Uppgjörið: Breiðablik - Stjarnan 1-2 | Stjarnan vann sanngjarnt og titillinn bíður betri tíma Ágúst Orri Arnarson skrifar 25. september 2025 17:15 Birna Jóhannsdóttir skoraði sigurmarkið. vísir / pawel Breiðablik tapaði 2-1 fyrir Stjörnunni í 19. umferð Bestu deildar kvenna þrátt fyrir að hafa komist yfir. Stjarnan tók algjörlega yfir í seinni hálfleik og átti sigurinn skilið. Íslandsmeistaratitill Breiðabliks verður því að bíða. Eftir aðeins sjö mínútna leik var það staðfest að leikur FH og Vals hefði endað með jafntefli og að Breiðablik yrði Íslandsmeistari með sigri. Blikarnir tóku svo forystuna eftir 25 mínútna leik. Andrea Rut Bjarnadóttir gerði vel í aðdragandanum og stakk boltanum inn fyrir á Samönthu Smith sem kláraði færið frábærlega með hægri fæti í nærhornið. Samantha Smith skoraði mark Breiðabliks, sitt ellefta í sumar. vísir / pawel Stjarnan mætti nokkuð sókndjörf til leiks og skapaði sér nokkrar ágætis stöður en fór illa með marktækifærin. Anna María Baldursdóttir fékk besta færi gestanna í fyrri hálfleik þegar boltinn datt fyrir hana í vítateignum eftir hornspyrnu, en hún skóflaði skotinu rétt framhjá. Breiðablik varð svo fyrir áfalli rétt fyrir hálfleik og missti miðvörðinn Elínu Helenu Karlsdóttur af velli vegna meiðsla. Hvort meiðsli hennar eða eitthvað annað hafði svona mikil áhrif á Breiðablik er óvíst, en víst er liðið mætti afskaplega illa til leiks í seinni hálfleik. Elín Helena var flutt burt með sjúkrabíl. vísir / pawel Stjarnan mætti hins vegar af miklum krafti og jafnaði þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir negldi boltanum í þaknetið, eftir góðan sprett og stoðsendingu frá Snædísi Maríu Jörundsdóttur. Stjarnan hélt áfram að ógna og Úlfa átti eftir að láta að sér kveða aftur þegar hún lagði sigurmark leiksins upp fyrir Birnu Jóhannsdóttur. Stjarnan vann boltann þá á vallarhelmingi Breiðabliks, Úlfa sneri og stakk honum inn fyrir með mjúkri hreyfingu og Birna kláraði færið vel ein gegn markmanni. Birna Jóhannsdóttir skoraði annað mark Stjörnunnar. vísir / pawel Breiðablik tókst ekki að setja jöfnunarmark, enda var liðið mjög ólíkt sjálfu sér í seinni hálfleik og óöruggt á síðasta þriðjungi. Undir lokin lagði Breiðablik mikið í sóknarleikinn en uppskar lítið annað en hornspyrnur og hálffæri. Íslandsmeistaratitillinn verður því að bíða betri tíma. Agla María var orðin þreytt á því að taka endalausar hornspyrnur. vísir / pawel Elín Helena handleggsbrotnaði Fyrri hálfleikurinn endaði með mjög ljótum hætti. Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir tapaði boltanum og tæklaði Elínu Helenu Karlsdóttur til að hefna sín, með þeim afleiðingum að Elín var sótt af sjúkrabíl eftir að hafa legið sárþjáð í dágóða stund. Hún handleggsbrotnaði við fallið, enda var hún alls ekki að búast við tæklingu á þessum tímapunkti. Ingibjörg var ekki nálægt því að komast í boltann, sem virtist meira að segja vera farinn út af. Skömmustulegt fyrir Ingibjörgu og skelfilegt fyrir Elínu. Stjörnur og skúrkar Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir vafalaust maður leiksins, með mark og stoðsendingu. Heilt yfir frábær frammistaða hjá henni í kvöld. Snædís María Jörunsdóttir stórskemmtileg líka á vinstri vængnum. Lagði fyrra markið upp og sýndi flotta