Fleiri fréttir

Öll atkvæði utan kjörfundar innsigluð

Stuðningsmenn Óskars Bergssonar, sem lenti í þriðja sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík um helgina, létu innsigla öll utankjörfundaratkvæði að talningu lokinni.

Lausir úr prísundinni

Sjötíu kanadískir námumenn eru nú lausir úr prísundinni eftir að hafa setið fastir í rúmlega sólarhring einn kílómetra undir yfirborði jarðar í kalsíum-námu í Kanada.

Og Vodafone í Símaskrána

Nýjustu upplýsingar um símanúmer og heimilisföng viðskiptavina Og Vodafone, verða hér eftir aðgengilegar á simaskra.is og í Símaskránni. Þetta er vegna samkomulags Og Vodafone og Já, sem rekur simaskra.is, 118 og gefur út Símaskrána.

Réttað yfir Sigurði Frey

Aðalmeðferð í máli Sigurðar Freys Kristmundssonar hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Sigurður Freyr er ákærður fyrir að hafa banað Braga Halldórssyni í ágúst síðastliðnum með því að stinga hann með hnífi.

Innbrot reynt í félagsmiðstöð

Tilraun var gerð til að brjótast inn í félagsmiðstöðina í Þorlákshöfn síðustu nótt. Vaktmaður öryggisgæslufyrirtækis tók eftir að einhver hafði reynt að spenna upp hurð á félagsmiðstöðinni en mistekist og er ekki að sjá að hann hafi komist inn. Ekki er vitað hvort sami einstaklingur hafi verið á ferð og braust inn í Sæunni Sæmundsdóttur ÁR aðfaranótt laugardags.

Samið við þrjú félög

Fulltrúar Reykjavíkurborgar gengu í gær frá samningum við þrjú stéttarfélög um breytingar og framlengingu á samningum félaganna við borgina. Félögin eru Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Stéttarfélag lögfræðinga og Útgarður.

Eru að slökkva síðustu glæðurnar

Slökkviliðsmenn eru að ljúka við að slökkva eld sem kviknaði í sumarbústað við Hafravatn. Enginn reyndist vera í bústaðnum þegar eldurinn kom upp og því engin hætta á ferðum. Sumarbústaðurinn er hins vegar illa skemmdur.

Eldur í sumarbústað

Slökkviliðsmenn frá öllum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu voru sendar að Hafravatni til að slökkva eld sem kom upp í sumarbústað þar fyrir skemmstu.

Spassky til Íslands

Skákmeistarinn Boris Spassky, sem árið 1972, missti heimsmeistaratitilinn í hendur Bobby Fischers í Laugardalshöllinni, er væntanlegur hingað til lands í næstu viku. Að sögn Morgunblaðsins ætlar hann að taka þátt í hátíðarhöldum til heiðurs Friðriki Ólafssyni fyrsta stórmeistara Íslendinga í skák. Ekki liggur fyrir hvort hann muni hitta Fischer í heimsókninni, en sem kunnugt er er Fischer orðinn íslenskur ríkisborgari og býr í Reykjavík.

Steinunn og Ólafur fengu starfslaun í þrjú ár

Rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir og Ólafur Gunnarsson hlutu starfslaun til lengst tíma við úthlutun listamannalauna. Hvort um sig hlýtur starfslaun til þriggja ára. 124 listamenn fengu starfslaun sem nema frá þremur mánuðum upp í þrjú ár og tíu að auki fengu fararstyrk.

Þjóðverjar sniðganga Hamas

Ehud Olmert, starfandi forsætisráðherra Ísraels og Angela Merkel, kanslari Þýskalands ætla ekki að eiga samskipti við væntanlega heimastjórn Hamassamtakanna í Palestínu. Þetta sagði Olmert eftir fund þeirra Merkel í gær. Hann sagði kosningasigur Hamas í síðustu viku hafa verið óheppilegan, því Hamas væru hryðjuverkasamtök og þau myndu ekki fá fjármagn frá evrópskum hjálparsamtökum. Þá sagði Merkel að þýsk stjórnvöld myndu aðeins eiga samskipti við Hamas ef samtökin viðurkenndu Ísraelsríki og höfnuðu ofbeldi.

