa um stjórnarskrá

Evrópusambandið heldur upp á fimmtíu ára afmæli sitt hinn 25. þessa mánaðar. Þann dag árið 1957 var stofnsáttmáli þess undirritaður í Rómarborg. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og líklega flestir sammála um að mikill árangur hafi náðst. Engu að síður er enn tekist á um grundvallaratriði, eins og til dæmis sameiginlega stjórnarskrá allra aðildarríkjanna. Á skýringarmyndinni hér til hliðar má sjá þróun sambandsins og þau mál sem helst steytir á.

Sendiráð Íslands í Mapútó lék á reiðiskjálfi

Sendiráð Íslands og skrifstofa Þróunarsamvinnustofnun Íslands léku á reiðiskjálfi í marga klukkutíma vegna sprenginga í Mapútó, höfuðborginni í Mósambik í gær. Fjöldi íbúa hefur flúið heimili sín í dag af ótta við frekari sprengingar. Vopnabúr hersins sprakk í loft upp í einu úthverfa borgarinnar í gær og 80 fórust. Hundruð íbúa liggja slasaðir á sjúkrahúsum.

Styrktarreikningur vegna banaslyss

Styrktarreikningur hefur verið stofnaður fyrir fjölskyldu Lísu Skaftadóttur sem lést í umferðarslysi á Suðurlandsvegi í fyrradag. Reikningurinn er á nafni Ragnars Þórs, eiginmanns Lísu. Hann er númer 0152-05-267600, kt. 111161-3649. Lísa lét eftir sig eiginmann og fimm börn. Þau eru fjögurra og átta ára, tvíburar á fermingaraldri og 25 ára. Tvíburarnir fermast 5. apríl næstkomandi.

Silfur í fatnaði stórhættulegt

Sænskir vísindamenn vara eindregið við silfurögnum sem finnast í margskonar fatnaði, þar sem þær geri penisilín óvirkt. Svíar hafa stöðvað sölu á plásturstegund frá Hansaplast, sem inniheldur silfur og yfirvöld vilja fá lista yfir vörur með silfurinnihaldi. Yfirlæknir og dósent í klínískri veirufræði við háskólann í Uppsölum, segir að málið sé alvarlegt.

Dagvistarrýmum fjölgað um 75

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fjölga davistar-og hvíldarrýmum fyrir aldraða á næstu mánuðum. Alls verður 370 milljónum króna varið til verkefnisins. Því er ætlað að styrkja búsetu aldraðra á eigin heimilum. Dagvistarrýmum verður fjölgað um 75, en fyrir eru þau um 700 á landinu öllu.

Braut glas á andliti konu

Karlmaður á fertugsaldri var í dag dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að brjóta glerglas á andliti konu. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi líkamsárásina sérlega hættulega. Við höggið brotnaði úr fimm tönnum konunnar. Líkamsárásin átti sér stað á veitingastað í miðborginni í janúar á síðasta ári. Í vitnisburði kemur fram að maðurinn hafi reiðst þegar bjór skvettist á hann.

Varað við vatnsskemmdum á vegum í Borgarfirði

Vegagerðin varar við vatnsskemdum á hringveginum neðan við Svignaskarð í Borgarfirði og sömuleiðis í uppsveitum Borgarfjarðar. Skemmdirnar má rekja til vatnavaxta í umhleypingum síðustu daga og er viðgerð á vegarköflunum að hefjast og vegfarendur beðnir um að sýna aðgát og tillitsemi.

Húnninn Knútur er krúttlegur kútur

Ísbjarnarhnoðri er orðinn ástsælasta sjónvarpsstjarna Þýskalands. Litli kúturinn er bara 15 vikna gamall og heitir Knútur. Hann er kominn með eigin sjónvarpsþátt og blaðamannafundur með honum í morgun var í beinni útsendingu. Annie Leibovitz, ljósmyndarinn heimsfrægi sem myndaði Leonardo diCaprio á Íslandi um daginn, er líka búin að taka myndir af Knúti.

Heiðmerkurkæru NÍ vísað frá

Úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál hefur vísað frá kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna þeirra ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur að veita framkvæmdaleyfi til lagningar vatnsveitu frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar.

Ground control to Major Tom

Frakkar hafa fyrstir þjóða opnað X-skýrslurnar svokölluðu, þar sem er að finna allar rannsóknir og tilkynningar til stjórnvalda um fljúgandi furðuhluti. Allar skýrslurnar hafa verið settar á sérstaka netsíðu. Talsmaður frönsku geimrannsóknarstofnunarinnar segir að þeir vonist til að með þessu verði hægt að tala um fyrirbærið án blindrar trúar eða fordóma.

