Upp­gjörið: Breiða­blik - Þór/KA 9-2 | Berg­lind Björg ó­stöðvandi í stór­sigri Blika

Hjörvar Ólafsson skrifar
_DSF4170
vísir/Anton

Breiðablik og þá einkum og sér í lagi Bergldind Björg Þorvaldsdóttir lék á als oddi þegar liðið fékk Þór/KA í heimsókn á Kópavogsvöll í 18. umferð Bestu-deildar kvenna í dag. Berglind Björg skoraði fimm mörk í 8-2 sigri Blika en hún er þar af leiðandi orðin markahæsti leikmaður í sögu Breiðabliks. 

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom Breiðabliki yfir eftir tæplega stundarfjórðungs leik. Agla María Albertsdóttir skallaði þá boltann út í teiginn og Berglind Björg skoraði með föstu skoti.

Berglind Björg var svo aftur á ferðinni tíu mínútum síðar og líkt og í fyrra markinu var það Agla María sem lagði upp markið. Agla María setti Berglindi Björgu í gegn og framherjinn kláraði færið af stakri prýði.

Með þessum tveimur mörkum jafnaði Berglind Björg goðsögnina Ástu B. Gunnlaugsdóttur á toppi listans yfir markahæstu leikmenn í sögu Breiðabliks. Ásta skoraði á sínum tíma 195 mörk í 189 leikjum fyrir Blika.

Henríetta Ágústsdóttir minnkaði síðan muninn skömmu síðar fyrir Þór/KA með glæsilegu marki. Henríetta lét vaða nokkuð fyrir utan vítateig Blika og boltinn fór í þverslána og inn.

Leikmenn Blika voru hins vegar ekki lengi að auka forystu sína en miðverðirnir unnu saman í þriðja marki Breiðabliks. Elín Helena Karlsdóttir sendi þá boltann beint á ennið á kollega sínum Helgu Rut Einarsdóttur sem skallaði boltann í netið.

Leikmenn Blika gengu svo frá leiknum í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Enn og aftur bar samvinna Berglindar Bjargar og Öglu Maríu árangur og Berglind Björg bætti við sínu þriðja marki og fjórða marki heimakvenna.

Agla María Albersdóttir lagði upp þrjú mörk og skoraði eitt í þessum leik. Vísir/Óskar Ófeigur

Agla María var sjálf á ferðinni mínútu síðar en Birta Georgsdóttir komst upp að endamörkum og sendi boltann á Öglu Maríu sem kláraði færið með fínu skoti.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks átti Karítas Tómasdóttir hnitmiðaða fyrirgjöf sem Berglind Björg þefaði upp og skallaði í markið.

Berglind Björg var ekki hætt en hún bætti fimmta marki sínu við í upphafi seinni hálfleiks. Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir setti þá Berglindi Björgu í gegn og hún vippaði boltanum laglega yfir Jessicu Grace Berlin.

Henríetta lagaði stöðuna fyrir gestina að norðan eftir klukkutíma þegar hún stangaði hornspyrnu Karenar Maríu Sigurdeirsdóttur inn.

Berglind Björg er kominn með fimm marka forskot á liðsfélaga sinn, Birtu Georgsdóttur, sem markahæsti leikmaður deildarinnar og þremur mörkum meira en Ásta sem markahæsti leikmaður í sögu Blika.

Samantha Rose Smith kom inná sem varamaður um miðbik seinni hálfleiks og hún vildi fá að vera með í markaveislunni. Birta lagði þá upp sitt annað mark í leiknum en hún fann Samönthu með fyrirgjöf sinni og Samantha sá um rest.

Andrea Rut Bjarnadóttir rak síðasta naglann í líkkistu norðankvenna á lokaandartaki leiksins. Karítas átti sína aðra stoðsnendingu í leiknum og Andrea Rut setti boltann í stöngina og inn. 

Breiðablik fer inn í leikina við liðin sem eru fyrir neðan toppliðið með 49 stig  og hefur 11 stiga forystu á FH sem er í öðru sæti. Auk FH mun Breiðablik etja kappi við Þrótt, Val, Stjörnuna og Víking í keppni sex efstu liðanna.

Þór/KA er hins vegar í sjöunda sæti með 21 stig og fer í baráttu við Fram og Tindastól um að forðast fall úr deildinni. Fram hefur 21 stig eins og Þór/KA og Tindastóll er með 17 stig. FHL er svo nú þegar fallið úr efstu deild með sín fjögur stig á botni deildarinnar.

Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, var sáttur við liðið sitt. Vísir/Paweł

Nik Anthony: Ánægður með að við létum kné fylgja kviði

„Við komum af krafti inn í þennan leik eins og við ræddum um að gera fyrir leik. Það var gott flæði í sóknarleiknum og leikmenn voru skilvirkir fyrir framan markið í færunum sínum. Við sköpuðum fullt af færum og skoruðum góð mörk,“ sagði Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Breiðabliks. 

„Ég er líka ánægður með að við héldum sama orkustigi allan leikinn. Við fórum yfir það í hálfleik að það væri mikilvægt að halda áfram að spila af sömu ákefð. Ekkert endilega bæta við fleiri mörkum bara halda sama vinnuframlagi í því sem við vorum að gera. Við gerðum það sem er jákvætt,“ sagði Nik enn fremur. 

„Varamennirnir sem komu inná héldu tempóinu uppi og komu vel inn í leikinn. Samantha og Andrea Rut skoruðu og hinar lögðu allar mikið í púkkinn. Frammistaðan var bara heilt yfir mjög flott hjá liðinu,“ sagði hann sáttur. 

„Það er gaman að horfa á Berglindi Björgu spila þegar hún er í þessum ham. Við erum stolt af henni að ná þeim áfanga að verða markahæsti leimaður í sögu félagsins. Það er stórt afrek hjá þessum frábæra leikmanni og mikla markaskorara,“ sagði Nik um leikmann sinni. 

Jóhann Hreiðarsson: Fór eiginlega allt úrskiðis að þessu sinni

„Við byrjuðum þennan leik ágætlega en þegar líða tók á leikinn fór bara eiginlega allt úrskeiðis. Við slökktum á okkur í uppbótartíma fyrri hálfleiks og fáum á okkur þrjú mörk þar sem er alls ekki nógu gott,“ sagði Jóhann Hreiðarsson sem var í brúnni hjá Þór/KA í fjarveru Jóhanns Kristinns Gunnarssonar en Jóhann Kristinn tók út leikbann.

„Við erum að spila við besta lið deildarinnar og það var svo sem vitað að þetta yrði efitt en þetta var samt sem áður óþarflega stórt tap. Við misstum niður grimmdina og baráttuna í seinni hluta fyrri hálfleiks og þær gengu á lagið,“ sagði Jóhann þar að auki. 

„Mér fannst liðið stíga upp eftir að þær skoruðu í upphafi seinni hálfleiks og sýna karakter og anda lungann úr seinni hálfleiknum. Við getum tekið þann kafla með okkur í verkefnin sem eru fram undan,“ sagði hann aðspurður um hvort eitthvað megi taka jákvætt úr leiknum. 

„Nú þurfum við bara að ýta þessu tapi frá okkur og núllstilla okkur fyrir þá hörkuleiki sem eru handan við hornið. Okkar verkefni er núna að halda liðinu í efstu deild og við erum á leiðinni í þrjá úrslitaleiki. Við þurfum að búa okkur vel fyrir þá leiki og mæta í þá af fullum krafti,“ sagði Jóhann um framhaldið. 

Jóhann Hreiðarsson og Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfarar Þórs/KA.Mynd/Þór/KA

 

Atvik leiksins

Vonandi var engin farin í sjoppuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Blikar settu þrjú mörk á þremur mínútum þar. Mörk Blika í leiknum voru í öllum regnbogans litum og sóknarleikurinn leiftrandi góður einu sinni sem oftar. 

Stjörnur og skúrkar

Berglind Björg átti sviðið í þessum leik en aukaleikarar með henni voru Agla María, Birta og Hrafnhildur Ása. Karítas laumaði inn tveimur stoðsendingum og miðvarðarparið Helga Rut og Elín Helena skilaði einu marki með samvinnu sinni auk þess sem þær stýrðu varnarleiknum af myndarbrag. 

Birta Georgsdóttir var iðin við að skapa færi fyrir samherja sín. Vísir/Hulda Margrét

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, Guðni Páll Kristjánsson, Guðni Freyr Ingvason, Magnús Garðarsson og Stefán Ragnar Guðlaugsson áttu náðugan dag þar sem lítið var um atvik sem reyndu á þá. Þeir fá sjö í einkunn fyrir sín störf. 

Stemming og umgjörð

Um það bil 200 sem lögðu leið sína á Kópavogsvöll í dag og fengu töluvert fyrir peninginn. Það var létt yfir fólki í stúkunni og fínasta stemming hjá þeim sem mættu. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira