Sport

Létti sig um tvö kíló og bætti heims­metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Armand Duplantis við töfluna sem sýnir heimsetið hans.
Armand Duplantis við töfluna sem sýnir heimsetið hans. Getty/DI YIN

Svíinn Armand Duplantis sló sitt eigið heimsmet í stangarstökki í gær þegar hann fór yfir 6,24 metra á Demantamóti í Xiamen í Kína.

Þessi 24 ára Svíi fór yfir 6,24 metra í fyrstu tilraun alveg eins og hann fór yfir 5,62 metra, 5,82 metra og 6,00 metra í fyrstu tilraun. Hann vann með miklum yfirburðum því Sam Kendricks varð í öðru sætinu með stökk yfir 5,82 metra.

Mælingar sýndu að Svíinn var fimm sentimetrum yfir ránni í heimsmetsstökkinu og það þýðir að hann gæti farið yfir 6,29 metra í framtíðinni.

Duplantis sló sitt fyrsta heimsmet árið 2020 og hefur síðan slegið það sjö sinnum til viðbótar. Hann leit hins vegar ekki allt of vel út undir lok innanhússtímabilsins.

„Já ég er búinn að missa tvö kíló síðan að innanhússtímabilinu lauk. Það var vakning fyrir mig þegar ég átti í þessum vandræðum í úrslitunum á HM innanhúss,“ sagði Duplantis.

Þar felldi hann 5,85 metra tvisvar og var nálægt því að missa af gullinu. Hann komst yfir í þriðju tilraun, fór á endanum yfir 6,05 metra og vann sitt fjórða heimsmeistaragull.

„Allt innanhússtímabilið gekk verr en ég bjóst við og ég var kærulausari en ég ætlaði mér. Vegna þessa hef ég síðasta eina og hálfa mánuðinn verið með meiri fókus á æfingum og passað betur upp á það sem ég er að borða,“ sagði Duplantis.

„Ég borða minni skammta og heilsusamari mat. Ég áttaði mig á því að ég væri að borða of mikið, allt of stóra skammta og of mikið af sykri og fitu. Það hefur breytt miklu fyrir mig þótt að ég hafi ekki breytti öðru mikið,“ sagði Duplantis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×