Skátamót með SMS ívafi

Um helgina verður útilífshelgi skátaflokka í Heiðmörk. Mótið er sérstakt að því leiti að það er haldið innan borgarmakanna og er skipulagt af fólki á aldrinum 18-20 ára. SMS dagbók verður haldið úti á heimasíðu mótsins sem hluti af þrautum og verkefnum þátttakendanna.

Vorhátíð og sumarskráning KFUM-og K

Vorhátíð KFUM og KFUK verður haldin á morgun í höfuðstöðvum félaganna að Holtavegi. Þá hefst líka skráning fyrir sumarbúðir. Í fyrra tóku rúmlega þrjú þúsund börn þátt í sumarstarfinu, en það er 30 prósent á tveimur árum. Vinsælustu flokkarnir fyllast á fyrstu klukkutímunum, segir í tilkynningu frá KFUM og KFUK. Búist er við að met verði slegið í sumarbúnaðaskráningu.

Mengun vegna brennisteinsvetnis ekki yfir heilsuverndarmörkum

Brennisteinsvetnismengun sem borist hefur frá Hellisheiðarvirkjun til borgarinnar hefur ekki farið yfir heilsuverndarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá því að virkjunin var formlega gangsett eftir því mælingar umhverfissviðs borgarinnar og Umhverfisstofnunar sýna.

Íranar handtaka breska sjóliða úti fyrir ströndum Íraks

Íranski sjóherinn hneppti í morgun 15 breska hermenn í varðhald eftir aðgerðir úti fyrir ströndum Íraks. Eftir því sem breska varnarmálaráðuneytið greinir frá í yfirlýsingu voru hermenn í Konunglega breska sjóhernum að ljúka venjubundnu eftirliti í kaupskipi úti fyrir ströndum Íraks þegar íranski herinn umkringdi báta þeirra og knúði þá til að sigla yfir í landhelgi Írans.

Enn barist í Mógadisjú

Harðir bardagar héldu áfram í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu, í morgun, þriðja daginn í röð. Átök herskárra múslima við eþíópískar og sómalskar hersveitir hafa harnað síðustu vikur. Íbúar hafa flúið borgina í stórum hópum í gær og í morgun.

Bannaður á bar fyrir losun vinds

Karlmanni á fertugsaldri hefur verið bannað að sækja bar í Skotlandi. Ástæðan er sú að maðurinn leysir of oft vind með tilheyrandi látum og umhverfisáhrifum. Eigandi Thirsty Kirsty barsins í Fife segir að lyktin sé viðurstyggileg, og maðurinn öskri og veifi örmum svo allir finni lyktina þegar hann losar um vindganginn.

Lausamunir og þakefni á fleygiferð

Þakefni fauk í heilu lagi af fjórum raðhúsum á Akureyri upp úr miðnætti. Það hafnaði inni í garði við næsta hús og á bílastæði, þar sem að minnsta kosti einn bíll skemmdist. Björgunarsveitarmönnum tókst með snarræði að koma í veg fyrir að samskonar þakklæðning fyki af fjórum raðhúsum til viðbótar.

Halli á SÁÁ

Tæplega hundrað milljóna króna halli var á rekstri SÁÁ á síðasta ári. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, treystir því að stjórnvöld bregðist við og hefur enga trú á því að ríkið ætli að setja SÁÁ á hausinn.

Tekur út þjónustugjöld hér og annars staðar á Norðurlöndum

Alþýðusamband Íslands og Samtök fjármálafyrirtækja hafa ákveðið að efna til samstarfs um samanburðarúttekt á þjónustugjöldum banka og sparisjóða annars staðar á Norðurlöndum. Eftir því sem segir á vef ASÍ hafa samtökin fengið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að sjá um verkefnið.

Stofna starfshóp til að fara yfir fjármögnun Sundabrautar

Í morgun var ákveðið að setja á fót starfshóp með fulltrúum fjármála- og samgönguráðuneytis og Faxaflóahafna til að fara yfir hugmyndir Faxaflóahafna um fjármögnun Sundabrautar. Forsætisráðherra segir mikilvægt að hægt verði að flýta lagningu brautarinnar og stjórnarformaður Faxaflóahafna telur að Sundabraut geti verið tilbúin innan þriggja til fimm ára.

Sjá næstu 50 fréttir