takta. Skúrkur kvöldsins er klárlega Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir, fyrir gjörsamlega glórulausa tæklingu á Elínu Helenu Karlsdóttir. Stemning og umgjörð Mætingin var með minna móti og stemningin sömuleiðis, sérstaklega í seinni hálfleik þegar Íslandsmeistaratitillinn rann úr greipum Breiðabliks.vísir / pawel „Við hefðum ekki orðið glöð að sjá þær taka á móti titlinum“ Jóhannes Karl Sigursteinsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins.vísir / pawel „Frammistaðan var mjög góð og við þorðum að halda í boltann. Blikarnir féllu aðeins frá okkur og gáfu okkur tíma á boltanum. Við erum með gott fótboltalið og þegar leikmenn eru þetta hreyfanlegir og hugrakkir að láta boltann ganga, þá er erfitt að stoppa okkur. Mér fannst spilamennskan virkilega góð“ sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leik. Hann segir Stjörnuliðið líka ánægt með að hafa orðið hraðahindrun í vegi Breiðabliks að Íslandsmeistaratitlinum. „Klárlega. Við hefðum ekki orðið glöð að sjá þær taka á móti titlinum eftir leik við okkur. En fyrst og fremst er þetta bara fótboltaleikur og við fáum gleði úr því að hafa sýnt glimrandi spilamennsku og fagnað sigri.“ Stjarnan hefur að litlu að spila í efri hlutanum og á ekki möguleika á öðru sætinu, Evrópusætinu, en hefur sett sér skýr markmið. „Að komast eins hátt upp töfluna og hægt er. Við erum að lyfta okkur upp úr 6. í 5. sæti í dag og jafna Val að stigum í 4. sæti. Næsta skref er bara að koma sér upp í þetta 4. sæti og við horfum bara í næsta leik, viljum sækja þrjú stig þar og tryggja okkur ofar.“ Besta deild kvenna Breiðablik Stjarnan
Breiðablik tapaði 2-1 fyrir Stjörnunni í 19. umferð Bestu deildar kvenna þrátt fyrir að hafa komist yfir. Stjarnan tók algjörlega yfir í seinni hálfleik og átti sigurinn skilið. Íslandsmeistaratitill Breiðabliks verður því að bíða. Eftir aðeins sjö mínútna leik var það staðfest að leikur FH og Vals hefði endað með jafntefli og að Breiðablik yrði Íslandsmeistari með sigri. Blikarnir tóku svo forystuna eftir 25 mínútna leik. Andrea Rut Bjarnadóttir gerði vel í aðdragandanum og stakk boltanum inn fyrir á Samönthu Smith sem kláraði færið frábærlega með hægri fæti í nærhornið. Samantha Smith skoraði mark Breiðabliks, sitt ellefta í sumar. vísir / pawel Stjarnan mætti nokkuð sókndjörf til leiks og skapaði sér nokkrar ágætis stöður en fór illa með marktækifærin. Anna María Baldursdóttir fékk besta færi gestanna í fyrri hálfleik þegar boltinn datt fyrir hana í vítateignum eftir hornspyrnu, en hún skóflaði skotinu rétt framhjá. Breiðablik varð svo fyrir áfalli rétt fyrir hálfleik og missti miðvörðinn Elínu Helenu Karlsdóttur af velli vegna meiðsla. Hvort meiðsli hennar eða eitthvað annað hafði svona mikil áhrif á Breiðablik er óvíst, en víst er liðið mætti afskaplega illa til leiks í seinni hálfleik. Elín Helena var flutt burt með sjúkrabíl. vísir / pawel Stjarnan mætti hins vegar af miklum krafti og jafnaði þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir negldi boltanum í þaknetið, eftir góðan sprett og stoðsendingu frá Snædísi Maríu Jörundsdóttur. Stjarnan hélt áfram að ógna og Úlfa átti eftir að láta að sér kveða aftur þegar hún lagði sigurmark leiksins upp fyrir Birnu Jóhannsdóttur. Stjarnan