Sport

Sendir 81 árs gamlan eig­anda Dallas Cow­­boys í fað­ernis­­próf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jerry Jones sést hér með eiginkonu sinni Eugeniu Jones sem er hægra megin á myndinni. Þau hafa verið gift í 61 ár.
 Jerry Jones sést hér með eiginkonu sinni Eugeniu Jones sem er hægra megin á myndinni. Þau hafa verið gift í 61 ár. Getty/Ethan Miller

Dómstóll í Dallas hefur ákveðið að Jerry Jones, eigandi NFL-liðsins Dallas Cowboys, þurfi að gangast undir faðernispróf.

Málið tengist því að 27 ára gömul kona heldur því fram að Jones sé faðir hennar. Dómstóllinn hafnaði áfrýjun Jones frá 2022.

Konan heitir Alexandra Davis og segir að hún hafi komið undir í sambandi Jones og móður hennar á tíunda áratug síðustu aldar.

Lögfræðingar Jones gera allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir það að faðernisprófið verði framkvæmt og láta meðal annars reyna á lagalegt réttmæti þess að neyða Jones í slíkt próf.

Davis lögsótti Jones árið 2022 og sóttist eftir því að dómarinn myndi ógilda samkomulag móður hennar við Jones. Móðirin skrifaði undir slíkan samning þegar barnið var tveggja ára.

Samkvæmt Davis kom það það fram í samkomulaginu að Jones myndi styðja móðurina fjárhagslega svo framarlega hún opinberaði ekki að hann væri faðir Alexöndru. Jones segir að það sé ekki satt.

Jones giftist konu sinni Gene árið 1963. Þau eiga þrjú börn saman og öll börnin þeirra starfa hjá Cowboys félaginu. Hinn 81 árs gamli Jones er ekki bara eigandi félagsins heldur einnig forseti og framkvæmdastjóri Dallas Cowboys.

Lögfræðingar Jones segja að Alexandra Davis hafi þegar fengið samanlagt milljónir dollara frá Jones á ævi sinni.

Hann er milljarðamæringur og Dallas Cowboys er verðmætasta íþróttafélag Bandaríkjanna. Virði þess hefur þúsundfaldast síðan hann eignaðist félagið árið 1989.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×