Sport

„Stór nöfn“ sáu Kol­bein rif­beins­brjóta Martinez

Sindri Sverrisson skrifar
Kolbeinn Kristinsson fór illa með Martinez í Finnlandi um helgina.
Kolbeinn Kristinsson fór illa með Martinez í Finnlandi um helgina. Samsett mynd

Ísbjörninn Kolbeinn Kristinsson fór illa með andstæðing sinn í boxhringnum um helgina og er enn ósigraður á sínum atvinnumannaferli, eftir nítján bardaga. Nú gætu stórar dyr verið að opnast.

Kolbeinn lét þung högg dynja á Venezúelabúanum Pedro Martinez þegar þeir mættust í Finnlandi um helgina – svo þung að Martinez hreinlega rifbeinsbrotnaði í annarri lotu og varð á endanum að gefast upp.

Kolbeinn fór yfir bardagann í viðtali við Fimmtu lotuna strax eftir keppni og viðurkenndi að það hefði verið ansi gaman að ná tæknilegu rothöggi eftir að síðustu mótherjar hans hefðu „gefist upp á stólnum“.

„Ég var að vonast til þess að hann myndi ekki sleppa í hornið til að gefast upp. Það tókst,“ sagði Kolbeinn.

Hann segir ljóst að árangur sinn hafi vakið athygli og að nú gæti hann verið á leiðinni á stærri vettvang til að fá að láta ljós sitt skína.

„Það eru stór nöfn úti í heimi sem voru að fylgjast með. Ég fékk að vita nákvæmlega hvaða nöfn, sem eru alveg risastór, svo það er áhugi úti í heimi. En það er ekkert planað. Við sjáum bara til hvað gerist,“ sagði Kolbeinn.

Áhuginn í þetta sinn sé öðruvísi og keppnishaldarar sérstaklega að skoða Kolbein með það í huga að hann fái flottan bardaga á árinu 2026:

„Ég held að það verði risaár,“ sagði Kolbeinn.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×