Sport

Maðurinn sem stal der­húfu af barni biðst af­sökunar

Sindri Sverrisson skrifar
Piotr Szczerek virtist skítsama um barnið sem beið eftir því að taka við derhúfunni frá Kamil Majchrzak á US Open.
Piotr Szczerek virtist skítsama um barnið sem beið eftir því að taka við derhúfunni frá Kamil Majchrzak á US Open. Samsett/Skjáskot

Pólski framkvæmdastjórinn Piotr Szczerek segist hafa gert „rosaleg mistök“ þegar hann stal derhúfu sem ungur strákur átti að fá að gjöf frá tennisstjörnunni Kamil Majchrzak á US Open.

Myndbandið af því þegar Szczerek grípur derhúfuna hefur farið út um allt á internetinu og honum skiljanlega verið úthúðað fyrir að láta eigin frekju og græðgi bitna á saklausu barni sem með réttu átti að fá derhúfuna.

Vonbrigði stráksins leyndu sér ekki en Szczerek virtist á myndbandinu algjörlega sama um hann og passaði að derhúfan færi í poka sem kona hans var með.

Szczerek hefur nú sent frá sér yfirlýsingu og segist þar hafa verið „sannfærður“ um að Majchrzak hefði verið að „rétta derhúfuna sína í mína átt“.

„Ég veit að það sem ég gerði leit út eins og að ég hefði meðvitað tekið safngrip frá barni. Það var ekki ætlun mín en það breytir því ekki að ég særði strákinn og olli áhorfendum vonbrigðum,“ skrifaði Szczerek.

Þessi fimmtugi framkvæmdastjóri vegavinnufyrirtækis hélt áfram og skrifaði:

„Ég vil biðja strákinn sem varð fyrir barðinu á þessu, fjölskyldu hans og alla áhorfendur og keppandann sjálfan, auðmjúklega afsökunar.“

Þá bætti hann því við að hann væri búinn að láta strákinn fá derhúfuna og að vonandi myndi það að einhverju leyti bæta upp fyrir skaðann sem hann hefði valdið.

Atvikið átti sér stað eftir sigur Majchrzak á Karen Khachanov. Tennisstjarnan sá ekki hver það var sem tók við derhúfunni frá honum en hefur nú einnig gert sitt til þess að gleðja strákinn sem varð svo vonsvikinn þegar Szczerek tók derhúfuna.

Majchrzak fékk nefnilega strákinn til sín í heimsókn og gaf honum þá derhúfu ásamt fleiri munum eins og hann sýndi á Instagram.

Eftir sigurinn á Khachanov varð Majchrzak, sem er í 76. sæti heimslistans, að draga sig úr keppni í þriðju umferð risamótsins vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×