Í fangelsi fyrir akstur án réttinda

Karlmaður var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að keyra bíl ökuréttindalaus á Akureyri. Maðurinn hefur aldrei fengið ökuréttindi og var fyrir sjö árum dæmdur til að fá aldrei ökuréttindi vegna endurtekinna umferðarlagabrota.

Fuglaflensan komin til Kýpur

Fuglaflensutilfelli af gerðinni H5N1 hefur greinst á tyrkneska hluta eyjunnar Kýpur. Þetta eru fyrstu veirutilfellin sem upp hafa komið á Kýpur, en engin tilfelli hafa fundist á gríska hluta eyjarinnar. Ríkisstjórnin hélt neyðarfund vegna málsins í gær en Kýpur er einungis um 75 kílómetra frá suðaustur-strönd Tyrklands þar sem fjórar manneskjur hafa dáið eftir að hafa smitast af H5N1 vírusnum.

Kristinn vill skýringu

Kristinn H. Gunnarsson þingmaður Framsóknarflokks segir að það verði að fá skýringu á gríðarlegri þátttöku í utankjörfundaratkvæðagreiðslum í prófkjörinu í Reykjavík um helgina. Það hafi líklega aldrei gerst áður að fjórðungur greiddra atkvæða sé utan kjörfundar.

Íranar láta undan kröfu Bandaríkjamanna

Írönsk stjórnvöld hafa látið undan kröfu Bandaríkjamanna um að leyfa eftirlitsmönnum Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar að skoða svæði sem tengjast Lavizan herstöðinni í Teheran í Íran. Sagði sendimaður sem þekkir vel til mála, að eftirlitsmenn hefðu skoðað staði tengda Lavizan og séð búnaðinn sem þar er. Ekki hefur enn verið ákveðið hvort Rússar munu auðga úran fyrir írana eða hvort Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taki til skoðunar að beita Írana refsiaðgerðum vegna áætlana þeirra í kjarnorkumálum.

Fastir í rúmar tuttugu klukkustundir

Sjötíu kanadískir námamenn hafa nú setið fastir í rúmlega 20 klukkustundir um einn kílómetra undir yfirborði jarðar í kalsíum námu í Kanada. Eldur kviknaði í námunni og þurftu námamennirnir að leita skjóls í öryggisherbergi á meðan slökkviliðsmenn reyndu að ráða niðurlögum eldsins og tókst það seint í gærkvöldi.

Þrír létust og tugir slösuðust

Að minnsta kosti þrír létust og yfir fjörtíu eru slasaðir eftir að farþegalest fór út af teinunum í austurhluta Pakistans í gær en margir vagnanna féllu niður í gil samkvæmt AP fréttastofunni. Talið er að á bilinu 500 til 600 farþegar hafi verið um borð í lestinni sem var á leið frá Rawalpindi sem er nærri Islamabad til Lahore, höfuðborg Punjabhérað. Herinn hefur verið sendur á staðinn til að aðstoða við björgunarstörf sem hefur gengið brösulega vegna erfiðra aðstæðna en óttast er að tala látinna muni hækka á næstu dögum.

Tarja Halonen endurkjörin forseti

Sauli Niinisto viðurkenndi í gærkvöldi ósigur sinn í síðari umferð forsetakosninganna í Finnlandi, sem fóru fram í gær. Fékk Tarja Halonen, forseti Finnlands, 51,8 prósent atkvæða en Niinisto 48,2 prósent. Halonen, sem er 62 ára, sagði að sigurinn væri sögulegur því hún væri fyrsti kvenforseti landsins sem nær endurkjöri en Halonen var kjörin forseti Finnlands, fyrst kvenna, árið 2000. Hún hefur alltaf notið vinsælda en hún þykir alþýðleg, syndir reglulega í Eystrasalti og æfir magadans.

Danahatur breiðist út

Danahatur breiðist nú út í löndum múslima vegna skopmynda af Múhameð spámanni sem Jótlandspósturinn birti í haust. Hafa herskáir Múslímar á Gazasvæðinu sagt Skandinövum, sem staddir eru á Gaza, að koma sér í burtu og var kveikt í danska fánanum Dannebrog á Vesturbakkanum í gær.

