Upp­gjörið: KR - Stjarnan 102-98 | Meistararnir töpuðu í Vestur­bænum

Kári Mímisson skrifar
Linards var óstöðvandi í kvöld.
Linards var óstöðvandi í kvöld. Vísir/Diego

Íslandsmeistarar Stjörnunnar hófu titilvörnina sína í Vesturbænum þegar liðið heimsótti KR í fyrstu umferð Bónus-deildar karla nú í kvöld. 

Fyrir mótið var þessum liðum spáð sitthvoru meginn í deildinni. Íslandsmeistarar Stjörnunnar eru áfram með vel skipað lið á meðan reikna má með að KR verið í neðri baráttunni. Spáin segir hins vegar ekki allt en það var KR sem sigraði Íslandsmeistara Stjörnunnar eftir framlengdan leik. Lokatölur 102-98 fyrir KR.

Guðrún Kristmundsdóttir gerði meira en flestir fyrir KR. Það var mínúut þögn fyrir leikinn vegna andláts hennar. Vísir/Diego

Leikurinn fór vel af stað og KR náði takinu á honum snemma. Liðið komst 10-6 yfir og tókst með glæsilegri spilamennsku að halda þeirri forystu ágætlega út leikhlutann sem endaði 27-21.

Íslandsmeistararnir komu sterkt til leiks í upphafi annars leikhluta og náðu að skora fyrstu 10 stigin. Með því tóku þeir forystuna í leiknum, 27-31. Heimamenn létu þetta þó ekki á sig fá og svöruðu með góðum 12-1 kafla og komu stöðunni í 39-32. Baldur, þjálfari Stjörnunnar tók þá eitt af sínum frægu leikhléum og tókst greinilega að blása lífi í sitt lið því Stjarnan endað þennan annan leikhluta á því að skora 18 stig gegn aðeins tveimur stigum KR og leiddi því 41-50 þegar liðin héldu til búningsherbergja.

Úr leiknum.Vísir/Diego

Stjarnan hélt uppteknum hætti í upphafi seinni hálfleiks og fór langleiðina með að gera út um leikinn snemma í þriðja leikhluta eða það var það sem ansi margir áhorfendur héldu í það minnsta. Forskot Stjörnunnar var mest 16 stig en hægt og býtandi tókst KR að koma sér aftur inn í leikinn og staðan fyrir loka leikhlutann 64-73.

Fjórði leikhlutinn var æsispennandi en Þórir Þorbjarnarson byrjaði á því að setja niður glæsilega þrist og koma þessu niður í sex stig strax í upphafi fjórða leikhluta. Þegar tæplega þrjár mínútur voru eftir af leiknum kom Veigar Áki heimamönnum yfir í fyrsta sinn í seinni hálfleiknum eftir frábæra sendingu frá Þóri. KR-ingum tókst svo að komast fjórum stigum yfir þegar skammt var til leiks loka en ólseigir Stjörnumenn skoruðu sex stig í röð á lokakafli venjulegs leiktíma og spennan því ótrúleg. KR tókst að jafna leikinn en Stjarnan fékk þó eitt tækifæri undir lokinn en þriggja stiga skot Orra Gunnarssonar gekk ekki og því þurfti að grípa til framlengingar.

Úr leik kvöldsins.Vísir/Diego

Stjarnan skoraði fyrstu tvær körfur framlengingarinnar en KR tókst að komast yfir skömmu seinna og gáfu þá forystu aldrei frá sér og svo fór að lokum að KR sigraði Íslandsmeistara Stjörnunnar 102-98 í fyrsta umferð Bónus-deildar karla í körfubolta.

Atvik leiksins

Það eru mörg atvik í þessum leik sem hægt er að taka fyrir en það verður auðvitað að vera þessi lokamínúta í fjórða leikhluta. Aleksa Jugovic jafnaði fyrst glæsilega fyrir KR sem virtust vera að kasta þessu frá sér. Stjarnan fékk svo tækifæri til að sigra þetta með flautukörfu en Orri var vissulega í erfiðu skoti sem gekk ekki.

Stjörnur og skúrkar

Orri Gunnarsson og Giannis Agravanis báru af í liði Stjörnunnar. Dampurinn dettur úr þessu þegar Giannis þarf að fara meiddur af velli hjá Stjörnunni. Í raun má svo hrósa ansi mörgum hjá Stjörnunni enda átti liðið alveg skilið að vinna þennan leik og margir sem stigu upp. Hjá KR Linards Jaunzems stórkostlegur og þá steig hann sérstaklega upp hér í framlengingunni. Herra KR, Þórir Þorbjarnarson stendur svo alltaf fyrir sínu fyrir utan að hafa náð sér í fimm villur hér í kvöld.

Þórir Guðmundur á fleygiferð.Vísir/Diego

Dómararnir

Það var nóg af stórum ákvörðunum hjá þeim félögum í kvöld sem ég held að hafi verið flestar réttar. Veigar fær tæknivillu á mjög mikilvægum tímapunkti í leiknum sem vissulega margir voru ósáttir með en heilt yfir var þetta fín frammistaða hjá þeim félögum ég ætla ekki að fara í neitt dómaratuð.

Þessir þrír dæmdu leikinn.Vísir/Diego

Stemmning og umgjörð

Alltaf gaman að koma í Vesturbæinn þó svo að það sé vissulega dekkra yfir honum þessa dagana heldur en fyrir örfáum árum. Umgjörðin var flott og hrikalega vel mætt á pallanna í kvöld. Ég er ekki viss um að KR hefði sigrað þennan leik nema fyrir öskrin í stúkunni.

Það var vel mætt.Vísir/Diego

Þetta er fyrst og síðast gleði, léttir og ánægja

Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, var að vonum ánægður með sigur liðsins gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar nú í kvöld.

Jakob ræðir við sína menn.Vísir/Diego

„Þetta er fyrst og síðast gleði, léttir og ánægja að ná að vinna þennan leik eftir að hafa komið til baka í seinni hálfleik. Við vorum mjög hikandi sóknarlega og mjög opnir varnarlega gegn þeim. Þeir fengu fullt af auðveldum skotum, þannig að tilfinningin þarna um miðjan þriðja leikhluta var klárlega ekki góð. Það vantaði marga menn hjá Stjörnunni í dag en þessi leikur sýnir hversu gott lið þetta er og hvað þeir eru með marga sem geta stigið inn þegar jafn marga vantar og í dag. Þeir spiluðu rosalega vel saman og voru erfiðir við að eiga.“

Stuðningsfólk KR fjölmennti heldur betur í Frostaskjólið í kvöld til að sjá liðið leika fyrsta leik tímabilsins. Hversu miklu skiptir það ykkur að ná að vinna Íslandsmeistarana hér fyrir fram fullt af fólki í dag?

„Það skiptir okkur rosalega miklu að ná að vinna og ná að vinna jafnan leik. Við áttum í smá erfiðleikum með það í fyrra en við töpuðum of mörgum jöfnum leikjum í fyrra sem gerði það að verkum að við misstum af úrslitakeppninni. Þetta er svona leikur sem getur talið mikið í lokin.“


Tengdar fréttir

„Þá er erfitt að spila hér“

Þórir Þorbjarnarson, fyrirliði KR, var sáttur með dramatískan sigur liðsins í kvöld gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar. KR-ingar voru í veseni langt inn í seinni hálfleikinn en unnu sig til baka í leikinn og tókst að sigra Stjörnuna 102-98 eftir framlengdan leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira