Sport

Vann Ólympíu­silfur en ætlar núna að keppa á Stera­leikunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Englendingurinn Ben Proud ætlar að reyna fyrir sér á Steraleikunum.
Englendingurinn Ben Proud ætlar að reyna fyrir sér á Steraleikunum. epa/DAVE HUNT

Ben Proud, sem vann til silfurverðlauna í fimmtíu metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í París í fyrra, ætlar að keppa á Steraleikunum svokölluðu.

Proud er heims- og Evrópumeistari í fimmtíu metra skriðsundi og bætti Ólympíusilfri í safnið sitt á síðasta ári.

Nú ætlar hann að reyna sig á Steraleikunum þar sem íþróttafólki er heimilt að taka inn lyf sem eru á bannlista Wada, Alþjóða lyfjaeftirlitsins. 

Með þátttöku sinni á Steraleikunum fyrirgerir Proud rétti sínum til að taka þátt í alþjóðlegri keppni þar sem reglur eru um lyfjanotkun þátttakenda.

Proud segir að Steraleikarnir gefi honum tækifæri til að sjá hversu góðum árangri hann geti náð.

„Þegar ég lít raunsætt á hlutina held ég að ég hafi afrekað allt sem ég get afrekað og Steraleikarnir gefa mér ný tækifæri. Ég tel að það grafi ekki undan „hreinum“ íþróttum,“ sagði Proud.

Breska sundsambandið lýsti yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Prouds að taka þátt á Steraleikunum og fordæmdi hana.

Alþjóðlega sundsambandið varð fyrr á þessu ári fyrsta alþjóðlega íþróttasambandið sem bannar íþróttafólki sem tekur þátt á Steraleikunum að keppa á mótum á sínum vegum.

Steraleikarnir eiga að fara fram árlega en fyrstu leikarnir verða í Las Vegas í maí á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×