Sport

„Ég er bestur í heimi og ég get loksins sagt það“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Littler er í flottu formi nú þegar styttist í heimsmeistaramótið.
Luke Littler er í flottu formi nú þegar styttist í heimsmeistaramótið. Getty/Cameron Smith

Luke Littler komst í efsta sæti heimslistans í pílukasti um helgina og fagnaði því með því að vinna Luke Humphries, manninn sem hann fór fram úr, í úrslitaleik Grand Slam of Darts.

Littler var öruggur með efsta sæti heimslistans í pílu eftir að hann vann Hollendinginn Danny Noppert í undanúrslitum mótsins.

Hann vann Humphries síðan 16-11 í úrslitaleiknum.

Hinn átján ára gamli Littler er yngsti leikmaðurinn til að ná efsta sæti heimslistans hjá PDC og fer þar með fram úr Michael van Gerwen, sem náði þeim áfanga 24 ára gamall árið 2014.

Hungaður í að halda sér þar

„Ég er bestur í heimi og ég get loksins sagt það,“ sagði Luke Littler eftir úrslitaleikinn.

„Efsta sæti heimslistans, þú ert bestur í heimi. Að toppa það með því að vinna hér tvö ár í röð gerir þetta enn sérstakara,“ sagði Littler.

„Nú þegar ég er í efsta sæti er ég hungraður í að halda mér þar. Ég vil vera þar næstu árin. Luke [Humphries] og allir hinir leikmennirnir munu hafa mig í sigtinu. Þetta hefur gert mig enn hungraðri,“ sagði Littler.

Yfir þrjú hundruð milljónir 

Tekjur Littlers á tveggja ára tímabilinu sem ræður stigalistanum (Order of Merit) námu 1.770.500 pundum eftir að hann komst í úrslitaleikinn, en sigurinn færði upphæðina í 1.850.000 pund. Það gera tæpar 310 milljónir íslenskra króna.

Heimslistinn ræðst af upphæð verðlaunafjár sem leikmaður hefur unnið á stigamótum yfir tveggja ára tímabil.

Mikið afrek fyrirLuke Littler

„Að ná efsta sæti heimslistans er mikið afrek fyrir Luke Littler og að gera það á innan við tveimur árum er ótrúlegt,“ sagði Mark Webster, fyrrverandi heimsmeistari BDO, við Sky Sports.

„Hann veit hvernig á að klára dæmið. Hann á ekki slæm tímabil – hann tapar vissulega á sumum mótum og það mun halda áfram að gerast – en hann er bara stórkostlegur hæfileikamaður,“ sagði Webster.

Fram undan er síðan heimsmeistaramótið í pílukasti í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×