Sport

Heims­met­hafinn hélt út

Sindri Sverrisson skrifar
Beatrice Chebet fagnar sigrinum í Tókýó í dag.
Beatrice Chebet fagnar sigrinum í Tókýó í dag. Getty/Mustafa Yalcin

Heimsmethafinn Beatrice Chebet frá Kenía bætti við titlasafn sitt á fyrsta degi HM í frjálsum íþróttum þegar hún hljóp til sigurs í spennandi 10.000 metra hlaupi.

Chebet hljóp á 30:37.61 mínútum og kom í mark rétt á undan Nadia Battocletti sem hafði átt flottan endasprett og komið sér upp í 2. sæti. Battocletti endaði á að setja ítalskt met með því að hlaupa á 30:38,23 mínútum en hún hafði ekki næga orku til að ná Chebet.

„Þetta var mjög erfitt, taktískt hlaup en ég hljóp síðustu 800 metrana af miklum krafti. Hausinn minn var stilltur eins og ég væri í 1.500 metra hlaupi. Ég varð að ýta mér áfram en ég vildi svo mikið fá gullverðlaunin. Ég hafði aldrei unnið gull á HM og varð að ná því,“ sagði Chebet eftir hlaupið í Tókýó í dag.

Keppt var um þrjá heimsmeistaratitla í dag og hélt Bandaríkjamaðurinn Ryan Crouser áfram að sanka að sér verðlaunum með því að vinna kúluvarpið, þar sem hann kastaði lengst 22,34 metra. Mexíkóinn Uziel Munoz fékk silfur með 21,97 metra kasti og Leonardo Fabbri brons með því að kasta þremur sentímetrum styttra.

Bandaríkin unnu svo einnig 4x400 metra boðhlaup blandaðra sveita, á 3:08.80 mínútum en Holland fékk þar silfur og Belgía brons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×