Fótbolti

Gömul hetja Argentínu ekki sam­mála að Messi-liðið sé besta lands­lið sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og félagar í Argentínu eru ríkjandi heimsmeistarar eftir sigur á 32 liða HM í Katar 2022.
Lionel Messi og félagar í Argentínu eru ríkjandi heimsmeistarar eftir sigur á 32 liða HM í Katar 2022. Getty/David Ramos

Argentínska landsliðið hefur verið á mikilli sigurgöngu síðustu ár en fær kannski of mikið lof að mati manns sem þekkir það að vera hetja argentínsku þjóðarinnar.

Þær gerast ekki stærri knattspyrnuhetjurnar en Mario Kempes var í lok áttunda áratugarins.

Kempes var nefnilega í aðalhlutverki og markakóngur heimsmeistarakeppninnar þegar Argentína varð heimsmeistari í fyrsta sinn árið 1978. Hann skoraði tvö af sex mörkum sínum í keppninni í úrslitaleiknum á móti Hollandi.

Það virðist núna eitthvað pirra kappann hversu mikið er látið með heimsmeistaralið Argentínu frá því á síðasta HM í Katar 2022. Þar vann Lionel Messi langþráðan heimsmeistaratitil og argentínska þjóðin fór algjörlega á hliðina.

„Það var Brasilía árið 1970, Holland, sem vann ekki neitt, en var eitt af bestu liðunum. Fótbolti byrjaði ekki þremur mánuðum fyrir HM í Katar. Hann hefur verið til í langan tíma og fólk þarf að virða söguna,“ sagði Mario Kempes.

„Þetta argentínska landslið hefur aðeins unnið einn heimsmeistaratitil, ekki tvo. Liðið okkar frá 1978 vann einn og liðið okkar frá 1986 vann einn. Ef þeir vinna næsta heimsmeistaramót, þá get ég sagt að þeir hafi alveg rétt fyrir sér. En þú verður að vinna tvo heimsmeistaratitla áður en þú ert talinn besta landsliðið,“ sagði Kempes.

„Copa América? Já, það er frábært að vera meistarar, en Argentína tapaði tveimur úrslitaleikjum gegn Síle og heimurinn endaði ekki. Bara af því að Argentína vann tvo Copa América-titla í röð gerir þá ekki sjálfkrafa að þeim bestu af þeim bestu. Ef þeir vinna annan heimsmeistaratitil, þá tek ég ofan fyrir þeim,“ sagði Kempes.

„Saga argentínsks fótbolta var skrifuð af okkur öllum, ekki bara þeim sem eru í síðasta kaflanum,“ sagði Kempes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×