Innlent

Seldu barni nikó­tín­púða en sleppa með skrekkinn

Árni Sæberg skrifar
Svens rekur fjölda nikótínpúðaverslana. Þessi er í Borgartúni í Reykjavík.
Svens rekur fjölda nikótínpúðaverslana. Þessi er í Borgartúni í Reykjavík. Vísir/Egill

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi úrskurð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að leggja 200 þúsund króna stjórnvaldssekt á Svens. Starfsmaður Svens var ekki talinn bera ábyrgð á því að 16 ára piltur nýtti sér fölsuð skilríki til þess að kaupa nikótínpúða.

Í úrskurði nefndarinnar segir að málið hafi hafist með ábendingu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, í apríl árið 2023, þess efnis að daginn áður hefði Svens selt og afhent barni nikótínpúða. 

Í andsvörum verslunarinnar við meðferð málsins hafi komið fram að starfsfólk væri minnt daglega á að biðja um skilríki léki vafi á aldri kaupanda. Einnig hafi Svens upplýst að til væri myndband af atvikinu úr myndavélakerfi. 

Á upptökunni, sem látin var í té við meðferð málsins, megi sjá ungan einstakling sýna starfsmanni í versluninni á skjá á farsíma og ljóst sé af samhenginu að það hafi verið gert til að sýna fram á aldur til kaupa á vörunni.

Engin hlutræn ábyrgð til staðar

Í úrskurðinum segir að af hálfu Svens hafi verið bent á það að starfsmaðurinn hafi uppfyllt skyldu sína um að óska eftir skilríkjum, í samræmi við ákvæði laga um nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. 

Ákvæði laganna byggi ekki á hlutlægri refsiábyrgð. Augljóst sé að vafi hafi leikið á því hvort viðkomandi einstaklingur hafi verið orðinn 18 ára og hafi hann því verið spurður um skilríki, sem hann hafi sýnt. Þau skilríki hafi á hinn bóginn verið fölsuð eða röng.

Í hinni kærðu ákvörðun segi að samkvæmt lögunum skuli beita stjórnvaldssektum hvort sem brot gegn lögunum séu framkvæmd af ásetningi eða gáleysi. Í tilfelli Svens hafi nikótínvaran verið seld kaupanda í góðri trú. Starfsmaður Svens hafi hvorki sýnt af sér ásetning né gáleysi, þar sem sannað sé í málinu að beðið hafi verið um skilríki til þess að sannreyna að kaupandi væri orðinn 18 ára.

Verslunin geti ekki verið dreginn til ábyrgðar með refsikenndum viðurlögum fyrir ólögmæta háttsemi piltsins, en tiltölulega einfalt sé að falsa rafræn skilríki. Svens hafi sett upp skilti í verslunum sínum þar sem varað sé við þeirri háttsemi að framvísa fölsuðum skilríkjum. Á skiltinu segi: „Að framvísa fölsuðum skilríkjum er skjalafals. Skjalafals verður kært til lögreglu.“

Opinbera leiðbeiningar um stafræn ökuskírteini

Af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi verið bent á að í lögunum sé tekið fram að leiki vafi á um aldur kaupanda geti sala einungis farið fram ef hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára. 

Það hafi því verið rétt viðbrögð hjá starfsmanni verslunar Svens að kalla eftir skilríkjum áður en sala hafi farið fram. Þó verði ekki talið nóg að biðja um skilríki heldur verði jafnframt að sannreyna gildi þeirra.

Líkt og tiltekið sé í kæru sé tiltölulega einfalt að falsa rafræn skilríki og því ætti verslunin að vera meðvituð um nauðsyn þess að brýna fyrir starfsmönnum að sannreyna rafræn skilríki. Til séu opinberar leiðbeiningar um hvernig starfsmenn fyrirtækja sem velji að taka á móti stafrænum ökuskírteinum eigi að sannreyna þau og leggi lögreglan áherslu á að fyrirtæki þjálfi „framlínufólk“ við að sannreyna þau. 

Af myndbandsupptöku megi sjá að starfsmaður hafi gefið sér lítinn sem engan tíma til að skoða eða sannreyna það sem viðskiptavinurinn hafi framvísað. Sú fullyrðing að fölsuðum skilríkjum hafi verið framvísað verði að teljast ósönnuð þar sem engin gögn geti sýnt fram á það með vissu. Þó að það megi teljast líklegt að svo hafi verið sé ekki hægt að slá því á föstu. Þrátt fyrir það leysi það Svens ekki undan þeirri ábyrgð að sannreyna skilríkin áður en sala fór fram.

Samkvæmt lögunum skuli stjórnvaldssektum beitt óháð því hvort lögbrot séu framin af ásetningi eða gáleysi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji sannað að Svens hafi brotið gegn ákvæði laganna af gáleysi og því verði ekki um það deilt hvort ákvæði laganna byggi á hlutlægri refsiábyrgð. Þar sem Svens hafi ákveðið að taka á móti rafrænum skilríkjum hafi fyrirtækið sýnt af sér gáleysi með því að þjálfa starfsfólk sitt ekki betur í að sannreyna rafræn skilríki með einföldum og viðurkenndum hætti. Þessi vanræksla Svens hafi leitt til þess að starfsmaður hafi ekki gætt þeirrar varkárni sem af honum mætti ætlast.

Leiðbeiningar hafi ekkert gildi að lögum

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að á þjónustuvef sýslumanna á vefnum Ísland.is séu upplýsingar um stafræn ökuskírteini, sem auðvelt sé að nálgast. Þar sé svohljóðandi fyrirsögn: „Viltu sannreyna framvísað stafrænt ökuskírteini“. 

Þar segi að hugbúnaðarskanni sem gefinn sé út í smáforriti Ísland.is sé hluti af tæknilausn stafrænna ökuskírteina og sannreyni á öruggan hátt réttmæti skírteinis sem handhafi framvísi. Skanninn sé opinn öllum sem vilji hann nota og megi nálgast hann í Ísland.is smáforritinu. 

Þá séu einnig á sama stað leiðbeiningar fyrir fyrirtæki „sem velja að nota stafrænt ökuskírteini til auðkenningar“. Í leiðbeiningum þessum segi meðal annars að taki fyrirtæki, einstaklingar eða stofnanir þá ákvörðun að taka við stafrænum ökuskírteinum sem gildum persónuskilríkjum sé mikilvægt að þjálfa „framlínufólk“ í að sannreyna ökuskírteinin. Fjallað sé um að það geti verið mismunandi eftir tæki og stýrikerfi hvernig það sé gert en öruggast sé að nota skanna eða vafra til að kalla eftir upplýsingum.

Aftur á móti segir eftirfarandi í lok niðurstöðunnar:

„Nefndar leiðbeiningar hafa ekki almenna þýðingu að lögum. Er hvorki að finna skýr fyrirmæli í lögum nr. 87/2018 né öðrum bindandi reglum þess efnis að kæranda beri að sannreyna skilríki. Verður því að líta svo á að með því óska eftir skilríkjum hafi háttsemi starfsmanns kæranda verið í samræmi við fyrirmæli 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/2018 og hafi hann ekki sýnt af sér gáleysi sem kærandi beri ábyrgð á. Í ljósi þessa verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×