Sport

Suður­landið heldur uppi merki Ís­lands á Woda­pa­looza mótinu í Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski hópurinn á Woda­pa­looza. Talið frá vinstri: Breki Þórðarson, Tindur Eliasen, Guðbjörg Valdimarsdóttir, Björgvin Karl Guðmundsson. Bergrós Björnsdóttir og Eggert Ólafsson þjálfari.
Íslenski hópurinn á Woda­pa­looza. Talið frá vinstri: Breki Þórðarson, Tindur Eliasen, Guðbjörg Valdimarsdóttir, Björgvin Karl Guðmundsson. Bergrós Björnsdóttir og Eggert Ólafsson þjálfari. @brekibjola

Ísland á þrjá flotta keppendur í meistaraflokki á Wodapalooza CrossFit stórmótinu í ár, einn í einstaklingskeppninni og tvo í liðakeppni og þeir eiga eitt sameiginlegt. Að auki keppa síðan tveir aðrir Íslendingar á mótinu.

Wodapalooza mótið hefst í Miami á Flórída í dag og stendur yfir til sunnudags. Þetta er eitt stærsta CrossFit mót ársins.

Hin unga Bergrós Björnsdóttir er sú eina sem keppnir í einstaklingskeppni mótsins en hún fékk boð um að færa sig úr unglingaflokki yfir í meistaraflokk kvenna.

Bergrós vann brons í unglingaflokki á síðustu heimsleikum og er ríkjandi Íslandsmeistari kvenna í CrossFit. Hún var aðeins sextán ára þegar hún varð Íslandsmeistari og setti með því met.

Hvergerðingarnir Björgvin Karl Guðmundsson og Guðbjörg Valdimarsdóttir keppa bæði í liðakeppninni en eru þó ekki í sama liðinu.

Björgvin Karl, okkar öflugasti CrossFit maður í meira en áratug, er í liði með Patrick Vellner frá Kanada og Travis Mayer frá Bandaríkjunum. Liðið ber nafnið Tres Leches.

Guðbjörg, sem varð Íslandsmeistari kvenna í CrossFit árið 2022 og öðru sæti á síðasta Íslandsmeistaramóti, er í liði með Nicole Crouch frá Bretlandi og Katie Brock frá Nýja-Sjálandi. Liðið ber nafnið NGH.

Fyrir utan keppni í meistaraflokkunum þá eiga Íslendingar einnig tvo aðra keppendur á mótinu.

Breki Þórðarson keppir í flokki fatlaðra en hann var með á heimsleikunum í fyrra. Breki fæddist með sjaldgæfan fæðingargalla og er einhentur en lætur það ekki stoppa sig.

Tindur Eliasen keppir síðan í unglingaflokknum en hann komst í gegnum undankeppnina eins og Bergrós. Tindur hefur oftar en einu sinni orðið Íslandsmeisari í CrossFit í sínum aldursflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×