Innlent

Kristján segir Hval ætla að krefjast skaða­bóta

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf.
Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf. Vísir/Vilhelm

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf. segir fyrirtækið ætla að sækja bætur vegna þess stórfellda tjóns sem ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur um tímabundna stöðvun hvalveiða síðasta sumar hafi valdið félaginu og starfsmönnum þess, í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Álit umboðsmanns birtist í gær og var niðurstaða hans sú að frestunin hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sagðist í samtali við fréttastofu í gær taka álitið alvarlega en sagðist ekki ætla að segja af sér vegna málsins.

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf. segir í Morgunblaðinu að niðurstaða umboðsmanns sé afdráttarlaus og skýr um það að ráðherra hafi brotið gegn atvinnu-og eignaréttindum. Svandís hafi látið eigin pólitísk sjónarmið ráða för hvað sem öðrum hagsmunum hafi liðið.

Þá er haft eftir lögmanni fyrirtækisins að álit umboðsmanns sé í samræmi við meginforsendur málatilbúnaðar Hvals hf. Ráðherra hafi hvorki gætt að stjórnarskrárvörðum réttindum Hvals né lagasjónarmiðum sem bjuggu að baki reglugerðarheimild sem finna megi í 4. grein laga um hvalveiðar og því sé reglugerðin án lagastoðar.

Fréttastofa ræddi við Teit Björn Einarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og Gísla Rafn Ólafsson, þingmann Pírata, um álit umboðsmanns um hvalveiðibann matvælaráðherra, í gærkvöldi.

Teitur segir ráðherrann hafa beðið álitshnekki. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins líti álit umboðsmanns alvarlegum augum. Gísli segir Pírata telja eðlilegast að Svandís segi af sér ráðherraembætti.


Tengdar fréttir

Tekur álitið alvarlega en hyggst ekki segja af sér

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir að hún hafi ekki átt annan kost en að bregðast við með því að fresta upphafi hvalveiða við upphaf vertíðar. Hún segist taka álit umboðsmanns Alþingis alvarlega og að hún muni áfram berjast fyrir breytingum á „úreltum“ hvalveiðilögum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×