Enski boltinn

Sheffield Wednesday fær aftur refsingu og er nú með mínus tíu stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Útlitið er nú enn svartara fyrir leikmenn Sheffield Wednesday.
Útlitið er nú enn svartara fyrir leikmenn Sheffield Wednesday. Getty/George Wood

Sheffield Wednesday missir fleiri stig vegna slæms reksturs enska fótboltafélagsins á síðustu misserum.

Félagið er nú í neðsta sæti ensku B-deildarinnar og staðan verður miklu verri nú þegar liðið missir sex stig til viðbótar. BBC segir frá.

Í október var þessu sögufræga félagi refsað með tólf stiga frádrætti í ensku B-deildinni. Þá var það vegna þess að félagið hafði sótt um greiðslustöðvun.

Nú fær Sheffield Wednesday aftur refsingu. Í þetta sinn fyrir að hafa ekki greitt leikmönnum sínum laun á réttum tíma í þrjá mánuði í röð. Félagið hefur einnig vanrækt greiðslur til starfsmanna og hefur ekki greitt alla skatta sína.

Það var fyrrverandi eigandi félagsins, Deijphon Chansiri, sem setti það í greiðslustöðvun og samkvæmt Sky er honum bannað að gerast eigandi eða stjórnarformaður í nokkru félagi í deildinni næstu þrjú árin.

Eftir allan þennan stigafrádrátt er Sheffield Wednesday í neðsta sæti ensku B-deildarinnar með mínus tíu stig.

Rotherham United á hið óeftirsóknarverða met yfir fæstu stig í sögu Championship-deildarinnar. Tímabilið 2016/17 endaði félagið aðeins með 23 stig.

Þegar 28 leikir eru eftir þarf Sheffield Wednesday að safna 33 stigum, rúmlega einu stigi á leik, til að verða ekki nýr methafi. Það þarf síðan enn meira til að halda sæti sínu í deildinni.

Á tímabilinu hefur félagið unnið einn leik, gert fimm jafntefli og tapað tólf.

Á laugardaginn mætir Sheffield Wednesday Blackburn Rovers á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×