Erlent

Ís­lendingar enn blússandi hamingju­samir en blikur á lofti varðandi unga fólkið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Er unga fólkið að upplifa miðlífskreppu?
Er unga fólkið að upplifa miðlífskreppu? Getty

Ísland er í þriðja sæti á lista yfir hamingjusömustu þjóðir heims samkvæmt World Happiness Report 2024, á eftir Finnlandi og Danmörku. Það virðist hins vegar halla undan fæti hjá unga fólkinu, sem mælist síður hamingjusamt en áður.

Efst á lista, sem byggir á gögnum frá árunum 2021 til 2023 eru Finnland, Danmörk, Ísland, Svíþjóð, Ísrael, Holland, Noregur, Lúxemborg, Sviss og Ástralía. Bretland er í 20. sæti og Bandaríkin því 23. en neðst á listanum eru Afganistan, Líbanon, Lesótó, Síerra Leóne og Kongó.

Við samantekt listans er meðal annars horft til breytna á borð við verga landsframleiðslu á íbúa, lífslíkur, hvort einstaklingum finnist þeir hafa einhvern til að reiða sig á, hvort þeir njóti frelsis til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og hversu mikila spillingu þeir búa við.

 Samantekt ársins í ár leiddi í ljós að yngri kynslóðir í Norður-Ameríku, Kanada, Ástralíu og á Nýja Sjálandi eru nú síður hamingjusamar en eldri kynslóðirnar. Talað er um að áður hafi hamingja verið U-laga; það er að segja mælst mest við ungan aldur, minnkað þegar nær dregur miðjum aldri og tekið uppsveiflu á efri árum.

Nú sé staðan þannig að það sé engu líkara en að unga fólkið eigi í nokkurs konar miðlífskreppu.

Jan-Emmanuel De Neve, ritstjóri skýrslunnar, segir málið kalla á tafarlausar aðgerðir. Skýrslan varpar ekki beinu ljósi á hvað veldur en leiddar eru líkur að því að samfélagsmiðlar, tekjuójöfnuður, erfið staða á húsnæðismarkaði og áhyggjur vegna stríðsátaka og loftslagsbreytinga eigi þar þátt.

Þá er því spá að sama þórun muni eiga sér stað í vesturhluta Evrópu og hefur átt sér stað í Norður-Ameríku, að dragi úr hamingju yngri kynslóðarinnar.

World Happiness Report.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×