Sport

Hefur orðið heims­meistari jafn oft og Usain Bolt

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Noah Lyles hefur unnið fjögur HM í röð, frá 2019-25, líkt og Usain Bolt gerði frá 2009-15.
Noah Lyles hefur unnið fjögur HM í röð, frá 2019-25, líkt og Usain Bolt gerði frá 2009-15. Hannah Peters/Getty Images

Noah Lyles varð í dag heimsmeistari í 200 metra hlaupi í fjórða sinn í röð, sem aðeins Usain Bolt hefur tekist áður.

Lyles hljóp á 19,52 sekúndum á HM í Tókýó í dag. Samlandi hans frá Bandaríkjunum, Kenny Bednarek varð annar og ungstirnið frá Jamaíku, Bryan Levell, varð þriðji og þar með sá fyrsti síðan Usain Bolt árið 2015 til að vinna verðlaun í greininni fyrir Jamaíku.

Það ár varð Bolt heimsmeistari fjórða skiptið í röð, líkt og Lyles í dag. Bandaríkjamaðurinn hefur líka sópað til sín fleiri titlum, eftir að hafa glímt við meiðsli í upphafi tímabils, og er meðal annars ríkjandi meistari Demantadeildarinnar.

Lyles hefur þó aldrei unnið langeftirsóttustu verðlaun 200 metra hlaupsins, Ólympíugullið, þrátt fyrir að hafa unnið öll fjögur heimsmeistaramótin síðan 2019. Hann fékk brons á ÓL í Tókýó 2021 og silfur í París í fyrra.

Sigurinn í dag ætti þó að gefa honum sjálfstraust, nú þegar undirbúningur fyrir leikana í Los Angeles 2028 er hafinn. Spennandi verður að fylgjast með hvernig Lyles vegnar en hann varð 28 ára í sumar og iðulega hægist mikið á spretthlaupurum um eða eftir þrítugt.

„Ég get ekki beðið eftir HM 2027 til að verða fyrsti maðurinn til að vinna fimm titla í röð“ sagði Lyles eftir sigurinn í dag. 

Hann er þó, og verður líklega enn þegar að því kemur, töluvert hægari en Bolt var uppi á sitt besta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×