Sport

„Bar­átta kynjanna“ hafði ekkert með jafn­rétti að gera

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Iga Swiatek skilur lítið í nútíma útgáfu af „Baráttu kynjanna“
Iga Swiatek skilur lítið í nútíma útgáfu af „Baráttu kynjanna“

Næstbesta tennis kona heims, Iga Swiatek horfði ekki á og var ekki hrifin af nýjustu útgáfunni af „Baráttu kynjanna“ þar sem besta tenniskona heims, Aryna Sabalenka, og Nick Kyrgios mættust.

Kyrgios, sem er í 672. sæti heimslista karla, vann leikinn sem fór fram á breyttum velli í Dubai þann 28. desember.

„Barátta kynjanna“ fór þar með fram í fjórða sinn en upphaflegi leikurinn fór fram árið 1973, þegar Billie Jean King mætti hinum 55 ára gamla Bobby Riggs, fyrrverandi sigurvegara á risamótum. Riggs hafði sagt að kvenna tennis væri langt frá því að vera eins góður og karla tennis en tapaði svo fyrir King fyrir framan 90 milljónir sjónvarpsáhorfenda.

Sigurinn var stór áfangi fyrir kvenna tennis og sama ár stofnaði Billie Jean King alþjóða tennissamband kvenna (WTA).

Iga Swiatek, ríkjandi Wimbledon meistari og næstefsta kona heimslistans, segir þennan leik algjörlega óþarfan í nútímanum og telur kvenna tennis mun lengra kominn í dag en þá.

„Ég hef ekki horft á leikinn því ég horfi ekki á svona. Ég held að þetta hafi sannarlega fangað athygli margra, þetta var skemmtun, en ég myndi ekki segja að þetta hafi haft eitthvað að gera með jafnrétti eða einhver mikilvæg málefni.“

„Nafnið var það eina sem var eins og í Billie Jean King leiknum árið 1973. Það eina. Annars var ekkert líkt með þessu því kvenna tennis stendur á eigin fótum í dag. Við erum með frábært íþróttafólk og góðar sögur að segja, við þurfum ekki að bera okkur saman við karlana. Í alvöru, við þurfum ekki að vera í svona samkeppni“ sagði Swiatek.

Hún er mun hrifnari af mótum eins og United Cup, þar sem karlar og konur keppa saman í liði gegn öðru pari í tvíliðaleik.

„Þetta er það sem gerir íþróttina áhugaverðari og betri“ sagði Swiatek um United Cup mótið sem hefst á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×