Sport

Ís­lenskir pílufarar í sér­hönnuðum spari­fötum í Ally Pally

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslenski hópurinn tekur sig vel út.
Íslenski hópurinn tekur sig vel út. Aðsend

Eins og síðustu ár hefur sannkallað píluæði gripið um sig á Íslandi í kringum jólin. Hópur Íslendinga fór skrefinu lengra en flestir og situr í þessum rituðu orðum í höllinni í sérhönnuðum íslenskum sparifötum.

Heimsmeistaramótið í pílukasti er fyrir löngu orðið hluti af jólahefðum margra Íslendinga og fylgjast margir spenntir með þessari íþrótt, sem virðist vera nokkuð einföld, í kringum jólahátíðina og fyrstu daga nýja ársins.

Sala á varningi tengdum íþróttinni er líklega aldrei meiri en í kringum mótið og borið hefur á því undanfarin ár að Íslendingar eru farnir að gera sér ferð út fyrir landsteinana til að fylgjast með mótinu með berum augum.

Útvarpsmaðurinn og vallarþulurinn Páll Sævar Guðjónsson hefur lýst heimsmeistaramótinu í pílukasti í sjónvarpi af stakri snilld undanfarin ár, en hann fékk hins vegar stutt frí frá lýsingunni í ár til að láta gamlan draum loksins rætast.

Páll Sævar er um þessar mundir staddur í höllinni, Ally Pally, þar sem hann og vinafólk hans fylgist með nokkrum af bestu pílukösturum heims. Eins og venjan er í Ally Pally mættu Páll Sævar og föruneyti hans í áberandi einkennisklæðnaði og skarta þau sérhönnuðum íslenskum sparifötum.

Útvarspmaðurinn, vallarþulurinn og lýsandinn sendi Vísi myndir af hópnum og er óhætt að segja að einkennisbúningurinn hafi heppnast vel eins og sjá má.

Búningur karlanna ber íslenska skaldamerkið á bakinu.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×