Palestínskir öryggissveitarmenn mótmæla sigri Hamas

Hópur palestínskra öryggissveitarmanna lagði undir sig byggingu þingsins á Gasa-ströndinni í morgun. Vitni segja að þeir hafi farið inn með offorsi og hleypt af byssum sínum út í loftið. Með þessu vildu þeir láta í ljós óánægju sína með sigur Hamas-samtakanna í palestínsku þingkosningunum í síðustu viku.

Segir nám til stúdentsprófs stytt til að spara fé

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir áform um að stytta námstíma til stúdentsprófs snúast um að spara fé fyrir ríkið og auka miðsstýringu. Hún telur að staldra þurfi við og athuga fremur möguleika á að stytta námstímann í grunnskólanum.

ESB til varnar Danmörku

Evrópusambandið kemur Danmörku til varnar og mun leita til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, hvetji stjórnvöld í arabaríkjum til þess að danskar vörur verði sniðgengnar. Danskar vörur hafa þegar verið fjarlægðar úr hillum í verslunum margra arabískra ríkja í mótmælaskyni við birtingu skopmynda af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum.

Sáttmáli í stað stjórnarskrár ESB

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur lagt til að gerður verði örsáttmáli á milli Evrópusambandsríkjanna í stað stjórnarskrárinnar sem flest bendir til að ekki verði að veruleika í núverandi mynd.

Fundu 20 grömm af kókaíni

Lögreglumenn fundu að minnstakosti tuttugu grömm af efni, sem talið er vera kókaín, þegar hún var að hreinsa út úr fíkniefnagreni í Austurborignni seint í nótt. Eigandi efnisins var meðal gesta í húsinu og er hann í haldi lögreglu. Hann er grunaður um að hafa ætlað að selja efnið, enda eru menn víst ekki að rúnta með svona mikið efni í einu í bílumn sínum, ef þeir ætla þau til eigin nota.

Stjórnskipulegur vandi blasir við

Stjórnskipulegur vandi blasir við ef einhver dómari höfðar mál á hendur ríkinu vegna afnáms úrskurðar kjaradóms um laun dómara segir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari.

Stærsti árganur Íslandssögunnar

Í vor útskrifast stærsti árgangur Íslandssögunnar úr grunnskólum landsins. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, hefur áhyggjur af því hvort framhaldsskólarnir rúmi alla þá sem óska eftir inngöngu.

Danski fáninn brenndur í Palestínu

Danski fáninn var brenndur í Palestínu í dag í mótmælaskyni við skopmyndir Jótlandspóstsins af Múhammeð spámanni. Vopnaðir menn í Nablus á Vesturbakkanum stóðu fyrir uppátækinu en mikil reiði ríkir í Mið-Austurlöndum vegna myndanna sem birtar voru í haust.

Eldur kviknaði í gamalli vörubifreið

Eldur kviknaði í gamalli vörubifreið við Svínavatn í Biskupstungum nú fyrir stundu. Engin hætta var á ferðum og tók það slökkvilið skamma stund að ráða niðurlögum eldsins.

Íslendingar ljúki háskólagráðum á svipuðum tíma og aðrir

Prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands segir það ekki alls kostar rétt að íslenskir nemendur ljúki námi seinna og skili sér seinna út á vinnumarkaðinn en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum, eins og haldið hefur verið fram. Íslensk ungmenni ljúki almennt stúdentsprófi seinna en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum en ef menn skoði sambærilegar gráður á háskólastigi þá ljúki Íslendingar þeim gráðum á svipuðum tíma.

Fréttateymi ABC fréttastofunnar lentu í sprengjuárás

Fréttamaður og myndatökumaður ABC fréttastofunnar er alvarlega særðir eftir sprengjuárás í bænum Taji í Írak í dag. Bob Woodruff fréttamaður og Doug Vogt myndatökumaður voru á ferð með írakska hernum þegar ráðist var á bílalest þeirra.

Skoða kosti þess að sameinast

Hafnarsamlag Eyjafjarðar og Hafnarsamlag Norðulands skoða nú kosti þess að sameinast. Á vefsíðunnni dagur.net er fjallað um að vegna sameiningar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, að þá hafi verið fjallað um það í skýrslu Rannsóknarstofnunnar Háskólans á Akureyri, hvernig skylda fara með hafninar á þeim stöðum, en Siglufjarðarhöfn hefur staðið utan hafnarsamlaga.