vann boltann þá á vallarhelmingi Breiðabliks, Úlfa sneri og stakk honum inn fyrir með mjúkri hreyfingu og Birna kláraði færið vel ein gegn markmanni. Birna Jóhannsdóttir skoraði annað mark Stjörnunnar. vísir / pawel Breiðablik tókst ekki að setja jöfnunarmark, enda var liðið mjög ólíkt sjálfu sér í seinni hálfleik og óöruggt á síðasta þriðjungi. Undir lokin lagði Breiðablik mikið í sóknarleikinn en uppskar lítið annað en hornspyrnur og hálffæri. Íslandsmeistaratitillinn verður því að bíða betri tíma. Agla María var orðin þreytt á því að taka endalausar hornspyrnur. vísir / pawel Elín Helena handleggsbrotnaði Fyrri hálfleikurinn endaði með mjög ljótum hætti. Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir tapaði boltanum og tæklaði Elínu Helenu Karlsdóttur til að hefna sín, með þeim afleiðingum að Elín var sótt af sjúkrabíl eftir að hafa legið sárþjáð í dágóða stund. Hún handleggsbrotnaði við fallið, enda var hún alls ekki að búast við tæklingu á þessum tímapunkti. Ingibjörg var ekki nálægt því að komast í boltann, sem virtist meira að segja vera farinn út af. Skömmustulegt fyrir Ingibjörgu og skelfilegt fyrir Elínu. Stjörnur og skúrkar Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir vafalaust maður leiksins, með mark og stoðsendingu. Heilt yfir frábær frammistaða hjá henni í kvöld. Snædís María Jörunsdóttir stórskemmtileg líka á vinstri vængnum. Lagði fyrra markið upp og sýndi flotta takta. Skúrkur kvöldsins er klárlega Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir, fyrir gjörsamlega glórulausa tæklingu á Elínu Helenu Karlsdóttir. Stemning og umgjörð Mætingin var með minna móti og stemningin sömuleiðis, sérstaklega í seinni hálfleik þegar Íslandsmeistaratitillinn rann úr greipum Breiðabliks.vísir / pawel „Við hefðum ekki orðið glöð að sjá þær taka á móti titlinum“ Jóhannes Karl Sigursteinsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins.vísir / pawel „Frammistaðan var mjög góð og við þorðum að halda í boltann. Blikarnir féllu aðeins frá okkur og gáfu okkur tíma á boltanum. Við erum með gott fótboltalið og þegar leikmenn eru þetta hreyfanlegir og hugrakkir að láta boltann ganga, þá er erfitt að stoppa okkur. Mér fannst spilamennskan virkilega góð“ sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Stjörnunnar eftir leik. Hann segir Stjörnuliðið líka ánægt með að hafa orðið hraðahindrun í vegi Breiðabliks að Íslandsmeistaratitlinum. „Klárlega. Við hefðum ekki orðið glöð að sjá þær taka á móti titlinum eftir leik við okkur. En fyrst og fremst er þetta bara fótboltaleikur og við fáum gleði úr því að hafa sýnt glimrandi spilamennsku og fagnað sigri.“ Stjarnan hefur að litlu að spila í efri hlutanum og á ekki möguleika á öðru sætinu, Evrópusætinu, en hefur sett sér skýr markmið. „Að komast eins hátt upp töfluna og hægt er. Við erum að lyfta okkur upp úr 6. í 5. sæti í dag og jafna Val að stigum í 4. sæti. Næsta skref er bara að koma sér upp í þetta 4. sæti og við horfum bara í næsta leik, viljum sækja þrjú stig þar og tryggja okkur ofar.“
Uppgjörið: Breiðablik - Stjarnan 2-1 | Stjarnan vann sanngjarnt og titillinn bíður betri tíma Íslenski boltinn
Uppgjörið: Breiðablik - Stjarnan 2-1 | Stjarnan vann sanngjarnt og titillinn bíður betri tíma Íslenski boltinn