Sport

Van Gerwen var illt í maganum í gær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael van Gerwen fann ekki fjölina sína gegn Scott Williams.
Michael van Gerwen fann ekki fjölina sína gegn Scott Williams. getty/Tom Dulat

Michael van Gerwen glímdi við óþægindi í maga þegar hann tapaði fyrir Scott Williams í átta manna úrslitum á heimsmeistaramótinu í pílukasti í gær.

Van Gerwen tapaði leiknum gegn Williams, 5-3. Hann ræddi ekki við fjölmiðla eftir viðureignina og var fljótur að yfirgefa Alexandra höllina í London þar sem HM fer fram.

Eftir leikinn greindu hollenskir fjölmiðlamenn frá því að Van Gerwen væri illt í maganum og hafi því verið fljótur að láta sig hverfa úr Ally Pally. Magaverkurinn ku hafa haft áhrif á frammistöðu hans í leiknum gegn Williams.

Van Gerwen þarf að bíða enn lengur eftir sínum fjórða heimsmeistaratitli. Hann varð síðast heimsmeistari 2019. Hollendingurinn komst í úrslit á HM í fyrra en tapaði þar fyrir Michael Smith, 7-3.

Williams mætir Luke Humphries í undanúrslitum HM í kvöld. Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast ungstirnið Luke Littler og heimsmeistarinn fyrrverandi Rob Cross við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×