Dómurinn ekki áfellisdómur

Dómur héraðsdóms yfir Biskupi Íslands er ekki áfellisdómur að mati lögfræðings biskups. Hann segir óvíst að dóminum verði áfrýjað. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að biskup hafi brotið stjórnsýslulög við ráðningarferli sendiráðsprests í London.

Björn Ingi gefur lítið fyrir ásakanir Kristins H.

Björn Ingi Hrafnsson gefur lítið fyrir ásakanir Kristins H. Gunnarsson, þingmanns Framsóknarflokksins, um að hópur forystufólks innan Framsóknarflokksins, tengd Birni Inga, muni reyna að hafa áhrif til að koma Kristni, og jafnvel fleiri þingmönnum flokksins, af framboðslista Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar á næsta ári.

Nóttin hjá lögreglu um landið að mestu tíðindalaus

Þrettán voru handteknir í eftirlitsaðgerðum fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík við og á skemmtistöðum í miðborginni í fyrrinótt. Allir reyndust hafa í fórum sínum eitthvert magn af hassi, amfetamíni, kókaíni, maríjúana og ofskynjunarsveppum, að því er Fréttablaðið greinir frá í dag.

Opið í Hlíðarfjalli í dag

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður opið í dag frá klukkan 10-17 samkvæmt tilkynningu frá staðarhöldurum. Klukkan 8 var 7 stiga hiti og nánast logn. Í tilkynningunni segir að það sé sannkallað vorfæri í brekkunum og snjórinn því orðinn töluvert blautur.

Síðari umferð forsetakosninga í Finnlandi í dag

Síðari umferð finnsku forsetakosninganna fara fram í dag en Törju Halonen tókst ekki að fá hreinan meirihluta í fyrri umferðinni sem fram fór fyrir tveimur vikum. Kosið verður á milli hennar og hægri mannsins Sauli Ninistoo en ekki er marktækur munur á fylgi þeirra samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum.

Enn vandræði við réttarhöldin yfir Saddam

Réttarhöldin yfir Saddam Hussein hófust að nýju í morgun eftir stutt hlé. En gamanið stóð stutt að þessu sinni, því Hussein yfirgaf réttarsalinn í mótmælaskyni stuttu eftir að réttur var settur, í kjölfar þess að verjendur hans höfðu stormað út úr salnum.

Baldvin hlutskarpastur í forvali VG á Akureyri

Baldvin H. Sigurðsson sigraði í forvali Vinstri - grænna fyrir sveitarstjórnarkosningar á Akureyri í gær. Hann fékk 60 prósent atkvæða í fyrsta sætið. Valgerður H. Bjarnadóttir bæjarfulltrúi varð í öðru sæti en hún sóttist eins og Baldvin eftir að leiða listann.

Sameining samþykkt nyrðra

Yfirgnæfandi meirihluti Siglfirðinga og Ólafsfirðing samþykkti í gær að sameina sveitarfélögin. 86 prósent Siglfirðinga sögðu já í sameiningarkosningunum og 77 prósent Ólafsfirðinga. Kjörsókn á Siglufirði var rúmlega 60 prósent og um 70 prósent á Ólafsfirði.

Björn Ingi leiðir framsóknarmenn í Reykjavík

Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra og varaþingmaður, leiðir lista framsóknarmanna í borgarstjórnarkosningunum í vor en hann vann nokkuð öruggan sigur í prófkjöri flokksins í borginni í gær.

Eldfimt ástand í Palestínu

Ástandið í Palestínu er eldfimt í kjölfar þingkosninga í síðustu viku. Slegið hefur í brýnu milli Hamas-liða, sem sigruðu, og stuðningsmanna Fatah. Íslenskur lektor segir hættu á að almenningur missi tiltrú á Hamas-samtökunum.

50 slösuðust þegar þak sýningarhallar hrundi í Póllandi

Að minnsta kosti 50 manns slösuðust þegar þak á sýningarhöll nærri borginni Katowice í suðurhluta Póllands hrundi síðdegis í dag. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort einhver hafi látið lífið í slysinu og ekki hefur verið staðfest hve margir voru í bygginguni þegar þakið hrundi, en fregnir herma að á bilinu 500 til 1000 manns hafi verið þar.

Sjá næstu 50 fréttir