Sport

Nú hefst að­ventan: HM í pílu af stað í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Littler varð heimsmeistari í janúar eftir sigur á Michael van Gerwen í úrslitum.
Littler varð heimsmeistari í janúar eftir sigur á Michael van Gerwen í úrslitum. Ben STANSALL / AFP

Biðinni löngu eftir heimsmeistaramótinu í pílukasti lýkur í kvöld. Heimsmeistarinn Luke Littler mætir til leiks á fyrsta degi.

HM í pílukasti hefur síðustu ár orðið sífellt stærri hluti aðventunnar hjá Íslendingum. Hægt er að fylgjast með mótinu daglega, bæði á daginn og á kvöldin, fram að jólum.

Mótið hefst fyrr en undanfarin ár þar sem keppendum hefur verið fjölgað um 32, úr 96 í 128. Luke Littler fagnaði sigri í fyrra eftir 7-3 sigur á Michael van Gerwen í úrslitum.

Littler er fæddur árið 2007 og verður 19 ára í janúar næstkomandi. Hann vann sinn fyrsta titil eftir að hafa tapað fyrir nafna sínum Luke Humphries í úrslitum árið áður.

Páll Sævar Guðjónsson er meðal þeirra sem mun lýsa pílunni í desember en hann ræddi komandi mót í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hann þykir líklegastur til afreka á mótinu en fjölmargir aðrir öflugir keppendur eru skráðir til leiks að venju. Til að mynda áðurnefndir Humphries og van Gerwen, auk Stephen Bunting, Jonny Clayton, Gerwyn Price, Gary Anderson og fleiri til.

Fyrsta viðureign kvöldsins er milli Belgans Kim Huybrechts og Þjóðverjans Arno Merk. Í kjölfarið mætir Bully Boy, Michael Smith, Lisu Ashton í Englendingaslag.

Littler er þriðji á svið er hann mætir Litáanum Darius Labanauskas og síðasta viðureign kvöldsins er milli Madars Razma og Jamai van den Herik.

Keppni hefst klukkan 20:00 í kvöld á Sýn Sport Viaplay en kvöldkeppnin verður eftir það klukkan 19:00. Þá er einnig keppt yfir daginn og verður keppni á dagskrá klukkan 12:30.

Pílan verður því á dagskrá klukkan 12:30 og 19:00 alla daga fram að jólum á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×