Fótbolti

Fær­eyingar taka upp VAR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þeim þjóðum sem taka upp VAR fjölgar stöðugt.
Þeim þjóðum sem taka upp VAR fjölgar stöðugt. getty/Etsuo Hara

Á næsta tímabili bætast Færeyjar í hóp þeirra landa sem notast við myndbandsdómgæslu (VAR) í fótboltadeildum sínum.

Í samtali við bolt.fo sagði Lassin Isaksen, yfirmaður dómaramála í Færeyjum, að stefnt sé á að taka VAR í gagnið á næsta tímabili, helst sem fyrst.

Til að byrja með verður einn leikur í hverri umferð í færeysku úrvalsdeildinni með VAR. Öll lið í deildinni eiga að fá jafn marga leiki með VAR en niðurröðun þeirra verður ákveðin löngu fyrir fram.

Færeyingar hafa útbúið sérstakan VAR-bíl með öllum nauðsynlegum tækjabúnaði. Að sögn Isaksen verða 3-4 aðilar í VAR-bílnum til að byrja með; einn VAR-dómari, einn aðstoðar VAR-dómari, einn tæknimaður og mögulega einn eftirlitsmaður.

Nokkrir færeyskir dómarar hafa lokið við VAR-þjálfun og fleiri stefna á ljúka henni á næstunni. Vonast er til að Færeyingar eigi 8-10 VAR-dómara þegar næsta tímabil hefst.

Samkvæmt Isaksen verða sex myndavélar á leikjum með VAR. Tvær verða mannaðar og staðsettar við miðju vallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×